Afdrif skýrslu Byggðastofnunar um Vestfirði
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Eins og fram kom þá hefur hæstv. forsrh. beðið mig um að svara þessari fsp. og mun ég byggja svar mitt á þeirri grg. sem mér hefur borist frá forsrn.
    Svarið er svohljóðandi: Forsrh. dreifði skýrslunni á fundi ríkisstjórnarinnar hinn 12. sept. 1989 ásamt bréfi Byggðastofnunar, dags. 28. ágúst 1989, þar sem m.a. sagði:
    ,,Byggðaáætlun fyrir Vestfirði var unnin að beiðni Fjórðungssambands Vestfirðinga frá árinu 1986. Verkið var unnið í nánu samráði við sveitastjórnarmenn á Vestfjörðum. Á fjórðungsþingi þeirra árið 1987 var það lagt fram og kynnt. Þingið gagnrýndi verkið í almennum atriðum og fór þess á leit að haft yrði enn frekara samráð við sveitarstjórnarmenn um þriðja hluta verksins, þ.e. tillögukaflann. Var þetta gert og ákveðið að rita skýrslu um áætlunina að mestu leyti upp á nýtt.
    Endurritaður þriðji hluti áætlunarinnar var lagður fram á fjórðungsþingi 1988 og þar var gerð um hann ályktun. Í henni kemur fram að misræmi er á milli þeirra væntinga sem Vestfirðingar höfðu gert sér til innihalds áætlunarinnar og þeirra möguleika sem Byggðastofnun telur vera á innihaldi og þá einkum um ákveðna tillögugerð í slíkum áætlunum um aðgerðir og framkvæmdir ríkisins. Vestfirðingar fara því þess á leit [eins og þar kemur fram] að hinum ýmsu málaflokkum verði vísað til fagráðuneyta. Þar verði unnið yfirlit yfir aðkallandi og óloknar framkvæmdir og sett fram tímasett framkvæmdaáætlun sem leitað verði staðfestingar framkvæmdarvalds og sveitarstjórna á.
    Þessi beiðni Vestfirðinga er rökrétt. Lög um byggðaáætlanir segja hins vegar ekki til um hvaða hlutverk þeim er ætlað né hvers eðlis þær eiga að vera. Væntingar Vestfirðinga til þessarar áætlunar voru að hún mótaði stefnu ríkisins í uppbyggingu opinberrar þjónustu og í stuðningi við atvinnulíf og þá frekast til að flýta framkvæmdum sem taldar eru mikilvægar.
    Á milli laganna og þessara væntinga er mikið misræmi sem hefur leitt til vandkvæða eins og meðferð Vestfjarðaáætlunar er dæmi um. Byggðastofnun telur sig ekki geta farið inn á þá braut að gera áætlanir um uppbyggingu þjónustu sem heyrir undir fagráðuneyti að eigin frumkvæði eða að beiðni aðila í héraði. Hið sama gildir um tillögugerð í landbúnaði og sjávarútvegi. Stofnunin sér engar forsendur til þess að gera tillögur sem hugsanlega brjóti í bága við almenna stefnumótun ráðuneyta þessara atvinnugreina. Hins vegar er starfsmönnum stofnunarinnar afar vel ljóst að byggðavandi Vestfjarða er mikill og tvímælalaust meiri en vandi annarra landshluta. Haldi þróunin áfram óbreytt verður með hverju ári sem líður erfiðara að nýta hin miklu framleiðslumannvirki á Vestfjörðum og hin gjöfulu fiskimið úti fyrir ströndum fjórðungsins.
    Skv. þeim lögum sem um byggðaáætlanir fjalla skal það verk sem nú liggur fyrir lagt fyrir forsrh. Í

samræmi við vilja Vestfirðinga vill Byggðastofnun fara þess á leit að í meðferð ríkisstjórnarinnar á áætlun þessari geri ráðherrar einstakra fagráðuneyta grein fyrir framkvæmdaáformum innan ráðuneyta sinna á Vestfjörðum í þeim atriðum sem á er minnst í tillögukafla áætlunarinnar. Þetta er hins vegar ljóslega ekki einföld leið til að komast að því hvað fyrir stjórnvöldum vakir um framtíð þessa landshluta og með þessu móti er samræming og stefnumótun einnig erfið. En þegar greinargerðir liggja fyrir kemur til greina að Byggðastofnun verði falið að annast samræmingu aðgerða fyrir hönd ríkisins í fullu samráði við viðkomandi ráðuneyti. Mætti þá gera tilraun til að byggja upp samstarfskerfi og reyna það í starfi sem síðan gæti orðið að fyrirmynd um setningu nýrra laga um byggðaáætlun.``
    Málið var rætt á fundi ríkisstjórnarinnar hinn 12. sept. 1989 og ákveðið að forsrh. skrifaði Byggðastofnun og tilkynnti að bréfið hefði verið lagt fram og ráðherrar einstakra ráðuneyta hefðu málið til meðferðar hver á sínu sviði. Sama dag var Byggðastofnun sent bréf þess efnis.
    Ég vil bæta því við að að sjálfsögðu hefur verið samstarf milli einstakra ráðuneyta og Fjórðungssambands Vestfjarða og Vestfirðinga almennt í framhaldi af þessari áætlun. Ég get nefnt sem dæmi að við í sjútvrn. unnum umfangsmikið starf um aflabrögð og kvótamál Vestfirðinga og ég vænti þess að það starf hafi verið nokkurs metið. Einnig er rétt að taka það fram að sjútvrn. hefur komið á góðu samstarfi milli Vestfirðinga og Grænlendinga, sem m.a. hefur leitt til þess að aðilar á Vestfjörðum hafa fengið sérstakar heimildir til loðnuveiða af kvóta Grænlendinga sem aðrir hafa ekki fengið. Þetta hefur gerst með samvinnu við sjútvrn.
    Að því er samgrn. varðar þá hefur farið fram umfangsmikið starf að því er jarðgangagerð varðar, sem öllum er kunnugt um, og það á að sjálfsögðu jafnframt við um hafnaáætlun og vegáætlun. Að því er heilbrrn. varðar þá er ávallt í gangi samstarf að því er varðar þá þjónustu og jafnframt á sviði menntamála.
    Ég vænti þess og tel fullvíst að þessi áætlun, byggðaáætlun fyrir Vestfirði, hafi mjög verið til gagns í samstarfi einstakra ráðuneyta við Vestfirðinga. Hitt er svo annað mál, eins og fram kemur í þessu svari, að þessa hluti mætti samræma mun betur og ég vænti þess að það sé m.a. það verkefni sem menn standa frammi fyrir í þeirri endurskoðun á framkvæmd byggðamála sem nú stendur yfir, m.a. er ætlunin að breyta þar löggjöf.