Um atkvæðagreiðslur
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Forseti (Árni Gunnarsson) :
    Til þessa fundar var sérstaklega boðað svo að fram mættu fara atkvæðagreiðslur um fjögur dagskrármál. Það horfir ekki vel með að það takist að greiða atkvæði í dag því hér eru aðeins mættir 14 stjórnarliðar í upphafi fundar og var þó sérstaklega hringt í alla hv. neðrideildarmenn til þess að boða þá til fundar og þeim gerð grein fyrir því að hér ætti að fara fram atkvæðagreiðsla. (Gripið fram í.) Það kann að vera rétt að það séu átta stjórnarliðar í salnum en í húsið eru komnir 14 stjórnarliðar og 9 stjórnarandstæðingar. Það gerir 23 þingmenn.
    Forseti er eiginlega hálfráðvilltur vegna þessarar stöðu og er skapi næst að fella niður þennan fund því að það gengur auðvitað ekki þegar sérstaklega er boðað til fundar þar sem eiga að fara fram atkvæðagreiðslur að aðeins hluti af stjórnarliðum skuli vera mættur. Engu að síður ætlar forseti að láta reyna á fyrsta dagskrármálið og athuga hvort hann fær nægilegan fjölda hv. þingdeildarmanna í salinn.