Málefni geðsjúkra afbrotamanna
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Hér er einu sinni enn hreyft máli á hv. Alþingi sem vissulega er ekki í þeim farvegi sem það hefði þurft að vera og er ekki til sóma löggjafarsamkomunni eða framkvæmdarvaldinu. Ég verð þó að segja það að eftir umræður að undanförnu og reyndar í samræmi við svar sem ég gaf við fyrirspurn hér nú rétt fyrir sl. áramót, þá hafa mál tekið allmiklum stakkaskiptum og veruleg hreyfing er loksins á málinu. En það er ekki svo að það sé að byrja þá eða byrja núna. Það er búið að vera til umræðu lengi, eins og hv. málshefjandi, 13. þm. Reykv., hefur látið skýrt koma fram.
    Þann tíma sem ég hef setið á stóli heilbrigðisráðherra hef ég reynt að ýta á eftir þessum málum með öllum þeim leiðum sem ég hef talið mig hafa yfir að ráða. Auðvitað hefur verið leitað álits manna. Það hafa verið settir á fót starfshópar til þess að fylgja því eftir og við höfum reynt að leita eftir fjárveitingum. Við höfum einnig reynt að leita eftir samkomulagi og samstarfi við geðdeildir sjúkrahúsanna.
    Það er hins vegar líka rétt sem kom fram í máli hv. málshefjanda að um þetta hafa í gegnum tíðina verið nokkuð skiptar skoðanir og e.t.v. einhver átök um það hvernig þessum málum ætti að koma fyrir og það er synd að þurfa að segja það og viðurkenna það að slík átök innan ríkisvaldsins og stjórnkerfisins skuli þurfa að bitna á þeim sem síst skyldi. En það sem ég meinti með því að segja að málin hafi nú komist á skrið, sem ég vona að leiði nú alveg á næstu dögum til þess að við sjáum einhverjar aðgerðir, ekki bara skýrslugerðir og orð, er það að í samræmi við það sem ég sagði hér skömmu fyrir áramótin, þá fékk ég í hendur áfangaskýrslu frá nefnd um geðsjúka afbrotamenn, dags. 12. des., og þar sem hún er ekki löng langar mig til þess að fara þar yfir . . . (Forseti hringir.) Er það svo, herra forseti, að tíma sé lokið? Þá veit ég nú bara ekki hvernig ég á að svara þessu máli, en ég verð, held ég, að fá aðeins að bæta við örfáum orðum.
    Þessi nefnd skilaði áfangaskýrslu 12. des. þar sem lagt er til að komið verði á fót réttargeðdeild, eins og reyndar hefur margkomið fram. Hún verði starfrækt í tengslum við geðdeildir spítalanna, annaðhvort Borgarspítala, Landspítala eða Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, sem eru þau þrjú sjúkrahús sem hafa þessa þjónustu upp á að bjóða, og hlutverk hennar verði þríþætt: Í fyrsta lagi að vista þá sem dæmdir eru ósakhæfir, í öðru lagi að annast geðlæknisþjónustu í fangelsum landsins og í þriðja lagi að framkvæma geðrannsókn á þeim sem hefur verið gert að sæta geðrannsókn.
    Í öðru lagi lagði nefndin til að inn í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 1991 kæmi heimild um að taka á leigu eða kaupa hús, breyta því þannig að það henti fyrir starfsemi slíkrar deildar og í þriðja lagi að heilbrrh. og dómsmrh. taki upp viðræður um það við stjórnendur áðurnefndra sjúkrahúsa með hvaða hætti slík deild geti

starfað.
    Strax eftir að ég hafði fengið þetta álit 12. des. lagði ég svohljóðandi tillögu fyrir ríkisstjórnina:
    1. Að nú þegar verði auglýst staða forstöðumanns eða yfirlæknis réttargeðdeildar.
    2. Að heimild fáist í 6. gr. fjárlaganna til húsakaupa.
    3. Að í fjárlögum fyrir 1990 er óráðstafað nokkurri fjárhæð sem fáist færð milli ára, 10 millj. kr., til ráðstöfunar á árinu 1991.
    4. Að inn í fjárlögin komi upphæð til ráðstöfunar, 10 -- 15 millj. kr., þannig að við höfum 20 -- 25 millj.
    Þetta gekk eftir. Tillagan var samþykkt. Við fengum 12 millj. inn í fjárlögin, 10 millj. eru geymdar. Auðvitað er þessi upphæð, 22 millj., of lítil til þess að starfrækja öfluga deild allt árið, en það er þó alla vega til þess að hefja þessa starfsemi. Heimild er til húsakaupa og staða forstöðumanns hefur verið auglýst. Umsóknarfrestur er liðinn. Ein umsókn hefur borist og ég vonast til þess að hægt verði að ganga frá ráðningu réttargeðlæknis, yfirlæknis þessarar nýju deildar, alveg næstu daga.
    Við höfum að undanförnu reynt að leysa mál þeirra sem verst eru settir með því að vista þá annars staðar en í fangelsum ef þess væri nokkur kostur. Tveir hafa verið vistaðir á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, einn hefur verið vistaður hér á Vogi, sem auðvitað er nú ekki staður sem er heppilegastur en vonandi betri en fangelsin, og tveir einstaklingar eru nú vistaðir erlendis með ærnum tilkostnaði. Við höfum haft samstarf við sænska réttargeðdeild þar sem starfar íslenskur læknir eða er forstöðumaður, og einn er enn á förum þangað en ég vona að það verði sá seinasti sem við þurfum að senda í svoleiðis útlegð, ef ég má nota það orð yfir þetta ástand.
    En vandamálin eru auðvitað miklu fleiri en hér hafa verið rakin. Það eru vandamál fólks sem ekki er dæmt ósakhæft, þ.e. fólks sem hefur komið út af geðdeildum en ekki fengið þá framhaldsmeðferð samfélagsins sem það hefði þurft á að halda. Það er auðvitað að hluta til félagslegt vandamál og nú er á vegum félmrn. og heilbrrn. unnið sameiginlega að því að reyna að finna leiðir í því sambandi. Það er gert ráð fyrir nýju sambýli fyrir geðsjúka á hinum nýsamþykktu fjárlögum þannig að málin hafa að undanförnu fengið nokkru betri umfjöllun heldur en áður og ég vona svo sannarlega að við lítum til bjartari framtíðar hvað þetta mál varðar.