Málefni geðsjúkra afbrotamanna
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Hér er enn hreyft máli sem þeir eiga mest undir sem bágast eiga og í mestar raunir hafa ratað í okkar þjóðfélagi og eins og kom fram bæði í máli hv. fyrirspyrjanda og hæstv. heilbrrh. hefur þetta mál verið hér á baugi nokkuð lengi.
    Mig langar aðeins að nota þessar tvær mínútur sem ég hef til þess að ræða um hópinn sem um er að ræða. Það er talað um geðsjúka fanga en þarna er um að ræða stærri hóp í rauninni. Það má skipta þessum hópi í þrennt: Í fyrsta lagi þeir sem dæmdir eru til vistar á viðeigandi hæli, svokallaðir öryggisgæslumenn, ósakhæfir. Í öðru lagi geðsjúkir afplánunarfangar eða fangar með geðræn vandamál. Í þriðja lagi menn sem úrskurðaðir eru til að undirgangast geðrannsókn. Málefni allra þessara manna eru í rauninni undir í þessari umræðu.
    Nefndin sem við hæstv. heilbrrh. skipuðum á sl. ári til þess að leita lausnar í þessu efni kom með þá niðurstöðu eins og raunar hafði fyrr verið að ráðið væri að stofna réttargeðlæknisdeild til umönnunar fyrir alla þessa hópa --- ég tek það fram: alla þessa hópa. Mergur málsins í niðurstöðunni er þessi: Hér er um heilbrigðismál að ræða sem verður að taka á samkvæmt því. Og niðurstaðan, eins og málin standa í dag og það sem er annálsvert í þessu efni, það hefur orðið samkomulag milli tveggja ráðuneyta um þetta togstreitumál og það samkomulag tryggir framkvæmd á næstu dögum sem öllu máli skiptir. Það er aðalatriðið.