Málefni geðsjúkra afbrotamanna
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Árni Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Að gefnu tilefni ræddi stjórnarnefnd ríkisspítalanna þetta mál á fundi í hádeginu í dag. Það er ekki heimilt að greina frá þeim gögnum sem lögð voru fram í þeirri umræðu sem þar fór fram, en ég hygg að niðurstaðan hafi verið sú í megindráttum að þessi mál yrðu ekki leyst nema á þann veg sem nú er verið að gera í góðri samvinnu við hæstv. dómsmrh. og hæstv. heilbrrh., þ.e. að koma á fót réttargeðdeild.
    Það er enginn vafi á því að þetta er eitt viðkvæmasta mál sem við er að fást í þjóðfélagi nútímans. Geðsjúkir afbrotamenn hafa verið hýstir í fangelsum. Við vitum að þeir hafa verið hýstir á Litla-Hrauni, m.a. um langan tíma sumir hverjir. Ég hygg að staðan þar sé þannig að fangaverðir á Litla-Hrauni telji að þar séu nú menn sem ekki eigi þar heima og þarf auðvitað að athuga þau mál mjög vandlega.
    Að undanförnu hafa birst í dagblöðum ávörp frá áhugafólki um geðverndarmál. Undir þessi ávörp hafa ritað nöfn sín margir þjóðkunnir Íslendingar, þar á meðal helftin af alþingismönnum.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þetta en ég hygg að niðurstaða okkar allra sem hér höfum talað í dag sé sú að það sé í raun verið að gera mjög gott átak í að reyna að leysa þann vanda sem við blasir á þessu sviði og er það vel.