Vestnorræna þingmannaráðið 1990
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 3. þm. Norðurl. e. fyrir þær skýrslur sem hann hefur flutt hér um ályktanir og starfsemi Vestnorræna þingmannaráðsins. Ég vil láta það koma fram að ég tel samstarf þessara þjóða afar mikilvægt og það beri að efla. Það er nú svo með þessar þjóðir, sem mynda það svæði sem kallað er Vest-Norden, Grænland, Ísland, Færeyjar og Vestur - Noreg, að þær hafa mjög sameiginlega hagsmuni, sömu vandamál og áhugamál þeirra eru þau sömu á mörgum sviðum vegna svipaðra aðstæðna. Ég vil sérstaklega taka undir það sem kom fram í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. e. um mengun hafsins og samstarf á þeim sviðum. Reyndar kom það fram í ræðu hæstv. umhvrh. hér áðan hversu nauðsynlegt er að vinna í þeim efnum. Við eigum einnig samleið með þessum ríkjum í því að við viljum nýta auðlindir hafsins skynsamlega en við viljum vernda þá stofna sem sótt er í og fara þar að með gát og skynsemi. Þetta eru sameiginleg áhugamál allra þessara þjóða. Á þessum sviðum er mjög mikið verk að vinna.
    Það er eitt svið sem ég vildi minnast á sem hefur ekki komið inn í þessa umræðu enn en það eru samgöngumálin. Það vill nú svo til að á þeim sviðum er orðið nokkuð langþróað samstarf milli Íslendinga og Færeyinga. Þar á ég við ferjusiglingarnar milli þessara landa á sumrin, siglingar Norröna. Þetta samband var tekið upp að frumkvæði Færeyinga á sínum tíma og hefur nú staðið um alllangt árabil og hefur haft gífurlega mikla þýðingu fyrir okkur Íslendinga, þó við séum aðeins minnihlutaeigendur í þessu fyrirtæki. Það væri verðugt verkefni að setja af stað könnun á því hvort þetta samstarf gæti verið víðtækara, hvort t.d. væri hægt að opna nýjar flugleiðir milli þessara landa. Ég er viss um að það hefði einnig gífurlega þýðingu. Það hefur oft verið rætt í gegnum árin hvort það væri mögulegt að hefja áætlunarflug á nýjum leiðum milli Grænlands, Íslands og Færeyja og yfir til Skandinavíu. Þetta væri verðugt verkefni að taka upp á þessum vettvangi.
    Ég vil undirstrika þýðingu þessa samstarfs og tek undir það sem þeir hv. ræðumenn, sem hér hafa talað á undan mér, hafa sagt um þau efni. Ég er sammála þeim markmiðum sem koma fram í ályktunum Vestnorræna þingmannaráðsins og skýrslu ráðsins sem hér liggur fyrir.