Framleiðsla vetnis
Mánudaginn 25. febrúar 1991


     Frsm. atvmn. (Árni Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. hv. atvmn. vegna till. til þál. um framleiðslu vetnis. Í nál. segir, með leyfi forseta, á þessa leið:
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fékk til viðræðna dr. Braga Árnason prófessor og Garðar Ingvarsson, forstöðumann markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar. Umsagnir um tillöguna bárust frá Áburðarverksmiðju ríkisins, dr. Braga Árnasyni, Iðntæknistofnun Íslands, markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar, Orkustofnun, Raunvísindastofnun Háskóla Íslands og Verkfræðingafélagi Íslands.
    Í máli þeirra sem komu á fund nefndarinnar kom fram að vinnsla vetnis væri mjög áhugaverður kostur fyrir Íslendinga og sjálfsagt væri að fylgjast vel með framþróun sem ætti sér stað á þessu sviði. Hins vegar væri ekki tímabært að hefja framleiðslu vetnis hér á landi þótt svo verði e.t.v. fyrir aldamót. Ýmis tæknivandamál, svo sem hvernig á að geyma vetni, þarf að yfirstíga áður en framleiðsla getur hafist fyrir alvöru. Þá er vetni tvöfalt dýrari orkugjafi en olía og því ekki samkeppnishæft. Unnið er að margvíslegum tilraunum með vetni sem orkugjafa, m.a. eiga Evrópubandalagið og Kanada í slíkri samvinnu. Er sjálfsagt að fylgjast vel með þeim rannsóknum og er þegar komið á samstarf við þýska aðila um vetnisrannsóknir. Háskóli Íslands vinnur að forathugunum á því hvort unnt er að nota háhita til þéttingar á vetni. Enn fremur má benda á að Evrópubandalagið telur rannsóknir á vetni til umhverfismála.
    Nefndin telur ekki tímabært að Alþingi álykti um þessa ítarlegu tillögu um framleiðslu á vetni en tekur undir þau meginsjónarmið sem þar koma fram og ítrekar nauðsyn þess að Íslendingar fylgist með og taki þátt í rannsóknum á vetni. Í trausti þess að svo verði gert leggur nefndin til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Matthías Á. Mathiesen og Hreggviður Jónsson voru fjarstaddir afgreiðslu málsins, en undir nál. rita hv. þm. Árni Gunnarsson, Jón Kristjánsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Geir H. Haarde og Geir Gunnarsson.