Alþjóðaþingmannasambandið
Mánudaginn 25. febrúar 1991


     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég stend hér upp til þess að gera grein fyrir skýrslu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sem útbýtt hefur verið hér fyrr á þessu þingi sem 165. máli á þskj. 178. Þess má einnig geta að frá því að málefni Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins voru rædd á síðasta þingi hefur verið útbýtt annarri skýrslu sem kom hér fram sem 567. mál á síðasta þingi eftir að umræður fóru fram um fyrri skýrslu deildarinnar á því þingi.
    Ég vil áður en ég vík að efni skýrslunnar sjálfrar rétt vekja athygli á því að Alþingi samþykkti á síðasta vori með þál. sérstakar starfsreglur fyrir Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins sem gefnar hafa verið út sérstaklega í bæklingi, sem þingmönnum á að vera tiltækur, ásamt með lögum sambandsins og almennum reglum um alþjóðanefndir á vegum Alþingis sem forsetar þingsins gáfu út á síðasta vori. Starfsreglur Íslandsdeildarinnar hafa að sjálfsögðu þegar komið til framkvæmda nema hvað varðar bráðabirgðaákvæði sem missir gildi sitt frá og með næstu kosningum. Frá og með næsta kjörtímabili mun því starfað í einu og öllu skv. þessum nýju reglum og fimm manna stjórn tilnefnd af þingflokkum í samræmi við þingstyrk.
    Ég vil þá í stuttu máli, virðulegi forseti, gera grein fyrir helstu efnisatriðum þeirrar skýrslu sem hér hefur verið sett á dagskrá, en jafnframt í leiðinni vekja máls á nokkrum atriðum sem fram komu í þeirri skýrslu sem var lögð fram á síðasta vori og fjallaði um 83. þing sambandsins sem haldið var í Nikosíu á Kýpur 2. -- 7. apríl sl. Meginefni skýrslunnar sem nú er á dagskrá hins vegar er 84. þing sambandsins sem haldið var í Punta del Este í Uruguay 15. -- 20. okt. sl.
    Það hefur komið fram í þessum skýrslum áður og hér í þingsölum hvernig starfsemi þessa sambands er háttað og ástæðulaust að fjölyrða um það. Eins og kunnugt er, þá heldur Alþjóðaþingmannasambandið tvö meginþing á ári og á síðasta ári var fyrra þinghaldið á Kýpur og hið síðara í Uruguay. Jafnan eru tekin fyrir tvö megindagskrármálefni á hvoru þinginu fyrir sig sem ákveðin eru fyrir fram, en síðan eitt til tvö viðbótarumræðuefni og þá venjulega mál sem ofarlega eru á baugi í alþjóðamálum á þeim tíma sem þingið fer fram.
    Á þinginu á Kýpur voru tvö meginumræðuefni eins og gert er ráð fyrir. Þar var annars vegar fjallað um fíkniefnamál og hvernig best væri að berjast gegn dreifingu þeirra á alþjóðlegum grundvelli. Framkvæmdastjóri þeirrar deildar Sameinuðu þjóðanna sem um þau mál fjallar var þar mættur og sat fyrir svörum um þau málefni. Þess má geta að forsætisráðherra Ítalíu, Andreotti, sem fór fyrir ítölsku sendinefndinni ávarpaði þingið sérstaklega út af þessu málefni.
    Hitt meginumræðuefnið á þinginu var áhrif tækniþróunar á atvinnumál og starfsmenntun. En viðbótarumræðuefnið, eða hið sérstaka umræðuefni, á þessu þingi var málefni Miðjarðarhafslandanna, ekki síst málefni Miðausturlanda. Urðu um það efni miklar

deilur og umræður, bæði í nefnd á vegum þingsins og eins við lokaafgreiðslu ályktunar. Án þess að fara nánar út í þá sálma vildi ég benda fólki, sem áhuga hefur á því að kynna sér hvað þar fór fram, á þskj. 567 frá síðasta þingi.
    Eins og venjulega voru haldnir ýmsir fundir utan dagskrár auk hinna sérstöku funda í ráði sambandsins. Auðvitað gerðu menn svo sitt besta til þess að kynna sér ástand mála á þessari skiptu eyju, Kýpur, því þó svo að málefni þessarar eyjar hafi ekki verið jafnfyrirferðarmikil í heimsfréttum og þau voru hér á árum áður er ljóst að þarna er mjög alvarlegt óleyst vandamál fyrir hendi sem þarf að leysa með pólitískum og diplómatískum leiðum. Og reyndar hefur á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins og hóps hinna vestrænu ríkja innan þess verið lagt í mikla vinnu til þess að kortleggja þetta vandamál án þess að nokkur lausn sé endilega í sjónmáli þess vegna.
    Ég vil svo að lokum vekja athygli á því að því er varðar þetta þing sambandsins að formenn norrænu sendinefndanna komu sérstaklega saman og sömdu bréf, sem afhent var fulltrúa Sovétríkjanna á þinginu, þar sem mótmælt var ráðagerðum Sovétmanna um að hefja tilraunir með kjarnorkuvopn á Novaja Semlja. Það mál kom síðan til umræðu á Alþingi stuttu síðar í framhaldi af fyrirspurn frá hv. þm. Eiði Guðnasyni.
    Eins og kunnugt er, þá er það venja að norrænu deildirnar á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins hafi með sér náið samstarf og skiptist á um að veita því samstarfi forustu. Á þessu ári er það hlutverk Íslandsdeildarinnar að annast þau samskipti og bera ábyrgð á þeim til undirbúnings ýmsum málum, sem eru á dagskrá eða verða á dagskrá, og samræma afstöðu fyrir þingin o.s.frv. Í því sambandi má geta þess að formaður Íslandsdeildarinnar, sem hér stendur, sendi forseta sovésku deildarinnar mótmæli fyrir hönd allra Norðurlandadeildanna í janúar sl. vegna hinnar vopnuðu íhlutunar Sovétmanna í Litáen.
    Að því er varðar störf síðasta þings sambandsins sem haldið var í októbermánuði sl. er rétt að láta þess getið að á því þingi voru eins og venjulega tvö meginumræðuefni. Annars vegar var fjallað um mikilvægi lestrarkunnáttu í tilefni af ári læsis hjá Sameinuðu þjóðunum og hið seinna umræðuefni var um afnám nýlendustefnu og samvinnu þróaðra ríkja og þróunarlanda. Þar var hins vegar einnig tekið fyrir, sem sérstakt umræðuefni, ástandið sem þá var upp komið í Kúvæt og samþykkt harðorð ályktun þar sem framferði Íraka í Kúvæt var harðlega fordæmt. Sú ályktun var að vísu ekki samþykkt samhljóða því að Írakar eiga aðild að þessum samtökum og þeir áttu sér nokkra stuðningsmenn en ekki marga. Og þannig vill til að það málefni er að sjálfsögðu mjög í brennidepli þessa dagana. Þess má geta til fróðleiks að Kúvæt átti um skeið aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu þó svo hafi ekki verið um nokkurra ára bil. Áður en innrás Íraka var gerð í landið hafði verið samþykkt þar af hálfu þess þings sem þar er starfandi að sækja um aðild á nýjan leik og átti eingöngu eftir að afgreiða formsatriði varðandi þá umsókn.
    Nokkrar breytingar hafa orðið á samsetningu sambandsins. Á þinginu sem haldið var sl. haust var samþykkt aðild þriggja nýrra þjóðdeilda, frá Chile, Namibíu og Níger. Það þótti tímanna tákn og sérstakt fagnaðarefni að í Chile skuli nú komin lýðræðisleg ríkisstjórn og sama er að segja um Namibíu. En þingmannasambandið sendi fulltrúa á sínum vegum til þess að fylgjast með kosningum í báðum þessum löndum. Hins vegar var þjóðdeildinni í Afríkuríkinu Líberíu vikið úr sambandinu þar sem þar er ekkert þing starfandi lengur vegna borgarastyrjaldar sem þar hefur geisað. Er það vissulega harmsefni þar sem Líbería var eitt af níu ríkjum sem upphaflega stóðu að stofnun þessa sambands árið 1889. Loks fækkaði þjóðdeildunum um tvær af eðlilegum orsökum vegna sameiningar Þýskalands og sameiningar Yemens eða ríkjanna tveggja sem þar störfuðu áður og áttu sitt hvora þjóðdeildina í sambandinu.
    Eins og venja er á þessum þingum, þá fóru þarna fram efnismiklar, almennar stjórnmálaumræður sem hófust með því að utanríkisráðherra Uruguay, Hector Gros Espiel, flutti ræðu og talaði m.a. um GATT - viðræðurnar, sem einmitt hófust í sama fundarsal í Uruguay 1986, en sem því miður er ekki lokið eins og þingmönnum mun vel kunnugt um. Utanríkisráðherra Möltu, sem jafnframt var forseti allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna á sl. hausti, ávarpaði einnig þingið og flutti þar langa og ítarlega ræðu.
    Ég vil láta þess getið í framhaldi af mínum fyrri ummælum um starfsreglur Íslandsdeildarinnar að í skýrslu framkvæmdastjóra sambandsins, sem lögð var fram fyrir síðasta þing þess, er fjallað ítarlega um starfsemi einstakra deilda og vakin athygli á því sem nýtt kann að vera í starfi þeirra. Þar er, og er ástæða til þess að láta þess getið, oftar en einu sinni vikið sérstaklega að störfum Íslandsdeildar þingmannasambandsins og vakin athygli á því sem gert hefur verið á hennar vegum í skipulagsmálum, m.a. að því er varðar hinar nýju reglur og þá skýrslu sem nú er rædd á Alþingi í annað sinn og er nýmæli og fleira í þeim dúr sem greinilegt er að tekið hefur verið eftir af hálfu aðalskrifstofu sambandsins og varðar vinnubrögð og því um líkt á vegum Íslandsdeildarinnar. Í framhaldi af því er rétt að það komi fram að starfsmaður og ritari Íslandsdeildarinnar, Þorsteinn Magnússon, deildarstjóri í nefndadeild þingsins, sótti námskeið í Genf á sl. hausti þar sem gefinn var kostur á ýmsum fróðleik í tengslum við þessa starfsemi.
    Ég hafði ekki í hyggju, virðulegi forseti, að flytja hér mjög langt mál, enda held ég að öll þau meginatriði sem þetta snerta liggi fyrir í skjölum þingsins, þó að það sé að vísu góð venja að fylgja þeim úr hlaði með stuttum inngangi. Varðandi framtíðina vil ég aðeins segja frá því að það er ráðgerður á vegum norrænu þjóðdeildanna sérstakur fundur í Stokkhólmi á þessu vori þar sem ætlunin er að bjóða þingmönnum frá Eystrasaltsríkjunum þremur sérstaklega til fundar um starfsemi Alþjóðaþingmannasambandsins. Sá fundur hefur þegar verið boðaður en mér er ekki kunnugt

um hver viðbrögð hafa verið af hálfu þinganna þriggja í baltnesku löndunum. En ég vil taka það fram að það er ekki hugmyndin að það fundahald skarist við annað starf sem nú er á döfinni af hálfu Norðurlandaráðs eða einstakra norrænna þinga.
    Á þessu ári verða haldin venju samkvæmt tvö þing á vegum sambandsins. Hið fyrra verður í Norður - Kóreu í apríl, en óvíst er um þátttöku af hálfu Alþingis vegna væntanlegra þingkosninga. Síðara þingið verður hins vegar haldið í Chile í október.
    Hins vegar verður í júlí sérstök ráðstefna um málefni Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu á vegum sambandsins þar sem boðið er þingmönnum frá ríkjunum 35 sem aðild eiga að samkomulaginu sem kennt er við Helsinki. Til þessa fundar er boðað í byrjun júlí og er gengið út frá því af hálfu Íslandsdeildar sambandsins að Alþingi sendi þangað fulltrúa. Hins vegar er það auðvitað framtíðarákvörðunarefni, ekki síst ef stofnað verður til sérstakrar þingmannasamkundu á vegum RÖSE, hvort ástæða sé til að halda úti fleiri vettvöngum um það málefni. Verður að segjast eins og er að væntanlega væri það óþarfi ef til nýrrar þingmannasamkundu á vegum RÖSE verður stofnað eða það starf gert formlegra heldur en nú er á vettvangi þjóðþinganna, sem ég tel vissulega æskilegt.
    Ég vil gjarnan láta þess getið einnig, virðulegi forseti, þannig að það liggi hér fyrir, að Íslandsdeildin tók á móti gestum á síðasta sumri sem hingað voru komnir alla leið frá Thailandi. Hingað kom sérstök þingmannasendinefnd frá thailenska þinginu. Voru þar á ferðinni þingmenn sem tengst hafa Alþjóðaþingmannasambandinu og m.a. einn stjórnarmanna þar sem fór fyrir sendinefndinni. Þessi hópur gekk á fund forseta þingsins m.a. og átti hér ágætar viðræður við þingmenn þann stutta tíma sem þessir gestir voru hér á landi.
    Ég vil að lokum geta þess að á síðasta ári beitti þingmannasambandið sér fyrir ráðstefnu um afvopnunarmál sem haldin var í Bonn og fóru þangað tveir íslenskir alþingismenn. Frá þessari ráðstefnu er greint hér í þessari skýrslu. Þar var unnt að fá mjög gott yfirlit yfir alla þætti afvopnunarmála og fengnir til sérfræðingar víðs vegar að til þess að fjalla um þau mál og að lokum ályktað sérstaklega. Sú ályktun á að vera í fórum allra þingmanna, eins og reyndar önnur þau skjöl sem þessari starfsemi tilheyra, en þingmönnum sem ekki kunna að hafa þær ályktanir undir höndum en vilja kynna sér þær er bent á að snúa sér til ritara deildarinnar.
    Að svo mæltu, virðulegi forseti, vildi ég láta þessari framsögu af minni hálfu lokið, en vil í lokin einungis láta það koma hér fram að ég tel það framför í starfsháttum í Sþ. að taka skýrslur einstakra alþjóðanefnda til sérstakrar umræðu, ekki vegna þess að það sé endilega nauðsynlegt að halda uppi löngum umræðum um þær, heldur til þess að þingmenn sem vilja tjá sig um eitthvert sérstakt atriði fái til þess tækifæri hér í sölum Alþingis. Ef menn vilja ræða afstöðu sem tekin hefur verið í nafni Alþingis á einhverjum vettvangi, þá hafi menn tækifæri til þess. Forsenda þess er auðvitað sú að fyrir liggi skriflega hvað fram hefur farið og sú nýbreytni sem orðið hefur hér á sl. tveimur árum í því efni er bæði sjálfsögð og virðingarverð.