Matthías Á. Mathiesen :
    Frú forseti. Á þskj. 626 er skýrsla fulltrúa Íslands í þingmannanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA. Fulltrúar þingsins þar sl. ár hafa verið þeir hinir sömu og árið næst á undan, þ.e. auk mín hv. 5. þm. Norðurl. v. Jón Sæmundur Sigurjónsson. Ritari nefndarinnar hefur verið Þórður Bogason lögfræðingur, starfsmaður nefndadeildar skrifstofu Alþingis.
    Ég sé ekki ástæðu til þess hér og nú að víkja að frekari atriðum í sambandi við reglur um þátttöku Alþingis í störfum þingmannanefndar EFTA og vísa þá til þskj. 538 frá síðasta þingi, þ.e. skýrslu fulltrúa þingmannanefndarinnar fyrir það ár. Ég bendi enn fremur á að þar kom fram í fskj. III hverjir hafa gegnt fulltrúastörfum allt frá 1977 að ráðherranefnd EFTA - ríkjanna samþykkti að starfa skyldi þingmannanefnd til ráðuneytis og ráðgjafar EFTA - ráðinu og hverju landi, eins og kemur fram í fskj. I, heimilt að senda fimm. Það hefur Ísland gert, að vísu ekki nema í eitt skipti, þegar aðalfundurinn var haldinn hér í Reykjavík 1985. Á flestum öðrum fundum hafa tveir fulltrúar gegnt þessum störfum.
    Eins og fram kemur á þskj. 624 hefur á undanförnu starfsári einkum verið unnið að tveimur verkefnum. Það er annars vegar að fylgjast með samningagerð EFTA og Efnahagsbandalagsins um myndum evrópska efnahagssvæðisins og í því sambandi sérstaklega hugað að hlutverki þingmanna EFTA - ríkjanna, svo og þjóðþinganna. Þá hefur verið unnið að því að koma á samstarfi við þær þjóðir í Austur - Evrópu sem tekið hafa upp lýðræðislega stjórnarhætti. EFTA - þingmannaráðið og EFTA - skrifstofan vinnur nú að aðstoð þeim til handa varðandi efnahagslega uppbyggingu og er samstarf þingmanna mjög nauðsynlegt og eðlilegt í framhaldi af því.
    Í sambandi við viðræður EFTA og Evrópubandalagsins var það skoðun ráðherranefndarinnar að auka þyrfti samstarfið á milli hennar og þingmanna og hvatti ráðherranefndin til áframhaldandi funda þingmannanefndarinnar og þingmanna Evrópuráðsins sem verið hafa að undanförnu, svo og að haldnir skyldu sameiginlegir fundir þingmannanefndarinnar og EFTA - ráðsins. Það hefur verið gert og hefur þar farið fram ítarleg umræða eftir greinargerðir frá hendi ráðherranna, svo og þingmannanna, um þau atriði sem efst eru á baugi í umræðunum hverju sinni. Ég sé ekki ástæðu til þess að víkja að þeim málum hér og nú. Það hefur verið óskað eftir skýrslu hér á Alþingi um þessi mál. Ég vænti þess að áður en Alþingi lýkur störfum í vor fari fram umræða um þessi mál og þá geri hæstv. utanrrh. grein fyrir hver staða þessara mála sé og enn fremur muni í þeirri skýrslu, sem beðið hefur verið um, koma fram hvernig þessir samningar hafa gengið og með hvaða hætti séu tryggðir þeir hagsmunir sem lögð hefur verið áhersla á af hálfu ríkisstjórnar Íslands.
    Ég vil aðeins víkja að þeim atriðum sem í skýrslunni eru og mér finnst eðlilegt að hér komi fram. Aðalfundur þingmannanefndarinnar var haldinn í Vínarborg í maímánuði sl. Þá tók við formennsku Peter Jankowitsch, fyrrv. utanríkisráðherra. Það kom í hlut Íslands að taka við varaformennsku og var mér falið að taka við því starfi. Á síðasta fundi varð enn breyting á þessum hlutum, því að formaðurinn hafði verið skipaður ráðherra í ríkisstjórn Austurríkis og því tók annar austurrískur þingmaður, Herbert Schmidtmeier, við formennsku af Jankowitsch.
    Næsti ársfundur verður hér á landi, eins og fram kemur í síðasta atriði sem hér er vikið að í skýrslunni. Verður sá fundur haldinn 18. -- 20. júní í sumar og þá að sjálfsögðu eftir þingkosningarnar. Það er þingflokka og forustumanna þingsins að ákvarða um nýja fulltrúa til þess að taka sæti í þingmannanefnd EFTA og vænti ég þess að sá hópur verði ívið stærri en sá sem er í dag, þannig að það verði fimm þingmenn sem taki sæti í nefndinni af hálfu Íslands á þessum fundi.
    Á aðalfundinum sem haldinn var í Vín var jafnframt fundur með fulltrúum Evrópuþingsins. Þar var enn fremur sameiginlegur fundur þingmanna frá Evrópubandalaginu og þingmönnum Tékkóslóvakíu, Júgóslavíu, Ungverjalands, Póllands og Austur - Þýskalands og svo síðan sérstakur fundur með þeim. Í framhaldi af þessu fóru þingmenn EFTA - ríkjanna til Ungverjalands í boði þingsins þar og var það einn þáttur í því samstarfi sem segja má að hæfist með fundinum sem var haldinn í Vín.
    Þá hafa formenn og fyrrv. formaður samtakanna unnið að því að gera tillögur ásamt með þingmönnum Evrópuþingsins um stöðu þingmanna þessara ríkja ef og þegar til samninga kæmi. Formenn, formaður, varaformaður og fyrrv. formaður EFTA - þingmannanefndarinnar fóru þess vegna til fundar við formenn stjórnmálaflokkanna á Evrópuþinginu til viðræðna og kynningar á þessum málum. Mál þetta stendur þannig nú að beðið er eftir tilnefningum manna frá Evrópuþinginu til þess að hægt verði á sameiginlegum fundi með þingmönnum frá EFTA að koma fram með tillögur sem eru í þá veru sem fram hefur komið af hálfu EFTA - þingmanna, hvernig svo sem því kemur svo til með að verða tekið, í sambandi við þær samningaviðræður sem fara fram og eru um stofnanamálin. Að sjálfsögðu hljóta þing EFTA - ríkjanna að hafa með þessi mál að gera áður en öllu er lokið og því verður að taka þau sjónarmið þar til greina til þess að þeir samningar sem unnið er að nú nái þar samþykki. Þess vegna hefur líka verið unnið að endurskoðun á hlutverki nefndarinnar.
    Þá má víkja að nefnd sem starfaði og fjallaði um fiskframleiðslu og framleiðslu á unnum matvælum. Sú nefnd var einmitt hér til upplýsingaöflunar á sl. ári. Þar kynntu íslenskir fulltrúar og gerðu grein fyrir þeim sjónarmiðum, en það er einmitt svo þýðingarmikið fyrir okkur að gera mönnum grein fyrir sérstöðu okkar hvað snertir fiskveiðiréttindin. Eins og fram kemur þá var það á fundi þar sem Jón Sæmundur Sigurjónsson gerði sérstaklega grein fyrir þessum málum.
    Þá hafa fulltrúar frá EFTA - þingmannasamtökunum

tekið þátt í ráðstefnum sem haldnar hafa verið. Annars vegar bauð Norðurlandaráð til ráðstefnu sem bar heitið ,,The role of Parliamentarians in the new European architecture``. Síðan bauð finnska þingið til ráðstefnu sem bar heitið ,,Parliamentary Conference on Co - operation in the Baltic Sea Area``. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að báðar þessar ráðstefnur voru með þeim hætti að það hafði sína þýðingu að EFTA - þingmenn tóku þátt í þeim. Það var vissulega lærdómsríkt, sér í lagi þegar um var að ræða ráðstefnuna sem var haldin um Eystrasaltssvæðið og er ég viss um að okkar þáttur þar, þingmanna EFTA og svo þingfulltrúa Íslands sem þar var, vakti athygli hjá þeim þingmönnum. Þessi mál hafa að vísu verið hér til umræðu og skal ég ekki fara frekar í það.
    Frú forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þessa skýrslu meira. Ég hef aðeins stiklað hér á stærstu atriðunum. Skýrslan er, held ég, það ítarleg. Ef óskað er fyrirspurna, þá erum við sem í nefndinni sátum, hv. þm. Jón Sæmundur Sigurjónsson og ég, reiðubúnir til þess að svara.