Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Það er nú svo með vandamál byggða vítt um landið, hvort sem þær heita Seyðisfjörður, Suðureyri eða einhver byggð vestur á Snæfellsnesi, að það virðist vera áhugamál fjölmiðla að útmála slíka stöðu. Þess vegna held ég að það sé náttúrlega fyrst og fremst skylda ríkisstjórnar þegar hún er að fjalla um málefni sem þau sem hér eru til umræðu, að farið sé eins mjúkum höndum um þessi mál og mögulegt er.
    Ég tel gagnrýni hv. 5. þm. Austurl. á rökum byggða. Það er mjög vafasamt af ríkisstjórn að létta trúnaði af plöggum sem send eru út sem trúnaðarplögg á þann máta sem virðist hafa verið gert hér. Mér skilst að þingmenn Austurlands hafi ekki fengið þessi plögg og við, almennir þingmenn úr öðrum kjördæmum, höfum ekki fengið að líta á þessi plögg. Ég tek þess vegna undir það sem hér hefur verið sagt að umræða um þessi mál almennt er nauðsynleg á hv. Alþingi. En þetta mál virðist koma upp á þeim tíma að ekki eru margir til andsvars. Hér situr einn ráðherra og er fulltrúi forsrh., starfandi forsrh. og sjálfsagt starfandi sjútvrh. líka og hefur kannski fleiri embættum að sinna. ( Heilbr. - og trmrh.: Þetta er nú nóg.) Já, hæstv. ráðherra segir að þetta sé nú orðið sæmilegt sem hann sé með, þannig að almenn umræða um þessi mál fer varla fram við þær aðstæður sem hér eru, enda ekki gefinn til þess nema hálftími.
    En ég tek alveg undir það sem málshefjandi nefndi, hvernig farið hefur verið að því að leysa trúnað af þessari skýrslu, það er mjög af hinu verra og kemur sér ábyggilega illa fyrir þá byggð sem er í umræðunni.