Alþjóðavinnumálaþingið í Genf 1990
Mánudaginn 25. febrúar 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég legg hér með fyrir Alþingi skýrslu um 77. Alþjóðavinnumálaþingið sem haldið var í Genf dagana 6. -- 27. júní á sl. ári. Þetta er gert í samræmi við 5. tölul. 19. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Þar er kveðið á um þá skyldu aðildarríkja stofnunarinnar að kynna löggjafarsamkomunni þær samþykktir og tillögur sem gerðar hafa verið á alþjóðavinnumálaþinginu. Samkvæmt a-lið skal þetta gert eigi síðar en innan árs frá slitum vinnumálaþingsins en í undantekningartilvikum eigi síðar en 18 mánuðum eftir lok þingsins.
    Á Íslandi hefur þessu ákvæði verið fylgt með þeim hætti að félmrh. hefur lagt fyrir Alþingi skýrslur um alþjóðavinnumálaþingið. Alþjóðasamþykktir sem vinnumálaþingið hefur afgreitt hafa verið birtar sem fylgiskjöl með skýrslunum. Á seinni árum hefur sú regla verið tekin upp að gera nokkuð ítarlegri grein í skýrslunni fyrir samskiptum Íslands við Alþjóðavinnumálastofnunina og framvindu alþjóðavinnumálaþingsins. Meðal annars hefur verið fjallað um umræður sem hafa átt sér stað í þingnefnd sem fjallar um framkvæmd aðildarríkjanna á fullgildum alþjóðasamþykktum ILO. Einnig hefur tækifærið verið notað til að gefa Alþingi upplýsingar um samskipti félmrn. við aðrar alþjóðastofnanir á sviði vinnu- og félagsmála. Ég vil sérstaklega í þessu sambandi geta um eftirlit félmrn. með framkvæmd félagsmálasáttmála Evrópu og samskiptum við Evrópuráðið vegna þeirrar framkvæmdar.
    Áður en ég geri grein fyrir þeim tveimur alþjóðasamþykktum sem 77. alþjóðavinnumálaþingið afgreiddi sl. sumar, þ.e. um meðferð efna við vinnu og samþykkt um næturvinnu, vil ég víkja nokkrum orðum að einstökum köflum skýrslunnar.
    Í kafla 2.5. er gerð grein fyrir umræðum um framkvæmd alþjóðasamþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Í kaflanum kemur fram að hinn 31. des. 1989 höfðu forstjóra Alþjóðavinnumálastofnunarinnar borist samtals 5463 fullgildingarskjöl vegna fullgildingar á alþjóðasamþykktum ILO sem nú eru 171. Á árinu 1989 voru skráðar 63 fullgildingar 19 aðildarríkja en það er nokkur fækkun frá árinu 1988 þegar skráðar voru óvenjumargar fullgildingar eða samtals 90. Frá 1. jan. til 21. mars 1990 höfðu verið skráðar 15 fullgildingar 5 aðildarríkja. Í þessu sambandi má minna á það að Ísland er langt að baki nágrannaríkjum að því er varðar fullgildingar. Fram til ársins 1989 hafði Ísland einungis fullgilt 14 samþykktir. Meðan 77. alþjóðavinnumálaþingið starfaði sl. sumar voru þó afhent skjöl þar sem fram kemur að Ísland hefur fullgilt alþjóðasamþykktir nr. 122, um stefnu í atvinnumálum, og nr. 159, um atvinnumál fatlaðra. Þetta voru fyrstu fullgildingar Íslands á alþjóðasamþykktum ILO í 10 ár. Á yfirstandandi Alþingi verða lagðar fram tvær þingsályktunartillögur þar sem óskað verður eftir heimild til að fullgilda tvær alþjóðasamþykktir til viðbótar, þ.e. alþjóðasamþykkt nr. 139, um varnir gegn og eftirlit með áhættu í starfi vegna efna sem

valda krabbameini, og samþykkt nr. 155, um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi. Hér er því um að ræða nokkrar framfarir.
    Rétt er að hafa í huga að enda þótt ríki geti stært sig af því að hafa fullgilt margar alþjóðasamþykktir er ekki þar með sagt að þau lágmarksréttindi á sviði félags- og vinnumála séu höfð í hávegum í því sama ríki. Þess vegna er starf sérfræðinganefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og þingnefndar á alþjóðavinnumálaþingum, sem fylgist með framkvæmd aðildarríkjanna á alþjóðasamþykktum, mjög mikilvægt og þess virði að því sé veitt athygli. Í skýrslunni er sagt frá umfjöllun þingnefndar um nokkur mjög gróf brot á samþykktum ILO sem ég vísa til og sé ekki ástæðu til að gera nánar grein fyrir hér.
    Skýrsla sérfræðinganefndar, sem er til umfjöllunar í þingnefndinni sem ræðir framkvæmd alþjóðasamþykkta, er þykk og hefur að geyma umsagnir um framkvæmd aðildarríkja á fjölmörgum alþjóðasamþykktum. Í flestum tilvikum er ekki um að ræða alvarleg brot á samþykkt ILO heldur ábendingar um það sem betur má fara í framkvæmdinni.
    Í skýrslunni um alþjóðavinnumálaþingið er frá því greint að sérfræðinganefndin gerði athugasemdir við framkvæmd Íslands á tveimur alþjóðasamþykktum í kafla um framkvæmd á alþjóðasamþykktum, nr. 87, um félagafrelsi og verndun þess, og samþykkt nr. 105, um afnám nauðungarvinnu. Í skýrslunni segir að sérfræðinganefndin hafi kynnt sér efnið í skýrslu ríkisstjórnarinnar um framkvæmd alþjóðasamþykktar nr. 87. Hún hafi einnig kynnt sér málavexti í kærumáli nr. 1458 sem hafi verið rannsakað af nefnd um félagafrelsi og gerð sé grein fyrir 262. skýrslu hennar sem samþykkt hafi verið af stjórnarnefnd ILO á fundi í febrúar til mars 1989. Enn fremur kemur fram í skýrslunni að nefndin hafi kynnt sér athugasemdir Alþýðusambands Íslands sem ríkisstjórnin hafi komið á framfæri 26. maí 1989. Nefndin tekur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:
    ,,Athugasemdir ASÍ frá 26. mars 1989 og kærumál nr. 1458 varða lög frá 20. maí 1988 sem ákvarða hækkanir á launum launafólks og banna verkföll um ákveðinn tíma og eru því í ósamræmi við samþykktir 87 og 98.
    Í skýrslunni er athugasemdum ASÍ ekki svarað en ríkisstjórnin áskilur sér rétt til að gera það síðar.
    Nefndin vill vekja athygli bæði ríkisstjórnarinnar og ASÍ á þeirri staðreynd að þau álitaefni í kærumáli nr. 1458 sem vísað er til í athugasemdum ASÍ, þ.e. bann við kjarasamningum um tiltekið tímabil og engar samningaviðræður á milli ríkisstjórnarinnar og samtaka launafólks um nauðsynlegar aðgerðir til að bregðast við aðstæðum í efnahagsmálum, snerta í raun alþjóðasamþykkt nr. 78. Af þeirri ástæðu vísar nefndin til athugasemda sem beint var til ríkisstjórnarinnar á árinu 1989 þar sem hún m.a. óskar eftir áframhaldandi upplýsingum um þróun mála.
    Nefndin yrði þar af leiðandi þakklát ríkisstjórninni ef hún gæti í næstu skýrslu sinni um framkvæmd alþjóðasamþykktar nr. 98 svarað athugasemdum ASÍ

þannig að nefndin geti kynnt sér það við reglulega athugun á framkvæmd samþykktarinnar.
    Að því er varðar framkvæmd samþykktar nr. 87 tekur nefndin eftir því að meðal aðgerða, sem gripið var til með stoð í lögum frá 20. maí 1988, var bann við verkföllum um ákveðið tímabil.
    Nefndin beinir því til ríkisstjórnarinnar að upplýsa hvort þetta bann hafi fallið úr gildi þar sem tímabilið, sem tilgreint var í lögunum frá 20. maí 1989, rann út 15. febr. 1989 samkvæmt upplýsingum ríkisstjórnarinnar í kærumáli 1458.``
    Þess skal getið að alþjóðavinnumálaskrifstofunni var sent bréf, dags. 26. apríl 1990, þar sem staðfest var að þær takmarkanir á verkfallsrétti sem fólust í lögunum nr. 14/1988, um aðgerðir í kjaramálum, hafi fallið niður 15. maí 1989.
    Hin athugasemd sérfræðinganefndarinnar, sem birt er í skýrslunni, snertir framkvæmd Íslands á alþjóðasamþykkt nr. 105, um afnám nauðungarvinnu. Sérfræðinganefndin hefur um árabil gert athugasemdir við framkvæmd þessarar samþykktar, sem efnislega varðar ákvæði 81. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, um agavald skipstjóra, sem hún telur að sé ekki í samræmi við samþykktina. Í skýrslum Íslands um framkvæmd samþykktarinnar, sem félmrn. hafði tekið saman í samráði við samgrn., hefur verið bent á að ákvæðið sé fyrst og fremst byggt á því ríkjandi sjónarmiði í íslensku þjóðfélagi að tryggja beri öryggi sjómanna og annarra sjófarenda eins og kostur er. Markmið þess væri að tryggja að skipstjóri geti komið skipi í örugga höfn eða var þegar hættu ber að höndum eða bjargað skipi og mönnum að öðru leyti úr háska. Í skýrslu sérfræðinganefndar ILO kemur fram að hún hefur kynnt sér skýringar íslensku ríkisstjórnarinnar. Nefndin tekur fram að tilvik eins og þau sem lýst er í skýrslu Íslands falli utan ramma samþykktar nr. 105 og leggur til að ákvæði 81. gr. sjómannalaganna verði afmarkaðra eða greinin felld úr lögunum eins og gert hafi verið í nokkrum löndum þar sem hliðstæð ákvæði hafi verið í gildi.
    Ákvæði 81. gr. laga nr. 35/1985 var fellt úr gildi með lögum nr. 53/1990 sem samþykkt voru á Alþingi 4. maí 1990.
    Í skýrslu minni til Alþingis um 76. alþjóðaþingið, sem lögð var fyrir Alþingi fyrir ári síðan, var í fyrsta skipti gerð grein fyrir framkvæmd Íslands á félagsmálasáttmála Evrópu og athugasemdum sérfræðinganefndar Evrópuráðsins við skýrslu Íslands um framkvæmdina á árunum 1986 og 1987.
    Ég vil geta þess að í fskj. VII, skýrslu nefndar sem fjallar um málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og framkvæmd á ákvæðum í félagsmálasáttmála Evrópu er gerð grein fyrir framvindu mála á þessum vettvangi. Þar kemur m.a. fram að í október sl. var Evrópuráðinu send sjötta skýrsla Íslands um framkvæmd á félagsmálasáttmála Evrópu. Skýrslan tekur til áranna 1988 og 1989. Í henni er gerð ítarleg grein fyrir þróun efnahags- og atvinnumála, húsnæðismála og félagslegri aðstoð. Sérstök áhersla er lögð á að gera grein fyrir framkvæmd á ákvæðum 16. og 17. gr. sáttmálans, sem fjallar um efnahagslega og félagslega vernd mæðra, barna og fjölskyldunnar. Gera má ráð fyrir að umsögn sérfræðinganefndar Evrópuráðsins um framkvæmd Íslands á félagsmálasáttmálanum liggi fyrir í haust. Í þessu sambandi vil ég geta þess að ég hef unnið að undirbúningi þess að Ísland undirgangist fleiri skuldbindingar samkvæmt félagsmálasáttmálanum. Í því sambandi hefur verið rætt um greinar 8.1. og 8.2. sem fjalla um vernd vinnandi kvenna fyrir og eftir barnsburð. Einnig 1. gr. í viðauka við sáttmálann sem fjallar um rétt til sömu tækifæra og sömu meðferðar hvað snertir ráðningu og starf, án mismunar á grundvelli kynferðis.
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í upphafi er tilgangurinn með skýrslu félmrh. um alþjóðavinnumálaþingið að gera grein fyrir alþjóðasamþykktum sem þingið hefur afgreitt. Ég mun nú fjalla stuttlega um þær tvær samþykktir sem 77. alþjóðavinnumálaþingið afgreiddi. Fyrri alþjóðasamþykktin er um meðferð efna og efnasambanda við vinnu. Að mati margra sem tjáðu sig á alþjóðavinnumálaþinginu er hér um að ræða tímamótasamþykkt sem mun er fram líða stundir hafa mikil áhrif á lög og reglur í heiminum um meðhöndlun efna á vinnustöðum og draga úr skaðsemi þeirra á heilsu starfsmanna.
    Við lok fyrri umræðu á 76. alþjóðavinnumálaþinginu voru fjölmörg ágreiningsefni í drögum að alþjóðasamþykkt og tillögu um meðferð efna óleyst. Eitt af þeim voru ákvæði um merkingar efnasambanda. Samkvæmt upphaflegum tillögum var lagt til að innihald allra efnasambanda komi fram á umbúðum. Í tillögunni felst umtalsverð breyting frá gildandi reglum í fjölmörgum löndum en samkvæmt þeim er einungis skylt að merkja efnasambönd sem hafa skaðleg áhrif á heilsu manna. Fulltrúar atvinnurekenda héldu því fram að tillagan væri óraunhæf. Ef hún næði fram að ganga hefði það í för með sér stórfellt skrifræði og fölsun á vörulýsingum. Um þetta var lengi deilt í þingnefndinni. Niðurstaðan var samþykkt á tillögu frá fulltrúum Evrópubandalagsins um að öll efnasambönd skuli merkt með þeim hætti að innihaldið sé gefið til kynna. Þetta er túlkað þannig að ekki er nauðsynlegt að tilgreina ítarlega samsetningu óskaðlegra efna. Það er hins vegar nauðsynlegt ef um hættuleg efni er að ræða. Í slíkum tilvikum skal greina frá hættustigi efnisins, lýsingu á hugsanlegum skaðlegum áhrifum á heilsu manna og hvernig skuli meðhöndla efnasambandið.
    Annað atriði sem olli ágreiningi var flutningur efnasambanda. Fulltrúar launafólks lögðu fram tillögu um að í meðhöndlun á efnasamböndum á vinnustöðum fælist öll vinna þar sem starfsmenn eiga á hættu að komast í snertingu við efnasambandið. Markmiðið með tillögunni var að tryggja að gildissvið samþykktarinnar taki einnig til flutnings á efnasamböndum. Þetta vandamál var leyst af vinnuhóp sem í voru fulltrúar ríkisstjórna, aðila vinnumarkaðarins og alþjóðasamtaka flutningaverkamanna. Lausnin felst í því að í 2. gr. er tekið fram að gildissvið samþykktarinnar taki til flutninga á efnasamböndum, en í 6. gr. er bætt við nýjum

staflið, þar sem tekið er fram að við flutning skuli tekið tillit til tilmæla í samþykktum annarra sérstofnana Sameinuðu þjóðanna.
    Þriðja meiri háttar deiluefnið fjallaði um útflutning efnasambanda. Ástæðan var tillaga frá stjórnvöldum í Angóla og Brasilíu um að taka upp í texta alþjóðasamþykktarinnar ákvæði um skyldu upprunalands efnasambands að tilkynna innflutningslandi um það ef notkun hlutaðeigandi efnasambands er bönnuð eða háð ströngum reglum.
    Hugmyndin með tillögunni var að koma í veg fyrir að þróunarlönd yrðu geymslustaður fyrir hættuleg efni sem iðnvæddi hluti heimsins hefði ekki not fyrir. Þessi tillaga hlaut stuðning fulltrúa launafólks í nefndinni en atvinnurekendur voru andvígir þótt þeir viðurkenndu nauðsynina á upplýsingum af þessu tagi. Niðurstaðan varðandi þetta atriði var að ef bannað er í útflutningsríki, sem á aðild að þessari samþykkt, að hafa tiltekin efnasambönd til ákveðinna eða hvers konar nota vegna öryggis og heilsu starfsmanna við vinnu skal það tilkynnt innflutningsríki og ástæða fyrir því.
    Vinnueftirlit ríkisins hefur fylgst náið með framvindu þessa máls. Forstjóri Vinnueftirlits ríkisins, Eyjólfur Sæmundsson, átti sæti í þingnefndinni sem fjallaði um þetta málefni. Þó ekki sé mælt með því að alþjóðasamþykktin verði fullgild þegar í stað legg ég áherslu á það að Vinnueftirlitið hagi störfum sínum með þeim hætti að það verði hægt innan tíðar, því hér er um að ræða mikilvægt framlag til vinnuverndarmála.
    Hin alþjóðasamþykktin er um næturvinnu. Fyrir alþjóðavinnumálaþinginu lágu drög að þrenns konar gjörningum: Drög að nýrri alþjóðasamþykkt og tillögu um næturvinnu og drög að viðauka við alþjóðasamþykkt nr. 89/1948, um næturvinnu kvenna í iðnaði.
    Við fyrstu umræðu kom fram djúpstæður ágreiningur á milli fulltrúa atvinnurekenda og launafólks. Í samþykktinni er fyrst og fremst fjallað um tvö hugtök, næturvinna og næturvinnumaður. Næturvinna er skilgreind sem öll vinna sem framkvæmd er á nánar tilgreindu tímabili að næturlagi. Næturvinnumaður er launamaður sem vinnur næturvinnu umfram nánar tilgreind mörk.
    Nýjungin felst í því að það eru ekki eingöngu hlutaðeigandi stjórnvöld sem skulu setja þessi mörk, heldur geta þau verið samningsatriði í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins.
    Í upphaflegum drögum var gert ráð fyrir að samþykktin tæki til allra launamanna. Fjölmargar breytingartillögur komu fram við þetta atriði. Niðurstaðan varð sú að heimila aðildarríkjum að undanskilja starfsmenn í landbúnaði og við nautgripaeldi og fiski- og farmenn frá gildissviði samþykktarinnar.
    Fjórða grein alþjóðasamþykktarinnar fjallar um rétt næturvinnumanna til ókeypis læknisskoðunar. Greinin ætti ekki að valda þeim ríkjum vandkvæðum sem búa við þróað heilsugæslukerfi.
    Umdeilt atriði við fyrri umræðu var ákvæði í 7. gr. um vernd kvenna. Við þá umræðu setti starfsfólk alþjóðavinnumálaskrifstofunnar fram málamiðlunarlausn sem fólst í því að gefa skuli konum sem vinna næturvinnu tækifæri til að velja einn af þremur kostum: að fá annað starf að degi til sé slíkt gerlegt, lengra barnsburðarleyfi eða tryggingabætur. Enn fremur var samþykkt að bæta inn ákvæði í drögin um að óheimilt væri að segja vanfærri konu upp starfi. Málamiðlunartillaga alþjóðavinnumálaskrifstofunnar hlaut góðar undirtektir og var samþykkt í nefndinni. Í stórum dráttum stóð málamiðlunartillagan óbreytt. Þó var vernd vanfærra kvenna aukin. Lagt er bann við vinnu þeirra í 16 vikur og skal bannið gilda a.m.k. í átta vikur fyrir þann tíma sem búist er við fæðingu.
    Nokkrar breytingar voru gerðar á drögum að tillögu um næturvinnu. Flestar eru í samræmi við breytingar sem gerðar voru á samþykktinni.
    Eins og að framan greinir afgreiddi þingið viðauka við alþjóðasamþykkt nr. 89, um næturvinnu kvenna í iðnaði. Í viðaukanum felst að aðildarríki þeirrar samþykktar geta með lögum, reglugerðum eða samningum vikið frá banninu við næturvinnu kvenna í iðnaði. Þess skal getið að nokkur ríki hafa á undanförnum árum sagt upp fullgildingum sínum á alþjóðasamþykkt nr. 89 með vísan til þess að hún brjóti í bága við grundvallarregluna um jafnrétti kynjanna. Önnur ríki hafa gefið til kynna að þau mundu gera slíkt hið sama. Með viðaukanum við samþykktina er komið til móts við jafnréttissjónarmið.
    Þess skal getið að við atkvæðagreiðsluna á allsherjarþinginu féllu atkvæði þannig að 348 greiddu atkvæði með alþjóðasamþykktinni um næturvinnu, 24 voru á móti og 15 sátu hjá. Allir norrænu atvinnurekendafulltrúarnir, þar með talinn fulltrúi Íslands, greiddu atkvæði gegn nýrri alþjóðasamþykkt um næturvinnu. Það er því ljóst að um þessa alþjóðasamþykkt ríkir ágreiningur. Þess vegna er ekki lagt til nú að alþjóðasamþykktin verði fullgilt, að minnsta kosti ekki að sinni.
    Virðulegi forseti. Ég hef í ræðu minni gert Alþingi grein fyrir alþjóðasamþykktum sem afgreiddar voru á 77. alþjóðavinnumálaþinginu sem haldið var í júní á sl. ári, eins og áskilið er í stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Ég hef einnig vakið athygli á nokkrum atriðum í skýrslu minni sem ég tel mikilvæg fyrir samskipti Íslands við Alþjóðavinnumálastofnunina og Evrópuráðið á sviði vinnu- og félagsmála.
    Ég vil leggja áherslu á það sem kom fram í ræðu minni í fyrra að hér er um að ræða viðleitni til að gefa Alþingi betra tækifæri til að fylgjast með erlendu samstarfi sem stjórnvöld eiga við ýmsar alþjóðastofnanir. Ég vil endurtaka þá skoðun mína að framkvæmdarvaldinu beri skylda til að gefa löggjafarvaldinu skýrslu um þetta samstarf. Með aðild okkar að Alþjóðavinnumálastofnuninni og Evrópuráðinu höfum við samþykkt ákveðið alþjóðlegt eftirlit með aðgerðum okkar á sviði félagsmála. Við athugun á skýrslum Íslands á framkvæmd þeirra sáttmála sem við höfum fullgilt fer fram samanburður við önnur lönd. Það er mikilvægt að niðurstöður úr slíkum samanburði séu

kynntar réttum aðilum þannig að bæta megi úr því sem miður fer.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið skýrslu minni um 77. alþjóðavinnumálaþingið í Genf.