Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil segja það í upphafi máls míns að ég er sammála þeim markmiðum sem sett eru í þessu frv., annars vegar um að saman fari ábyrgð og vald þess ráðherra sem með málefni Húsnæðisstofnunar fer hverju sinni og hins vegar að færa vald og þjónustu og aukna ábyrgð út til landshlutanna. En það er trúlega ýmislegt sem þarf að athuga í sambandi við þetta frv., ekki síst með hliðsjón af andmælum sem upp hafa komið frá sveitarfélögum og ekki síður verkalýðshreyfingunni eftir því sem mér hefur heyrst að undanförnu.
    Mig langar til þess við 1. umr. að spyrja hæstv. félmrh. um örfá atriði varðandi greinar frv. og ýmislegt sem ég rak augun í. Þetta eru svona lauslegir þankar mínar. Það er fyrst varðandi skipan framkvæmdastjóra Húsnæðisstofnunar ríkisins til sex ára, eins og segir í 5. gr. Það tel ég vera gott og er reyndar í anda þeirrar stefnu sem uppi hefur verið hin seinni ár að skipa fólk ekki til starfsloka í störf á vegum ríkisins. En í framhaldi af því hnaut ég um setninguna þar sem segir að ráðherra skipi einnig skrifstofustjóra stofnunarinnar. Mig langar til þess að fá um það upplýsingar hvort ætlunin sé að skrifstofustjóri fái æviráðningu með skipun. Eins finnst mér ekki þörf á því að ráðherrar skipi starfsmann stofnunar sem ég tel skrifstofustjóra tvímælalaust vera hér.
    Ég vil í sambandi við hitt meginmarkmið frv. minna á frv. sem hv. 7. þm. Norðurl. e. Málmfríður Sigurðardóttir hafði frumkvæði að að flytja í fyrra ásamt þingmönnum allra flokka um að komið yrði upp útibúum frá Húsnæðisstofnun í öllum landsfjórðungum í því skyni að leið fólks yrði greiðari til þess að nýta sér þá þjónustu sem Húsnæðisstofnun býður og eins líka til þess að færa valdið og skipulagið heim í héruðin. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að skipta landinu upp í átta umdæmi og eiga umdæmisstjórnir að starfa í hverju þeirra. Þar er e.t.v. meginbreytingin á stjórnarháttum miðað við það sem nú er vegna þess að í húsnæðismálastjórn, sem staðsett yrði við Húsnæðisstofnun í Reykjavík, yrðu engir fulltrúar verkalýðsfélaga en hins vegar er gert ráð fyrir þeim í umdæmisstjórnum.
    Ég vildi spyrja hæstv. félmrh. um þessar umdæmisstjórnir. Ég hefði gjarnan viljað sjá með þessu frv. einhverja áætlun um hversu mikið reynist unnt að fækka starfsfólki við Húsnæðisstofnun í Reykjavík. Og þá sömuleiðis hvað megi ætla að umdæmisskrifstofur þurfi marga starfsmenn. Það segir hér í d - lið 7. gr. að laun starfsmanna hverrar umdæmisstjórnar skuli greidd af Húsnmæðisstofnun ríkisins. Mér leikur forvitni á að vita hvort einhverjar áætlanir hafi verið gerðar um hvort tveggja, þ.e. um fjölda starfsmanna við umdæmisstjórnir og eins þá um hve marga starfsmenn reynist unnt að fækka við skrifstofuna hér í Reykjavík.
    Það var annað sem ég velti fyrir mér líka í þessu sambandi og það varðar verkefni umdæmisstjórna. Þær eiga aðallega að sjá um að gera áætlanir fyrir umdæmið um byggingarþörf og sömuleiðis að gera tillögur um lán til félagslegra íbúða. Það væri forvitnilegt að heyra hversu margar umsóknir gætu komið til umdæmisstjórnar á ári hverju miðað við það sem verið hefur undanfarið. Nú er auðvitað ekki víst að hæstv. félmrh. hafi svör við þessu hér og nú, en ég vænti þess að við getum fengið þau í félmn. þegar við förum að fjalla um frv. Varðandi áætlunargerð um byggingarþörf í umdæmum, sem hefur verið í höndum Byggðastofnunar, vildi ég vita hvort það verði þá flutt algerlega yfir til umdæmisstjórnanna.
    Ég held að við þurfum að taka þetta til rækilegrar umfjöllunar í félmn. og reyna að svara þeirri spurningu hvort með þessu frv. sé örugglega verið að tryggja betur hlut allra þeirra sem í umdæmunum búa. Það er ljóst að miklar breytingar hafa orðið á húsnæðiskerfinu að undanförnu og því er nauðsynlegt að skoða það frv. sem hér liggur frammi með hliðsjón af því.
    Kvennalistinn telur mjög mikilvægt að dreifa valdi og ábyrgð út um landið að svo miklu leyti sem hægt er, en ég vil hafa fyrirvara á um afstöðu til þessa frv. þangað til mér hefur gefist tækifæri til í félmn. að komast að niðurstöðu um það hvort frv. nær örugglega tilgangi sínum, einkum með tilliti til þeirra andmæla sem nú þegar hafa heyrst.