Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Guðmundur H. Garðarsson :
    Virðulegi forseti. Það var náttúrlega algjör útúrsnúningur hjá hæstv. ráðherra að halda því fram að þetta atriði varðandi aðild Vinnuveitendasambandsins að stjórn Húsnæðisstofnunar á sínum tíma hafi verið eina atriðið, þetta var eitt af mörgum atriðum. En þetta ásamt því að hafa fulltrúa Alþýðusambandsins var auðvitað mjög þýðingarmikið atriði. Það sem ég gerði áðan, virðulegi forseti, var að lesa upp úr athugasemd við 3. gr. með þessu frv. Það voru ekki mín orð sem stóðu í þeirri athugasemd, það voru orð höfunda þessa frv. þar sem það kemur berlega fram að það er markmið í sjálfu sér að koma fulltrúum þessara aðila, sem bera ábyrgð á stjórnun og ávöxtun lífeyrissjóðanna á hinum almenna vinnumarkaði, út úr þessari stjórnunarstöðu m.a. vegna þess að þeir sem semja frv. og gera athugasemdirnar telja að með því sé hagsmuna lífeyrissjóðanna betur gætt, þ.e. það þarf að haga málum þannig að gagnaðilinn geti náð niður ávöxtun sjóðanna. Þannig skil ég þessa athugasemd.
    Um það atriði hjá hæstv. ráðherra að það hafi verið eitt af meginatriðunum að beina meira fjármagni inn í Húsnæðisstofnun vil ég vekja athygli á því að með fyrra fyrirkomulagi, því kerfi sem gilti fyrir 1986, fór að mínu mati jafnmikið fjármagn inn í húsnæðismálakerfið. Það gerðist bara með öðrum hætti. Í stað þess að miðstýra þessu öllu á grundvelli umrædds samkomulags, sem ég var ekki mjög ánægður með út af fyrir sig, í því fólst mikil þvingun. Ég var því ekki fylgjandi. Í því fólst mikil þvingun að með því að gera þetta samkomulag ríkisvaldsins við aðila vinnumarkaðarins var verið að miðstýra gífurlegu fjármagni úr sjóðunum inn í Húsnæðisstofnun. Þ.e. hið dreifða vald, hin dreifðu áhrif þeirra aðila sem áttu fjármagnið var tekið úr höndum þeirra með þessum hætti. (Gripið fram í.) Þetta er staðreynd.
    Sú tillaga ASÍ, hv. þm. Karl Steinar, er nú að leiða til þess að það þarf að stokka upp í þessu kerfi. Það er að komast á það stig að jafnvel höfundar þessa frv. viðurkenna að það þurfi að láta fjármunina vera úti í hinum dreifðu byggðum landsins. Öðruvísi get ég ekki skilið tilganginn hvað varðar félagslegar íbúðir. Það er verið að reyna að tryggja það að hinar félagslegu íbúðir, úti í hinni dreifðu byggð, verði ekki afskiptar. Þetta var ekki samkvæmt samkomulaginu 1986. Við vorum hér nokkrir sem vöktum athygli á þessu þegar í upphafi.
    En varðandi Húsnæðisstofnun ríkisins þá er það að segja, og það hefur m.a. komið fram hjá hv. þm. Jóhanni Einvarðssyni, að þingflokkur Framsfl. er farinn að taka upp hugmyndir og tillögur sjálfstæðismanna um það að færa þetta fjármagn yfir í banka og sparisjóði og láta þá, ásamt lífeyrissjóðum og öðrum sem vilja veita fé í þessar framkvæmdir, annast þessa framkvæmd vítt og breitt um landið. Húsnæðisstofnun ríkisins er raunverulega að verða óþörf í þeirri mynd sem við þekkjum.
    Tökum umdæmisstjórnirnar. Hv. þm. sem eru kjörnir úti í strjálbýlinu vita að sparisjóðir, svo ég

nefni sem dæmi, gegna þar mjög veigamiklu hlutverki. Það væri t.d. mjög eðlilegt að sparisjóðir sem eru í mikilli nálægð við íbúa í viðkomandi byggðarlagi fjölluðu um þetta með nákvæmlega sama hætti og gert er ráð fyrir að umdæmisstjórnir geri. Ég geri ráð fyrir því að útibússtjórar bankanna úti á landi, sparisjóðsstjórar og starfsmenn þessara stofnana, þekki jafn vel til þessara mála og hver annar ( KP: Betur.) og jafnvel betur, segir hv. þm. Karvel Pálmason. Þetta eru launamenn, launafólk sem fjallar um þessa hluti. Þó að ég sé aðili að Alþýðusambandi Íslands þá treysti ég þessum starfsmönnum alveg jafn vel og einhverjum umdæmisstjórnum sem eru skipaðar með þeim hætti sem hér um ræðir. Það er allt í lagi og gott út af fyrir sig að umdæmisstjórnir með þessum hætti gegni því ráðgjafar- og upplýsingahlutverki sem frv. gerir ráð fyrir. Ég vek athygli á því að raunverulega eru umdæmisstjórnirnar ekkert annað en ráðgjafarnefndir. Vald þeirra er afskaplega takmarkað. Hins vegar mun vald þeirrar fimm manna stjórnar, sem verður kosin samkvæmt þessu frv. til að stjórna Húsnæðisstofnun ríkisins, og ráðherra verða miklu meira en það vald sem núverandi stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins hefur.
    Ég vil, virðulegi forseti, þess vegna undirstrika það að í ársbyrjun 1986 átti sér stað formbreyting. Þá var innleitt það ólýðræðislega form að skylda lögaðila, í þessu tilviki lífeyrissjóði, til að afhenda 55% af árlegu ráðstöfunarfé til kaupa á skuldabréfum Húsnæðisstofnunar gegn því að sjóðfélagar viðkomandi sjóða fengju lánsrétt. Þetta er eins ólýðræðislegt og eins óeðlilegt og hugsast getur. Það er verið að þvinga lögaðila til að afhenda peninga til þess að hann fái aftur rétt til að fá þá endurlánaða. Ég hef alltaf verið á móti þessu og mín skoðun er sú að á þessu sviði, eins og öðrum, eigi að ríkja sama fyrirkomulag og í frjálsum samningum, að lögaðilar geri um það samninga og samkomulag sín í milli með hvaða hætti þeir ráðstafi sínum fjármunum. Það er því eðlilegast að lífeyrissjóðir sem aðrir geri sína samninga við Húsnæðisstofnun eða hvern annan sem er á frjálsum grundvelli. Svona til gamans má náttúrlega geta þess að að því hlýtur auðvitað að koma og mjög bráðlega, vegna þess að ef þeir flokkar, sem hæst tala um það að Ísland skuli nálgast Evrópubandalagið, meina nokkuð með sínu tali um að þeir vilji innleiða þá vestrænu siði sem þekkjast í Evrópu í sambandi við Evrópubandalagið og EFTA, þá er það eitt af grundvallaratriðunum í sambandi við alla slíka samninga að menn hafi frelsi til að ráðstafa sínum fjármunum. Það þekkist ekki í löggjöf vestrænna þjóða að tryggingafélög, lífeyrissjóðir eða hvað þeir heita, verði að kaupa sér rétt, hvort sem það er á þessu sviði eða öðru, með þeim hætti sem íslensk löggjöf gerir ráð fyrir í dag. Þetta ákvæði fellur því niður dautt og ómerkt þann dag sem hið háa Alþingi kynni að taka afstöðu til þess að Íslendingar vildu undirgangast þá samninga sem lúta að efnahagssvæði Evrópu.
    Virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Ég tel að ég hafi verið að bera af mér sakir varðandi það sem hæstv.

ráðherra sagði áðan. En ég vil undirstrika það að þetta frv. hreyfir við mörgu og að sjálfsögðu verður hæstv. ráðherra og aðrir stjórnarstuðningsmenn sem kunna að styðja þetta frv. að þola það að við höfum okkar skoðanir á því. Ég tel að það hefði verið æskilegra að hæstv. ráðherra hefði í samræmi við stefnu Alþfl., sem vill nálgun Íslands við Vestur-Evrópu, meiri en flestir aðrir flokkar, í þessu frv. lagt það til að leggja niður Húsnæðisstofnun og þróa hana með eðlilegum hætti inn í bankalánakerfi þjóðarinnar með þeim hætti sem hin frjálsu viðskipti tíðkast í Evrópu, en það er meginsjónarmið margra að þannig viljum við hafa það.
    Ég vil fyrir mitt leyti sem mest frelsi í þessum efnum. (Gripið fram í.) Kannski kemur að því, sagði hv. þm. Karvel Pálmason. En með tilliti til margra annarra atriða vonast ég fyrir mitt leyti til þess að Íslendingar fari ekki að bjánast til þess að gerast aðilar að Evrópubandalaginu, alla vega mundi sá sem hér stendur ekki greiða atkvæði með því. Það er annað efni og kemur væntanlega til umræðu hér á hinu háa Alþingi þegar rætt verður um stöðu Íslands í sambandi við skýrslu utanrrh. um þau mál.