Lánskjör og ávöxtun sparifjár
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Flm. (Eggert Haukdal) :
    Herra forseti. Það er orðið nokkuð um liðið frá því að fyrri hluti umræðunnar fór fram. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir tilraunir til að fá ráðherra til að vera viðstadda umræðuna. Það tókst ekki og forseti frestaði umræðunni 29. jan. með það í huga að ráðherrar yrðu við næst þegar málið yrði tekið á dagskrá. Það hefur gengið illa að fá þá til að vera viðstadda, en ég fagna því í dag þegar málið er tekið fyrir að hæstv. viðskrh. er hér viðstaddur.
    Vaxtamálin og lánskjaravísitalan virðast feimnismál sem margir kjósa að leiða hjá sér, ekki síst ráðherrar eftir öll orð sem þeir hafa látið falla. Á síðasta degi þingsins fyrir jól fór fram umræða um vaxtamál og var framhald hennar boðað þegar þing kæmi saman að nýju. Sú umræða hefur heldur ekki farið fram. Ég þakka undirtektir þingmanna við málið í umræðunni um daginn.
    Út af orðum hv. 2. þm. Vestf. Ólafs Þ. Þórðarsonar, að margir muni segja að ef lánskjaravísitalan verði tekin í burtu muni verða öngþveiti af því að þá vilji enginn spara, eins og hv. þm. komst að orði, vil ég vitna til athugasemdar við 1. gr. frv. en þar segir:
    ,,Þegar lög þessi öðlast gildi er gert ráð fyrir að viðskiptabankar, sparisjóðir og aðrar innlánsstofnanir, sem veita viðtöku fé til ávöxtunar, taki upp þá reglu, sem viðgengst í öðrum vestrænum ríkjum, að greiða vaxtaauka á bundin spariinnlán til eins árs eða lengur ef gildandi vextir eru lægri en nemur verðbólgu. Útgjöld vegna vaxtaaukans eru þá fjármögnuð með fé sem inn kemur við vaxtalækkun á hlaupareikningum, ávísanareikningum og almennum sparisjóðsbókum er notast sem viðskiptareikningar. Talið er af sérfræðingum í banka- og peningamálum að 90 -- 95% rekstrarkostnaðar í viðskiptabanka fari í að þjónusta þessa reikninga og fyrir þá þjónustu ber eigendum þeirra að greiða með lágum vöxtum af innlánum.``
    Þá kom hv. þm. að gengistengingu sparifjár. Taldi hann að sparifjáreigendur ættu að vera tryggðir ef þessi regla væri tekin upp. Svonefnd gengistenging, sem heimil er samkvæmt Ólafslögum, hefur verið notuð að nokkru. Hins vegar kemur ekki til mála að gera hana að aðalreglu. Þegar tímabært er orðið, og raunar skylt samkvæmt loforðum hæstv. ríkisstjórnar, á að afnema verðtryggingu fjárskuldbindinga með öllu. En það er líka alger fjarstæða meðan fullkomin óvissa ríkir um verðandi stefnu okkar í gjaldeyris - og gengismálum, m.a. vegna hugsanlegrar aðildar okkar að EBE og EES sem sumir vilja stefna að, en ég tek skýrt fram að ég er algerlega andvígur.
    Þá er rétt að gera sér grein fyrir þeim möguleika að nauðsynlegt getur orðið að lækka gengi krónunnar enda þótt kyrrstaða ríki í verðlagsmálum. Ástæðan gæti verið aflabrestur á miðunum eða óhagstæð veðurskilyrði. Ef gengistenging væri þá við lýði mundu allar skuldir útgerðar hækka að sama skapi og aðgerðin af þeim ástæðum vera til tjóns en ekki gagns. Ýmsir aðilar mundu í leiðinni fá óverðskuldaðan gróða.

    Þá gerði hv. þm. athugasemd við 2. gr. frv. sem fjallar um að verðtryggja spariskírteini ríkissjóðs. Sannleikurinn er sá að þessi leið er örugg sparnaðarleið fyrir almenning. Hún neyðir bankana til að bjóða sömu ávöxtunarkjör, hún er baktrygging fyrir bankana sjálfa og hún tryggir almenning. Ríkið sýnist vera eini aðilinn sem getur borgað verðtryggingu. Við höfum dæmin fyrir okkur. Einstaklingar og fyrirtæki geta það ekki. Það sýna öll gjaldþrotin. Ég held að það sé sjálfsagt að þetta verði tekið upp.
    Þá vil ég víkja að lokaorðum hv. þm., með leyfi forseta, en hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson segir í sinni ræðu: ,,Ég játa það að ég treysti því á sínum tíma, og það var mín einfeldni, að núverandi ríkisstjórn mundi standa við það ákvæði stjórnarsáttmálans að afnema vísitöluna þegar ákveðnu marki hefði verið náð í hagstjórn á Íslandi. Við erum búnir að ná þessu marki í hagstjórn á Íslandi. En hæstv. viðskrh. virðist ekki líta svo á að honum beri nein skylda til að virða stjórnarsáttmálann. Það er nú einu sinni svo að traust manna á ráðherrum fer mjög eftir því hvort hægt er að líta svo á að þeirra orð standi og að þeir virði þau atriði sem þeir hafa skrifað undir í stjórnarsáttmála. Þess vegna hygg ég að það sé nokkurt vandamál fyrir þann hæstv. ráðherra að gera grein fyrir því og verja það hvers vegna hann fer ekki eftir stjórnarsáttmálanum í þessum efnum. E.t.v. er það skýringin á því að hann er fjarverandi í dag, ég veit það ekki. En það liggur ljóst fyrir að mín afstaða er sú að það beri að samþykkja þetta frv. með þeirri breytingu að efnisatriði 2. gr. falli út.`` Ég hef fyrr í máli mínu svarað þeirri athugasemd hv. þm.
    Hv. þm. Matthías Bjarnason tók undir þetta frv. og taldi þörf á að ríkisstjórnin stæði við sín orð. Ég leyfi mér að vitna til orða hans, með leyfi forseta. Hann sagði: ,,Ég vildi því aðeins með þessum fáum orðum taka undir það að ég vil að ríkisstjórnin geri hreint fyrir sínum dyrum, verði ekki alltaf að tala út og suður í vaxtamálum. Eitt í dag og annað á morgun og þegar þessi hefur sagt þetta, þá tekur hinn það aftur. Það er þetta sem er orðið óþolandi að hlusta á.
    Ég tel rétt að sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar, sem er væntanlega fjh. - og viðskn. deildarinnar, kalli eftir þessari stefnu``, þ.e. ríkisstjórnarinnar.
    Fyrir tveimur árum eða 19. maí 1989 lá fyrir hér í hv. deild frá meiri hl. fjh. - og viðskn. svohljóðandi nefndarálit:
    ,,Nefndin hefur athugað frv. á fundum sínum og telur að í því sé að finna mjög þarfa ábendingu um afnám lánskjaravísitölu. Ríkisstjórnin hefur ákveðið í stjórnarsáttmála sínum að koma í veg fyrir víxlhækkun verðlags og lánskjara. Það verður ekki gert nema með afnámi lánskjaravísitölu. Þess vegna leggur nefndin til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Undir álitið skrifa Páll Pétursson, form. og frsm., Matthías Bjarnason, með fyrirvara, Ragnar Arnalds og Guðmundur G. Þórarinsson. Þetta gekk eftir og frv. var vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Síðan eru tvö ár og það liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur í sínum stjórnarsáttmála lofað að afnema lánskjaravísitöluna. Þetta frv. mitt hjálpar henni til að ljúka því máli.
    Ég læt máli mínu lokið en vænti þess að hæstv. ráðherra sem hér er viðstaddur geri grein fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar í vaxtamálum.