Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Frv. hefur tvívegis áður verið lagt fyrir Alþingi en ekki náð fram að ganga.
    Sl. vor, þegar frv. var lagt fram öðru sinni, náðist um það víðtæk samstaða að gera nokkrar breytingar á því. Þannig breytt var frv. afgreitt með shlj. atkv. til Ed. Vegna anna í þinglok í vor tókst Ed. ekki að ljúka umfjöllun um frv. og þess vegna er það endurflutt. Ég vil láta í ljós þá von að eftir þær ítarlegu umræður sem átt hafa sér stað um frv. hljóti það að þessu sinni skjóta afgreiðslu Alþingis.
    Þar sem frv. hefur tvisvar sinnum áður komið fyrir Alþingi mun ég að þessu sinni einungis gera grein fyrir helstu breytingum frá núgildandi jafnréttislögum sem leiða af samþykkt frv.
    Lagt er til að hinu tvíþætta hlutverki Jafnréttisráðs verði skipt þannig að skipuð verði sérstök kærunefnd jafnréttismála sem eingöngu hafi það hlutverk að fjalla um kærur sem berast nefndinni og fylgja þeim eftir fyrir dómstólum. Með þessum hætti getur Jafnréttisráð einbeitt sér að því að gegna öðrum verkefnum, svo sem að vera stefnumótandi í jafnréttismálum, sinna rannsóknaskyldu, fræðslu o.fl.
    Í frv. eru skýrari ákvæði um skipan jafnréttismála í stjórnkerfinu. Kveðið er á um að félmrh. fari með jafnréttismál. Ástæðan fyrir þessari breytingu er sú að samkvæmt núgildandi lögum er stjórnskipuleg ábyrgð ráðherra í jafnréttismálum mjög óljós. Sama gildir um stöðu Jafnréttisráðs í stjórnkerfinu. Forsenda markvissra vinnubragða á þessu sviði eins og öllum öðrum er að ábyrgð og skyldur séu ljósar. Á þessu er tekið í frv.
    Samkvæmt lagafrv. er félmrn. heimiluð ráðning jafnréttisráðgjafa sem starfi í náinni samvinnu við Jafnréttisráð. Með þessu ákvæði er komið til móts við óskir sem fram hafa komið um þetta efni, m.a. á Alþingi þar sem tvívegis hafa verið lagðar fram þáltill. um að ríkisstjórninni verði falið að ráða jafnréttisráðgjafa. Rétt er að geta þess að upphaflega ákvæðinu um þetta efni hefur verið breytt í meðförum Ed. og kem ég að því hér á eftir. Hins vegar má benda á það að í greinargerðum með þáltill. hefur verið bent á að þrátt fyrir lagaákvæði um jöfnuð kvenna og karla séu konur verr settar en karlar á flestum sviðum þjóðlífsins. Bent er á að konur séu í miklum meiri hluta í láglaunastörfum og meðallaun þeirra hafi farið lækkandi undanfarin ár í samanburði við laun karla.
    Í upphaflega frv. er lagt til að beitt verði öfugri sönnunarbyrði í þeim kærumálum sem kærunefnd jafnréttismála berast. Í þessu fólst að sá sem veitir stöðu eða ræður starfsmann verður að sýna fram á með verulegum líkum að þar hafi kynferði ekki ráðið vali á starfsmanni. Í því frv. sem nú er lagt fyrir Alþingi er gert ráð fyrir að telji einhver rétt á sér brotinn skuli atvinnurekandi sýna kærunefnd jafnréttismála fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Þessi breyting þýðir að

öfug sönnunarbyrði skuli einungis gilda fyrir kærunefnd en ekki í dómsmálum um jafnréttismál.
    Nefndin sem endurskoðaði núgildandi jafnréttislög gerði það að tillögu sinni í upphaflegri gerð frv. að nefna skuli tvo, karl og konu, þegar tilnefnt er í nefndir, stjórnir og ráð á vegum ríkis og sveitarfélaga. Við skipun skyldi þess síðan gætt að hlutfall kynjanna verði sem jafnast. Ekki tókst samstaða um þessa breytingu. Hins vegar er nú lagt til að þegar óskað er tilnefningar í stjórnir og ráð verði ávallt á það minnt að í þeim skuli sitja sem næst jafnmargar konur og karlar.
    Í frv. er ákvæði um heimild til að dæma miskabætur. Dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að slíka heimild sé ekki að finna í núgildandi jafnréttislögum. Hér er því um nýmæli í 22. gr. að ræða. Samkvæmt henni er hægt að dæma menn til að greiða miskabætur með eða án bóta fyrir fjártjón. Ákvæði þetta er sérákvæði sem víkur til hliðar ákvæðinu um miskabætur í 264. gr. núgildandi hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt greininni getur sá sem misgert er við átt rétt á bótum fyrir miska auk bóta fyrir fjártjón. Almennt má telja að löglíkur fyrir því að einstaklingur sem mismunað er vegna kynferðis bíði ófjárhagslegt tjón, hann verði fyrir andlegri þjáningu og skapraun, álitshnekki og röskun á stöðu og högum, hvort sem af mismunun leiðir fjártjón eða ekki.
    Ég nefni einnig mjög mikilvægt ákvæði í 17. gr. frv. en þar er kveðið á um það að félmrh. leggi fyrir Alþingi áætlun um jafnréttismál til fjögurra ára í senn í formi þáltill. Áætlun Jafnréttisráðs, sbr. 2. tölul. 16. gr., og áætlanir einstakra ráðuneyta og stofnana í jafnréttismálum verði felldar inn í þessa heildaráætlun. Lagt er til að áætlun þessi verði endurskoðuð á tveggja ára fresti. Benda má á að það er nýmæli í frv. að gert er ráð fyrir að einstök ráðuneyti og stofnanir semji áætlanir í jafnréttismálum. Með þessum hætti tekur Alþingi virkan þátt í að móta stefnuna í jafnréttismálum.
    Þar sem Jafnréttisráði er ætlað breytt hlutverk frá gildandi lögum er verkefnisgrein ráðsins að nokkru leyti breytt. Annars vegar er kveðið á um það í 2. tölul. 16. gr. að endurskoða eigi stefnumarkandi áætlun ráðsins á tveggja ára fresti. Hins vegar er lagt til að 8. tölul. 15. gr. gildandi laga sem fjallar um ábendingar við brotum verði felldur undir verksvið kærunefndar jafnréttismála.
    Auk framangreindra verkefna samþykkti Nd. Alþingis á síðasta þingi nokkrar aðrar breytingar á verkefnum Jafnréttisráðs eins og þeim var lýst í fyrri gerðum frv. Nd. samþykkti að í 7. tölul. gr. skuli kveðið á um það verkefni ráðsins að taka til rannsóknar að eigin frumkvæði eða annarra stöðu kvenna og karla. Einnig samþykkti deildin að bæta nýjum tölulið við greinina þar sem kveðið er á um að halda skuli jafnréttisþing á a.m.k. þriggja ára fresti. Í áliti félmn. kemur fram að gert er ráð fyrir að ráðherra setji nánari ákvæði í reglugerð um skipulag og hlutverk þingsins. Nefndin tekur þó fram í áliti sínu að eðlilegt sé að verkefni slíks þings séu ráðgjafar - og umsagnarstörf á

sviði jafnréttismála fyrir Jafnréttisráði, ekki síst vegna aðildar ráðsins að mótun jafnréttisáætlunar. Um leið gæti þingið orðið vettvangur almennra umræðna um jafnréttismál og uppspretta að farvegum nýrra hugmynda um þau mál. Nefndin telur jafnframt eðlilegt að aðild að þinginu eigi auk Jafnréttisráðs fulltrúar jafnréttisnefnda, stjórnmálaflokka og fulltrúa félagasamtaka er láti sig jafnréttismál varða.
    Rétt er að geta þess að frv., eins og því hefur verið breytt í meðförum Nd., var sent Jafnréttisráði til umsagnar. Í umsögn ráðsins segir m.a. að ráðið telji miður að mörg ákvæði upphaflega frv. hafi verið felld niður í meðförum Alþingis á síðasta þingi, t.d. tillaga um að lögfesta svonefnda tilnefningarleið þegar tilnefnt er í stjórnir, nefndir og ráð. Jafnframt lýsir ráðið yfir furðu sinni með það að ekki skuli vera samstaða meðal þingmanna um að lögfesta reglur um sönnunarbyrði í jafnréttismálum sem taki til meðferðar þeirra mála, bæði á stjórnsýslustigi og fyrir dómstólum. Jafnréttisráð vekur athygli á því að þetta gerist á sama tíma og verið er að yfirfara íslensk lög og reglugerðir með tilliti til reglna Evrópubandalagsins. Ráðið telur hins vegar að frv., eins og það liggur fyrir eftir afgreiðslu Nd. Alþingis á síðasta þingi, sé spor í rétta átt. Í frv. sé gert ráð fyrir að lögfesta nýtt fyrirkomulag á framkvæmdaáætlun hins opinbera og gert sé ráð fyrir skýrri lagaheimild til að dæma bætur. Enn fremur er lagt til að sérstakri nefnd verði falin meðferð kærumála, svo að nokkur dæmi séu tekin um nýmæli frá núgildandi lögum. Jafnréttisráð telur því æskilegt að frv. verði lögfest í núverandi mynd, þ.e. eftir afgreiðslu Nd. Alþingis á málinu sl. vor.
    Frv. var í haust lagt fyrir Ed. Alþingis. Deildin samþykkti að gera nokkrar breytingar á frv. Þær eru eftirfarandi:
    Samþykkt var að á eftir orðunum ,,frumkvæði að`` í 2. málsl. 13. gr. bætist: sérstökum tímabundnum. Í þessu felst að jafnréttisnefndir sveitarfélaga skulu fylgjast með og hafa frumkvæði að sérstökum tímabundnum aðgerðum til að bæta stöðu kvenna í sveitarfélaginu.
    Nefndin samþykkti að breyta 14. gr. þannig að þar er nú kveðið á um að félmrh. fari með framkvæmd laganna, en ekki tekið sérstaklega fram að ráðherra fari með jafnréttismál kvenna og karla.
    Ed. samþykkti einnig að gera breytingu á 18. gr. sem felur í sér að félmrn. er heimilt að ráða einn jafnréttisráðgjafa í samvinnu við Jafnréttisráð sem vinni að leiðréttingu á stöðu kvenna, m.a. í stofnunum og fyrirtækjum um land allt í samvinnu við starfsmenn og stjórnendur. Ákvæðið var ekki bundið við ráðningu eins jafnréttisráðgjafa fyrir breytinguna.
    Deildin samþykkti veigamikla breytingu á 19. gr. sem fjallar um kærunefnd jafnréttismála. Í frv. var gert ráð fyrir að félmrh. skipaði kærunefnd jafnréttismála til þriggja ára í senn. Hæstiréttur tilnefndi formann nefndarinnar, sem skyldi vera lögfræðingur, Kvenréttindafélag Íslands tilnefndi einn og félmrh. skipaði einn án tilnefningar. Ed. hefur hins vegar samþykkt að gera þá breytingu á frv. að í stað þess að

Kvenréttindafélag Íslands tilnefni einn nefndarmann skuli félmrh. skipa tvo án tilnefningar. Auk þess skuli skipa tvo nefndarmenn skv. tilnefningu Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands. Varamenn skulu vera skipaðir með sama hætti. Við þetta fjölgar nefndarmönnum úr þremur í fimm. Einnig hefur síðasta málsl. 1. mgr. 19. gr. verið breytt. Hann hljóðar nú þannig að þegar kæruefni varðar aðra aðila vinnumarkaðarins en sæti eiga í nefndinni skal leita umsagna þeirra samtaka sem hlutaðeigandi eiga aðild að.
    Loks hefur Ed. samþykkt að í stað orðalagsins ,,gáleysi`` í 22. gr. komi: vanræksla.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjalla frekar um frv. enda fékk það ítarlega umfjöllun á síðasta þingi. Ég vil einungis láta enn einu sinni í ljós þá von að þetta frv. fái skjóta afgreiðslu á Alþingi þannig að ný jafnréttislög geti tekið gildi sem allra fyrst. Að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.