Lánskjör og ávöxtun sparifjár
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil að lokum eingöngu segja það að mér finnst hv. flm. ekki meta til fulls hversu mikilvæg þau áform eru sem ríkisstjórnin hefur kynnt á þessu sviði og hversu nauðsynlegt það er að breytingar í þessum efnum valdi ekki óbætanlegum skaða með því að brjóta traust á þessum grundvallaratriðum á lánamarkaðinum sem eru geysilega mikilvæg. Það er ekki boðlegt að svipta burt lánsskilmálum sem menn hafa samið um í góðri trú eða búið sig undir að reka sín fyrirtæki út frá með þeim hætti sem í tillögunni felst. Þess vegna er hægfara aðlögun að breyttum aðstæðum nauðsynleg því grundvöllurinn er að sjálfsögðu þetta bætta efnahagsumhverfi, þessi lægri verðbólga sem loksins, loksins hefur náðst á Íslandi niður á það stig sem tíðkast hér í nágrannalöndum okkar og helstu viðskiptalöndum. Ég efast ekki um góðan vilja flm. en segi það aftur að ég tel að sú lausn sem ríkisstjórnin hefur komið sér saman um sé raunhæfari, öruggari og líklegri til þess að ná því sameiginlega markmiði okkar, flm. og mín, að koma á kyrrum kjörum á lánamarkaðinum, kjörum sem eru í senn sanngjörn og efnahagslega skynsamleg.
    Það var sagt áðan af hv. 6. þm. Norðurl. e. að á það væri treyst að menn myndu ekki það sem lofað var. Ég vísa því algerlega á bug. Að vísu er það því miður svo í veröldinni að minni manna er misjafnt og margt mætti um það segja hversu minnugir menn eru um það sem þeir láta sér um munn fara eða flýtur úr þeirra penna, en að halda því fram að ekki hafi verið staðið við þau fyrirheit, þá stefnumótun sem ákveðin var við myndun þessarar ríkisstjórnar eða hinnar fyrri sem hv. 6. þm. Norðurl. e. vitnaði til frá því í september 1988, er ekki rétt og ég efast ekki um að hv. þm. veit þetta þegar hann skoðar sinn hug og bætir sitt minni.