Grunnskóli
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Kristín Einarsdóttir (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég vil ekki blanda mér í deilur um það hvort menntmn. hafi unnið frv. vel eða illa. Þar á ég ekki sæti og get því ekki um það dæmt. Hins vegar þykir mér mjög óeðlilegt að hæstv. menntmrh. skuli ekki vera hér og vænti þess að hann hafi mjög mikilvægum störfum að gegna og það sé mjög nauðsynlegt að hann sitji þing Norðurlandaráðs, ekki ætla ég að efast um það. En mér þykir þetta frv. mjög mikilvægt og er sammála hv. 4. þm. Norðurl. v. Ragnari Arnalds um það. Þess vegna þykir mér mjög slæmt að fresta þurfi umræðu um það.
    Ég sé í sjálfu sér ekki mun á því þó hér sé mælt fyrir nál. Ég er ekki að setja mig upp á móti því. En því miður mun málið tefjast mjög mikið ef umræðunni lýkur ekki í dag. Það er fyrirséð að það muni ekki vera hægt og þess vegna hefði ég út af fyrir sig nú talið eðlilegra að hún færi fram í einu lagi. En ég geri ekki athugasemd við það þó að úrskurður verði um það að mælt verði fyrir nál. En tíminn er mjög naumur og það er það sem mér þykir mjög alvarlegt. Og mér þykir alvarlegt að menntmrh. skuli ekki vera hér og fylgja þessu mikilvæga máli eftir. Það er kannski fyrst og fremst það að þó svo að mælt verði hér fyrir nál., þá er umræðan í sjálfu sér öll eftir. Það þykir mér mjög slæmt og tíminn nýtist illa.