Grunnskóli
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Frsm. meiri hl. menntmn. (Ragnar Arnalds) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. menntmn. en ásamt mér skrifa hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, Árni Gunnarsson og Guðmundur G. Þórarinsson undir það nál.
    Nefndin hefur fjallað um frv. og fengið um það umsagnir frá fjöldamörgum aðilum, eins og fram kemur í nál. Nefndin hefur haldið fimm fundi þar sem mál þetta hefur verið á dagskrá. Auk þess voru boðaðir tveir fundir í nefndinni, þar sem ætlunin var að taka þetta mál formlega fyrir, en þeir fundir urðu ekki formlegir vegna þess að ekki var nægileg mæting á fundina. Það má því segja að alls hafi sjö sinnum verið boðaðir fundir um þetta mál en málið tekið formlega fyrir á fimm fundum, þ.e. 20. des., þegar málið var sent til umsagnar og veittur umsagnarfrestur til 25. jan. 1991. Síðan var málið á dagskrá funda sem féllu niður 28. jan. og 4. febr. Var síðan tekið fyrir á næstu fundum nefndarinnar 11. febr., 12. febr., 18. febr. og loks afgreitt út úr nefndinni á fundi 20. febr. Ég flyt svo nákvæma skýrslu um störf nefndarinnar hvað þetta varðar vegna fullyrðinga sem fram koma í nál. hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur og Ragnhildar Helgadóttur, en ég tel að þær fullyrðingar sem þar koma fram standist ekki við nánari skoðun og með hliðsjón af því sem ég hef hér sagt.
    Hitt fer ekkert á milli mála að hér er um ákaflega viðamikið mál að ræða og vissulega hefði verið þörf á því að málið hefði verið til miklu lengri og ítarlegri skoðunar og umræðu í hv. menntmn. heldur en tími gafst til. Ég ítreka það, sem ég sagði við umræðu um þingsköp rétt áðan, að nefndin stendur einfaldlega frammi fyrir því hvort þetta mál á að liggja og verða óafgreitt á þessu þingi eða hvort á að reyna að hraða afgreiðslu þess og koma því í gegn áður en þingstörfum lýkur. Það er sá kostur sem meiri hl. nefndarinnar velur með því að afgreiða málið út úr nefndinni hinn 20. febr. eftir að sjö sinnum hafði verið boðaður fundur um þetta mál og fimm fundir fjallað um það.
    Í frv. er gert ráð fyrir því að komið sé á einsetnum grunnskóla með samfelldum sjö stunda skóladegi. Nemendum gefist kostur á málsverði í skólanum, en það er undirstaða þess að unnt sé að lengja viðverutíma barna í skólum á sama tíma og þjóðfélagið byggir á þeirri forsendu að báðir foreldrar vinni utan heimilis. Með lengdum skóladegi er gert ráð fyrir að unnt verði að sinna margvíslegum verkefnum í skólunum sem nú vinnst ekki tími til. Í ákvæði til bráðabirgða var í frv. gert ráð fyrir því að þessu markmiði yrði náð á tíu ára tímabili. Það sem er mikilvægast við meðferð menntmn. á máli þessu og við tillögur hv. meiri hl. nefndarinnar, sem ég mæli hér fyrir, er að lagt er til að ákvæði um málsverð í skólanum komi miklu fyrr til framkvæmda en ráð var fyrir gert í frv. Eins og ég nefndi áðan var ráð fyrir því gert að það ákvæði kæmi til framkvæmda á tíu ára tímabili en meiri hl. gerir tillögu um að inn í 4. gr. frv. verði skotið svofelldu ákvæði: ,,Í grunnskóla skulu nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma`` og einnig að í ákvæði til bráðabirgða komi ákvæði sem hljóði svo: ,,Ákvæði 4. gr. um málsverð á skólatíma komi til framkvæmda á næstu þremur árum frá gildistöku laga þessara.``
    Ég þarf auðvitað ekki að segja það neinum að ef þessar tillögur nefndarinnar verða að veruleika, þá er þar um talsverð tíðindi að ræða, fagnaðarefni fyrir flesta þá sem um skólamál hafa fjallað á liðnum árum. Um útfærslu þessa atriðis er það að segja að að sjálfsögðu verður að gera ráð fyrir því að útfærslan verði skipulögð á hverjum stað miðað við aðstæður. Leitað verður eftir samstarfi við kennarasamtök og samtök sveitarfélaga um þetta verkefni, sbr. ákvæði í 10. gr. frv. um sérstaka samstarfsnefnd menntmrn. og Sambands ísl. sveitarfélaga. Framkvæmdin gæti síðan orðið með ýmsu móti, hugsanlega í því formi að nemendur neyttu matar síns í kennslustofum eða sérstökum mötuneytum, matur yrði útbúinn í sérstökum eldhúsum í skólanum eða annars staðar og væntanlega yrðu nemendur virkjaðir sem mest í framkvæmdinni.
    Rétt er að benda á það að í heimavistar - og heimanakstursskólum er nemendum nú þegar séð fyrir mat og aðstöðu til þess að matast um hádegi. Gott hádegishlé og samvera fjölskyldu á heimili getur þótt eftirsóknarverðari en samfelld viðvera og skólamáltíðir, t.d. í litlum bæjum þar sem vegalengdir milli heimilis og vinnustaðar eru stuttar. Þess vegna er rétt að hafa þann fyrirvara á að auðvitað verður að taka tillit til aðstæðna á hverjum stað. Hér er um að ræða samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga, foreldra og nemenda sjálfra. Sveitarfélög mundu hugsanlega sjá um húsnæði og starfsfólk til þess að tilreiða matinn, koma honum til nemenda og innheimta matargjöld. Foreldrar gætu hugsanlega greitt efniskostnað en nemendur mundu hjálpa til við framreiðsluna. Hlutur ríkisins yrði að greiða fyrir umsjón með nemendum á matmálstímum.
    Eins og kemur skýrt fram í 10. gr. frv. er ætlunin að skipuð sé samstarfsnefnd ráðuneytisins og Sambands ísl. sveitarfélaga. Samkvæmt 10. gr. er það verkefni nefndarinnar að gera áætlun um einsetinn skóla, lengdan og samfelldan skóladag og skólamáltíðir, sbr. bráðabirgðaákvæði laga þessara, skólasöfn, heimavistir og félagsstörf nemenda og aðstöðu vegna sérkennslu. Ég vil þess vegna minna á að nefndin taldi það ekki í verkahring sínum að gera hér tillögur um framkvæmd skólamáltíða í smáatriðum. Það sem ég hef hér sagt eru fremur hugleiðingar en fastmótuð áform um það hvernig þessu verði hagað, enda verður það verkefni samstarfsnefndar ríkisins og sveitarfélaganna að móta stefnuna hvað það varðar. Í frv. er einungis tekin ákvörðun um það að skólamáltíðir í hádegi skuli koma til framkvæmda á næstu þremur árum og síðan mun framkvæmdin mótast við nánari samráð aðila um málið. Af þessari ástæðu er augljóst að ekki er raunhæft að gerð sé á þessu stigi nákvæm áætlun um kostnað við að koma á þessum skólamáltíðum. Framkvæmdin hlýtur að verða töluvert mikið háð aðstæðum og margir möguleikar geta komið til

greina. Á þessu stigi máls er því ekki raunhæft að hægt sé að gera áætlun um nákvæman kostnað sem af þessu mundi leiða.
    Um efni frv. að öðru leyti má vissulega flytja langt mál og verður að vísa til grg. með frv. hvað það varðar. Ég vil þó sérstaklega nefna hér nokkur mikilvæg atriði frv. og byrja þá á því að tiltaka atriði sem hafa verulegan kostnað í för með sér. Þá er fyrst að nefna nýtt ákvæði um námsráðgjafa en þeir geta starfað í einstökum skólum eða fræðsluskrifstofum og yrðu ráðnir sem kennarar. Lagt er til að ákvæði um námsráðgjafa komi til framkvæmda á fimm árum. Samkvæmt upplýsingum sem nefndin fékk um kostnað af framkvæmd þessa atriðis er kostnaður talinn vera um 75 -- 80 millj. kr.
    Þá er rétt að nefna kennsluafslátt vegna aldurs. Skilyrði fyrir kennsluafslætti yrðu lækkuð úr 20 árum í tíu ára tímabil.
    Næst nefni ég lágmarksákvæði um kennslu. Gert er ráð fyrir því að ákvæðin um tímafjölda á hvern nemanda, sem nú eru í grunnskólalögunum, verði lágmarksákvæði þannig að ekki verði heimilt að bjóða minni kennslu handa nemendum en grunnskólalög kveða á um. Það yrði sem sagt um að ræða níu mánaða starfstíma almennt.
    Þessi tvö ákvæði sem ég nú hef nefnt, þ.e. lágmarksákvæðin um kennslu og ákvæðin um kennsluafslátt, eru talin munu kosta um 55 millj. kr. samanlagt að meðtöldum nokkrum öðrum minni háttar atriðum.
    Loks er rétt að nefna hér fjölgun kennslustunda. Í frv. er gert ráð fyrir að skóladagur 1. -- 3. bekkjar verði lengdur á næstu þremur árum í 25 stundir á viku, enda kemur sjö stunda heilstæður skóladagur allra grunnskólanemenda til framkvæmda á næstu tíu árum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem nefndin aflaði sér er talið að þetta muni kosta 36 millj. kr. á ári.
    Ákvæði eru í frv. um nemendafjölda í bekk. Viðmiðunartala í 1. -- 3. bekk er lækkuð úr 30 nemendum í 22 nemendur og í 4. -- 10. bekk úr 30 nemendum í 28 nemendur. Samkvæmt þeim upplýsingum sem nefndin aflaði sér er talið að þetta muni kosta 42 millj. kr. á ári. Samtals hef ég hér nefnt aukinn kostnað vegna samþykktar frv. sem nemur um 210 millj. kr. og dreifist sá kostnaður á fimm ára tímabil.
    Af öðrum mikilvægum atriðum þessa frv. er rétt að nefna ákvæði um grunnskólaráð sem yrði samstarfsvettvangur þeirra aðila sem vinna að málefnum grunnskólans. Fulltrúar foreldrafélaga, kennarafélaga og kennaramenntunarstofnana yrðu í grunnskólaráði auk fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga, Námsgagnastofnunar og menntmrn.
Ákvæði eru um samráðsnefnd ráðuneytisins og Sambands ísl. sveitarfélaga eins og ég hef áður nefnt. Þessari samráðsnefnd er ætlað að gegna lykilhlutverki í gerð áætlana vegna ákvæða til bráðabirgða og vegna ákvæðanna um einsetinn skóla og skólamáltíðir.
    Ákvæði eru um fræðsluskrifstofur og fræðsluráð í þessu frv. Þá er rétt að benda á að brtt. nefndarinnar snúast einmitt um atriði sem þessa aðila varða.

    Mjög skiptar skoðanir virðast vera um stöðu og hlutverk fræðsluráða, en í mörgum umsögnum sem nefndinni bárust frá umsagnaraðilum voru ákvæðin um fræðsluskrifstofur, fræðsluráð og fræðslustjóra nokkuð gagnrýnd. Bent var á að fræðsluráð ættu að vera samstarfsvettvangur sveitarfélaganna og með ákvæðum frv. væru sveitarfélögin raunverulega komin í minni hluta innan fræðsluráðanna. Það varð því að ráði að gera brtt. við ákvæði frv. um fræðsluráð og er samkvæmt brtt. gert ráð fyrir því að fræðsluráð sé skipað fimm eða sjö mönnum sem kjörnir eru af sveitarstjórnum eða samtökum sveitarfélaga í hlutaðeigandi fræðsluumdæmi. Í frv. var gert ráð fyrir því að þar ættu sæti níu fulltrúar og væru aðeins fjórir þeirra kjörnir af sveitarstjórnum eða samtökum sveitarfélaga í hlutaðeigandi fræðsluumdæmi. Þar á móti er gert ráð fyrir því að fræðslustjóri, fulltrúi skólastjóra, kennara og foreldra í umdæminu hafi málfrelsi og tillögurétt á fræðsluráðsfundum og verði boðaðir á þá á sama hátt og fræðsluráðsfulltrúar.
    Í frv. var gert ráð fyrir því að fræðslustjóri yrði formaður fræðsluráðs en frá því er fallið í brtt. meiri hl. Hins vegar er þar sagt að fræðsluráð geti falið fræðslustjóra að annast framkvæmdastjórn fyrir ráðið.
    Þá er skýrt tekið fram að fræðsluráðið sé fyrst og fremst samstarfsvettvangur sveitarfélaga í viðkomandi umdæmi.
    Í frv. voru ákvæði um sérkennslu. Þar var gert ráð fyrir því að mörkuð væri ákveðnari stefna um sérkennsluaðstoð í heimaskóla og að gerð skyldi áætlun um sérkennslu fyrir landið allt.
    Í brtt. meiri hl. menntmn. er þar að auki gert ráð fyrir því að grunnskólar, sem ríkið rekur fyrir fötluð börn, þ.e. sérskólar, verði reknir á vegum ríkisins þar til grunnskólar geta veitt fötluðum nemendum sambærilega eða betri þjónustu.
    Eins og kunnugt er er gengið út frá því í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 59/1983, að það sé eitt af hlutverkum heilsugæslustöðva að sinna heilsugæslu í skólum. Í þeim tilvikum sem heilsugæslustöðvar eru fjarri skólum þarf hins vegar að vera fyrir hendi aðstaða til heilsugæslu í skólunum sjálfum. Flytur meiri hl. menntmn. brtt. sem ætlað er að taka af öll tvímæli um að slík aðstaða skuli vera fyrir hendi.
    Í frv. eru ákvæði um það þegar tvö eða fleiri sveitarfélög eiga samstarf með sér um byggingu skólahúsnæðis. Í frv. er gert ráð fyrir því að skipting stofnkostnaðar taki mið af íbúafjölda, útsvarsskyldum tekjum, barnafjölda og kennslustundafjölda. Nefndin fékk ábendingu um að þessi grein frv. þarfnaðist lagfæringar og hefur hún gert tillögu um að skipting kostnaðar feli bæði í sér stofnkostnað og rekstur en frv. kvað einungis á um stofnkostnað. Auk þess er við útreikning samkvæmt frv. miðað við bæði íbúafjölda og barnafjölda, en eðlilegra þykir að ekki sé tvívegis miðað við íbúafjölda við útreikning á kostnaði heldur sé kostnaðurinn miðaður við íbúafjölda, útsvarsskyldar tekjur, kennslustundafjölda og fasteignamat skattskyldra fasteigna í sveitarfélögunum.
    Virðulegi forseti. Ég hef hér gert grein fyrir brtt.

meiri hl. menntmn. Ég vil lýsa því yfir að það er skoðun mín að þetta sé eitt af mikilvægustu málunum sem hv. Alþingi fjallar um á þessum vetri. Ég vænti þess fastlega að alþingismenn hjálpi til að greiða för þessa frv. gegnum þingið. Það er í sjálfu sér afar auðvelt að stöðva þetta mál hér í þinginu. Ef menn gera sér leik að því að tefja málsmeðferðina úr hófi fram er hætt við að þetta mál nái ekki fram að ganga því það er það stutt eftir af þessu þingi og málið á eftir að ganga í gegnum hv. Ed. Ég vil því, vegna þess að ég veit að mikill meiri hluti hv. alþm. hefur góðan skilning á því hversu mikilvægt mál þetta er, skora á hv. þm. að gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að greiða för þess í gegnum þingið.