Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Þetta er í þriðja sinn sem við ræðum þetta frv. á Alþingi. Eins og kom fram hér áður var þetta frumvarp fyrst lagt fram á 111. löggjafarþingi.
    Það er mjög hastarlegt að hafa þurfi sérstök lög um jafnan rétt kvenna og karla en því miður virðist það vera nauðsynlegt. Við höfum haft lög um jafnan rétt kvenna og karla í gildi í þó nokkurn tíma án þess að það hafi leitt til þess að jafnrétti sé komið í það horf sem maður vildi gjarnan sjá og langt í frá, því miður.
    Ég kom að samningu þessa frv. og var skipuð í nefnd af hæstv. félmrh. í nóvember 1988 en þá hafði nefndin starfað frá því í maí það ár. Ég kom að þessu máli undir lokin. Þetta frv. var flutt á 111. löggjafarþingi eins og ég sagði áðan og hefur nú gengið í gegnum þrjár hreinsanir, ef við getum orðað það svo. Því miður hefur það versnað við hverja endurskoðun að mínu mati.
    Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frv., það er margt gott í því þrátt fyrir að búið sé að fella út mjög mikilvægar greinar, og vísa til þess sem ég hef sagt áður um hvaða bót er að þessu frv. miðað við gildandi lög. En því miður er búið að fella út mjög mikilvæg atriði og vil ég aðeins gera þau að umtalsefni við þessa umræðu.
    Ég vil fyrst víkja að 7. gr. frv. Eins og frv. var flutt í fyrsta sinn var 7. gr. nokkuð ítarlegri, en í upphafi 7. gr. sagði, með leyfi forseta:
    ,,Við ráðningu í starf skal það kynið, sem er í minni hluta í starfsgrein, ganga fyrir uppfylli umsækjandi tilskildar kröfur til starfsins. Gildir þetta jafnt um stöðuveitingu hjá hinu opinbera sem og á hinum almenna vinnumarkaði.``
    Þetta hefur verið fellt brott, var í 7. gr. upphaflega frv. en núna 8. gr., sem síðan er óbreytt. Þetta þykir mér mjög miður því að ég er alveg viss um það að alltaf er hægt að finna leiðir til að fara fram hjá því að veita ákveðið starf, annaðhvort konu eða karlmanni, eftir því hvort meiri hluti er í viðkomandi starfsgrein. Það hefur a.m.k. sýnt sig að svo hafi verið gert. Það hefur verið mjög erfitt í ýmsum starfsgreinum, það á sérstaklega við um konur, ég þekki það ekki vel með karla, erfitt fyrir konur að komast inn í ákveðnar starfsgreinar og sérstaklega erfitt fyrir þær að vera ráðnar ef karlmenn sækja um líka.
    Ég þekki það sjálf úr Háskólanum t.d. þar sem mjög oft hefur verið gengið fram hjá hæfum konum og að mínu mati miklu hæfari en þeim körlum sem hafa sótt um, en ævinlega hefur verið fundið ráð til þess að segja að þær séu nú aðeins minna hæfar en karlarnir og þess vegna eigi þeir frekar að fá starfið en þær. Þess vegna finnst mér mjög miður að þetta ákvæði skyldi falla út. Ég bendi á að t.d. í Noregi er svipað ákvæði, sem hefur verið mjög mikilvægt fyrir konur að hafa inni, um að ef þær uppfylla tilskildar kröfur til starfsins eigi þær að ganga fyrir. Þetta hefur líka orðið til þess að störfin eru yfirleitt betur

skilgreind en áður var gert til þess að kröfurnar komi mjög vel fram í auglýsingum og það er yfirleitt til bóta heldur en að hafa það mjög opið eins og nú er. Þetta er nú kannski það fyrsta sem ég rekst á sem ég tel miður að hafi fallið út.
    Það hefur líka fallið burtu ein grein í þessum hreinsunareldi, ef ég get kallað svo. Í upphaflega frv. var ákvæði í 10. gr. sem hefur verið kalla öfug sönnunarbyrði, en hún hljóðaði svo, með leyfi forseta:
    ,,Háttsemi sem gengur gegn 5. -- 8. gr. laga þessara telst brot á lögunum nema atvinnurekandi sýni fram á með verulegum líkum að ekki hafi verið um að ræða mismunun eftir kynferði.``
    Þetta tel ég mjög mikilvægt að hafa inni. Þessu var hins vegar breytt eftir fyrstu skoðun á þann veg að sett var inn í 6. gr.: ,,Ef einhver telur rétt á sér brotinn samkvæmt ákvæðum þessarar greinar skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.``
    Mér þótti út af fyrir sig allt í lagi að þetta yrði sett inn á þennan hátt því þarna var greinilegt að atvinnurekandi varð að sýna fram á að ekki hefði verið um mismunun vegna kynferðis að ræða.
    En síðan verður enn ein breyting. Hún þótti mér nú sýnu verst vegna þess að þar er alveg búið að fella þetta ákvæði í burtu, þ.e. núna er gert ráð fyrir því að atvinnurekandi þurfi að sýna kærunefnd jafnréttismála fram á það að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, en ekki er gert ráð fyrir því að það muni gilda fyrir dómstólum.
    Mér þykir þetta mjög slæmt. Mér þykir þetta verra en það sem ég nefndi áðan. Mér finnst vont að þetta skuli fara í burtu og ég átta mig ekki á hvers vegna alþingismenn geta ekki fellt sig við að þetta ákvæði sé inni í frv. Svipað ákvæði er í lögum alla vega Svíþjóðar og Finnlands, held ég. Eins er slíkt ákvæði inni í lögum Evrópubandalagsins og Evrópubandalagsríkjanna þar með.
    Það er ekki langt síðan EB-dómstólinn í Lúxemborg dæmdi eftir þessu ákvæði og ákvarðaði að þarna væri mjög skýrt að atvinnurekandi varð að sýna fram á að ekki væri um mismunun eftir kynferði að ræða. Þess vegna átta ég mig ekki á því af hverju þeir sem þó eru svo hrifnir af því sem er að gerast úti í Evrópu, og allt eigum við að apa þar eftir og taka upp þeirra lög meira að segja, skuli ekki vilja hafa þetta ákvæði inni í jafnréttislögum. Þessu vona ég að verði hægt að breyta aftur til betri vegar, en því miður þá sé ég að eftir að Ed. hefur fjallað um frv. er þetta ákvæði ekki í frv.
    Mig langar til að minnast á 12. gr. frv., þó hún sé ekki breytt frá því að frv. var lagt fram í fyrsta sinn. Þetta er búið að vera í þrjú ár í frv. sem ríkisstjórnin hefur flutt en það breytir ekki því að ekki er hægt að sjá þess merki af hálfu ríkisstjórnarinnar að hún hugsi sér að fara eftir þessu ákvæði.
    Mig langar t.d. að spyrja hæstv. félmrh. hvað ríkisstjórnin hafi gert til þess að ná því markmiði sem þarna kemur fram í 12. gr.: ,,Í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka

skulu, þar sem því verður við komið, sitja sem næst jafnmargar konur og karlar og skal ávallt á það minnt þegar óskað er tilnefningar í hlutaðeigandi stjórnir, nefndir og ráð.``
    Það er ekki langt síðan, ég held að það hafi verið á sl. vetri, að settar voru á stofn tvær nefndir, með samtals 17 manns, sem áttu að fjalla um atvinnumál og þar var ekki ein einasta kona. Síðan var ein kona skipuð í aðra nefndina en eftir að búið var að tilnefna í fyrsta sinn. Þarna var ein kona tilnefnd í þessar nefndir. Þetta er ekki eina dæmið. Það eru ótal, ótal mörg dæmi. Ég veit um eina nefnd sem á að fjalla um þróunaraðstoð. Ég man ekki hversu margir eru í þeirri nefnd, en aðeins ein kona. Fyrst voru eingöngu tilnefndir karlar en síðan þegar karlarnir mættu á fyrsta fundi sáu þeir að það var dálítið einkennileg samsetning á nefnd. Þess vegna finnst mér að ríkisstjórnin hafi ákaflega lítið farið eftir þessu ákvæði.
    Ég hallast að því að ekki muni duga neitt annað en þvingunaraðgerðir í þessu sambandi, þ.e. það verði að vera helmingur af hvoru kyni í slíkum nefndum, alla vega að hlutfallið sé 40 á móti 60. Það sé það alminnsta sem hægt er að ætlast til þess að sé, a.m.k. 40% af öðru kyninu í slíkum nefndum. Það er mjög ólýðræðislegt að helmingur þjóðarinnar skuli varla koma nálægt slíkum nefndum og komi ekki til greina þegar verið er að skipa í nefndir af þessu tagi. Þess vegna langar mig til að vita hvernig hefur verið reynt að framfylgja þessu ákvæði. Ég geri mér grein fyrir að það er ekki búið að samþykkja þetta en eitthvað hlýtur ríkisstjórnin að meina með því að hafa þetta ákvæði inni í frv.
    Það er líka annað sem mig langar að gera athugasemd við og það er skipan Jafnréttisráðs. Það er auðvitað alltaf álitamál hvernig á að skipa Jafnréttisráð og ætla ég ekki að ræða það neitt sérstaklega því að það hefur verið svolítið erfitt að finna þá skipun sem allir geti sætt sig við. Hins vegar finnst mér mjög óeðlilegt, þegar farið er að kanna nánar 19. gr. og 15. gr., að í báðum tilfellum skuli Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasambandið eiga aðild að þessum nefndum. Ég var miklu ánægðari með það fyrirkomulag sem gert var ráð fyrir í fyrsta frv. sem lagt var hér fram þar sem Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið voru eingöngu í kærunefndinni en ekki í Jafnréttisráði. Mér þykir óeðlilegt að gert skuli vera ráð fyrir því að þeir eigi fast sæti í kærunefndinni, mér hefði þótt eðlilegast að Alþýðusambandið og VSÍ ættu ekki aðila eins og gert er ráð fyrir í því frv. sem lagt var fram á 112. löggjafarþingi. Mér þótti það vera besta fyrirkomulagið sem var þá sæst á.
    Ég sakna líka þess að hafa ekki grein í frv. sem var 19. gr. upphaflega. Þar var gert ráð fyrir því að við fjárlagagerð þess árs ætti að taka mið af jafnréttisáætlunum sem félmrh. mundi leggja fyrir Alþingi. Síðan ætti fjmrn. að fá sundurliðaðar tillögur frá ráðuneytum um það hvernig þau ætluðu að framkvæma aðgerðir í jafnréttismálum sem félmrh. hafði þá gert grein fyrir á þinginu. Þessi grein var alveg felld út og þykir mér það líka mjög miður vegna þess að það

hlýtur að þurfa eitthvert fjármagn til að framkvæma aðgerðir. Það er ekki nóg að setja fögur orð á blað og síðan er ekki hægt að framkvæma þau.
    Mér þykir það fremur haldlítið sem kemur fram í 17. gr. frv. um að það eigi að áætla fjárveitingar til einstakra verkefna í framkvæmdaáætlun um jafnréttismál þó að auðvitað sé það mjög til bóta að hafa það þó inni.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. að svo komnu máli. Ég tel að það megi bæta frv. í meðförum deildarinnar og þetta er bara 1. umr. um málið. Ég vonast til þess að félmn. fari vandlega ofan í þetta mál því mér finnst að búið sé að fella veigamikil og bitastæð atriði út úr frv. Mér finnst kannski réttlætanlegt að samþykkja frv. eins og þetta, en það er allt of margt sem búið er að fella út og tel ég nánast ekki hægt að samþykkja það óbreytt. Þess vegna vonast ég til þess að félmn. fari vandlega ofan í þetta og taki tillit til þessara atriða því að ég held að ef ríkisstjórnin stóð að frv. eins og þau voru lögð fram áður ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að skerpa örlítið nokkur atriði í frv. Þá væri mikið betra og auðveldara að framkvæma ákvæði þess en ég á erfitt með að sjá þegar búið er að fella út þessi atriði sem ég hef nú gert að umtalsefni að það geti verið nægjanlega sterkt til þess að veita eitthvert aðhald í þessum málum sem er mjög nauðsynlegt.