Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Málmfríður Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Þegar frv. þetta kemur hér til umræðu þá er það í þriðja sinn sem það er flutt. Það var lagt fram á síðasta þingi og félmn. Nd. náði þá samkomulagi um að afgreiða málið með nokkrum brtt. sem samþykktar voru í Nd. En tími vannst ekki til þess að taka málið fyrir í Ed. á síðustu dögum fyrir þingslit í vor og frv. var því lagt fram í Ed. núna á haustþingi eins og það kom frá Nd. í fyrra.
    Fulltrúi Kvennalistans í félmn. Nd. féllst á að standa að afgreiðslu málsins þrátt fyrir það að kvennalistakonur hefðu viljað sjá tekið á jafnréttismálunum af meiri myndugleik og festu en kom fram eftir umfjöllun Nd. um frv. Stuðningur Kvennalistans við frv. byggðist ekki síst á því að nokkur mikilvæg atriði náðu fram að ganga sem ekki er að finna í núgildandi lögum. Má sem dæmi nefna ákvæði um jafnréttisþing og sömuleiðis virkara og skýrara hlutverk jafnréttisnefnda. En jafnréttisþing tel ég mjög mikilvægt til þess að umræður um þessi mál og úrbætur í þeim séu stöðugt í gangi.
    Fulltrúi Kvennalistans í Ed. nú gerði brtt. við frv., sem var felld, en studdi frv. að öðru leyti þegar það var afgreitt til Nd. Það hefur löngum sýnt sig og sýnir sig enn að margir hafa mjög óljósar hugmyndir um hvað felst í hugtakinu jafnrétti karla og kvenna. Hversu oft er ekki sagt: Konur hafa jafnan rétt til náms og til launa og karlmenn og yfir hverju eru þær þá að kvarta?
    Umræður almennings um jafnréttismál eru yfirleitt á þessum nótum og er þá ekkert inni í myndinni hver raunveruleg staða kvenna er. Auðvitað er ágætt og nauðsynlegt að til séu lög sem tryggi jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. En lög duga skammt í þessum efnum. Til þess að eftir þeim sé farið þarf ekkert minna en hugarfarsbyltingu. Skilningur manna í þessum efnum nær enn svo ótrúlega skammt og sýnir sig best í viðteknum skoðunum á því t.d. hvernig verðleggja eigi vinnu kvenna, sem síðan veldur því að staða þeirra er mun lakari en karla þrátt fyrir öll lagaboð.
    Sem dæmi um hvar við erum á vegi stödd í þessum efnum er frétt í Morgunblaðinu í dag sem ég vil lesa hér, með leyfi hæstv. forseta. Fréttin hljóðar svona:
    ,,Jafnréttisnefnd Akureyrar samþykkti á fundi fyrir helgi að hafna umsókn sem fyrir lá um stöðu jafnréttis - og fræðslufulltrúa Akureyrarbæjar. Þegar staðan var auglýst seint á síðasta ári bárust þrjár umsóknir, ein var dregin til baka, einn umsækjenda fór fram á endurskoðun launakjara sem bæjarráð hafnaði og nú hefur þriðju umsókninni verið hafnað af jafnréttisnefnd.
    Tæp tvö ár eru frá því að bæjarstjórn Akureyrar samþykkti jafnréttisáætlun, en þar er m.a. gert ráð fyrir að ráðinn verði jafnréttisfulltrúi sem hafi með höndum að annast framkvæmd áætlunarinnar. Starfið hefur verið auglýst þrisvar, en enginn hefur verið ráðinn til þess að gegna því.

    Starf jafnréttis - og fræðslufulltrúa var síðast auglýst í nóvember á síðasta ári og bárust þá þrjár umsóknir. Ein var dregin til baka, annar umsækjenda óskaði eftir því að launakjör fulltrúans yrði endurskoðuð í samræmi við þau kjör sem starfsmanni atvinnumálanefndar væru boðin, þar sem um væri að ræða sambærileg störf fyrir nefndir á vegum bæjarins. Bæjarráð hafnaði þeirri beiðni. Á fundi nefndarinnar á föstudag var samþykkt að hafna þriðju umsókninni sem fyrir lá, þar sem nefndin taldi umsækjanda ekki uppfylla þau skilyrði sem hún setti til starfsins. Þá beindi nefndin þeim tilmælum til bæjarráðs að launakjör jafnréttis - og fræðslufulltrúa Akureyrar verði endurskoðuð hið fyrsta. Bæjarráð kemur saman á fimmtudag og tekur þá væntanlega erindi nefndarinnar fyrir.``
    Til skýringar þessari frétt vil ég geta þess að viðmiðun launa jafnréttisfulltrúa var fóstru - og félagsráðgjafalaun sem hvort tveggja eru dæmigerð kvennastörf. Laun atvinnufulltrúans miðuðust aftur á móti við laun tæknifræðings. Munurinn á þessum launum er um 50%. Þó eru þessar stéttir með svipaðan námstíma að baki. Bæði atvinnufulltrúanum og jafnréttisfulltrúanum var ætlaðað að vera eini starfsmaður þeirrar nefndar sem þau unnu fyrir. Bæði höfðu svipaða menntun. Báðum var ætlað átaksverkefni, þ.e. að breyta núverandi ástandi í jafnréttismálum og í atvinnumálum. Ef bæjaryfirvöld hefðu viljað fylgja eftir átaki í jafnréttismálum hefðu þau sýnt það í verki með því að brjóta upp þennan launamun. Og ef vilji væri fyrir hendi væri auðvitað fyrir löngu búið að ráða í stöðu jafnréttisfulltrúa. Þarna vantar greinilega hugarfarið sem þarf til að raunverulegar breytingar gerist.
    Þegar þetta frv. hér um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna var fyrst lagt fram var í því ákvæði um að félmrh. væri skylt að ráða jafnréttisráðgjafa. Nú hefur þessu verið breytt. Félmrh. er heimilt, og aðeins heimilt, að ráða þennan starfsmann. En þessi starfsmaður skal vinna í samvinnu við Jafnréttisráð að leiðréttingu á stöðu kvenna, m.a. í stofnunum og fyrirtækjum um land allt í samvinnu við starfsmenn og stjórnendur. Hér hefur verið hopað og það er í raun og veru endurspeglun á því vægi sem þessi mál hafa í þjóðfélagsumræðunni. Ekkert fé er heldur til þessarar stöðu á fjárlögum þessa árs svo að greinilega er ekki gert ráð fyrir henni að sinni.
    Auðvitað er gott og nauðsynlegt að þessi lög nái samþykki. En það dugar skammt meðan engin hugarfarsbreyting verður. Dæmið sem ég gat um áðan sýnir það svo glöggt. Á vegum Akureyrarbæjar hefur verið samþykkt jafnréttisáætlun. Samt treysta bæjaryfirvöld sér ekki til að meta störf þess sem á að framkvæma þá áætlun til launa á hliðstæðan hátt og í dæmigerðu karlastarfi. Auðvitað þarf ekki að minna á það að jafnréttisfulltrúa af karlkyni hefðu aldrei verið boðin þau laun fyrir þetta starf sem konu voru ætluð, en karlmenn höfðu bara ekki áhuga fyrir þessu starfi, svo undarlegt sem það nú er. Í ljósi þessa dæmis hef ég efasemdir um að ríkisyfirvöld muni standa sig betur í jafnréttismálum en Akureyrarbær,

hvað sem lagasetningu líður. Það er enn svo ótrúlega langt í land að almennur skilningur sé á því hversu langt er frá því að konur búi við jafna stöðu í launamálum. Ég tala nú ekki um skilningsleysið á öðrum sviðum. Láglaunastefna í garð kvenna og mat á störfum þeirra hindrar þær nefnilega svo víða í því að ná þangað sem þær vilja og ætla sér. Og meðan sú stefna er ofan á breytist fátt þeim í hag.
    Hæstv. félmrh. hefur barist í þessum málum um langt skeið og sýnt þar mikla þrautseigju, þökk sé henni. En hér þarf ekkert minna en hugarfarsbyltingu ef staða kvenna á að komast í viðunandi horf. Hvert skref á leið til þeirrar byltingar er mikilsvert og ég tel þetta frv. vera slíkt skref.