Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð vegna þess að ég á sæti í þeirri nefnd sem fjallaði um þetta frv. á sl. vetri og mun fá það til umfjöllunar nú á þessum vetri.
    Svo sem fram kom í máli hv. ræðumanna hér á undan, 6. þm. Reykn. og 7. þm. Norðurl. e., hafa orðið á þessu frv. í meðförum þingsins breytingar sem flestar eru ekki af hinu góða. Máttur hefur verið dreginn úr frv. og mátti þó ekki við því.
    Ástæðan fyrir því að við kvennalistakonur teljum þó að við verðum að greiða götu þessa frv., þótt lítið sé eftir bitastætt, er sú að náist ekki stór skref verðum við að sætta okkur við hin smærri skref. Jafnframt hefur okkur þó tekist að koma inn í þetta frv. einu mikilsverðu ákvæði sem hv. ræðumaður hér á undan gat um, en það er um jafnréttisþing. Ástæðan fyrir því að ég tel að þessi jafnréttisþing vegi þungt er sú að umræða um jafnréttismál og einkum þó og sér í lagi um stöðu kvenna hér á landi hefur verið allt of lítil og allt of veikburða að undanförnu. Ég tel að ef jafnréttisþing nær þeim tilgangi sem því er ætlað muni e.t.v. verða bót á þessu. Ég legg áherslu á það sem stendur í frv. því sem lagt var fram í haust eftir að það hafði fengið meðferð Nd. á sl. vori. Í athugasemdum við frv. stendur m.a., með leyfi forseta:
    ,,Félmn. Nd. samþykkti breytingu á 16. gr. um verkefni Jafnréttisráðs. Samkvæmt breytingunni skal ráðið halda jafnréttisþing á a.m.k. þriggja ára fresti. Nefndin gerir ráð fyrir að ráðherra setji nánari ákvæði í reglugerð um skipulag og hlutverk þingsins. Félmn. tekur þó fram í áliti sínu að eðlilegt sé að verkefni slíks þings sé ráðgjafar- og umsagnarstörf á sviði jafnréttismála fyrir Jafnréttisráð, ekki síst vegna aðildar ráðsins að mótun jafnréttisáætlunar. Um leið gæti þingið orðið vettvangur almennra umræðna um jafnréttismál og uppspretta og farvegur nýrra hugmynda um þau mál. Nefndin telur jafnframt eðlilegt að aðild að þinginu eigi, auk Jafnréttisráðs, fulltrúar jafnréttisnefnda, stjórnmálaflokka og fulltrúar félagasamtaka er láta sig jafnréttismál varða.``
    Það er einkum hið síðasta hér sem ég legg mikla áherslu á að verði að veruleika, þ.e. að þingið verði vettvangur almennra umræðna um jafnréttismál og ekki síður að það verði uppspretta og farvegur nýrra hugmynda um þau mál. Því miður hefur umræða um jafnréttismál og um stöðu kvenna ekki verið í þeim ferska farvegi sem æskilegt væri, a.m.k. ekki á opinberum vettvangi, þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir einstakra hópa, vil ég þá t.d. nefna Kvennalistann, til að koma þessum málum í nýjan farveg og koma nýjum og ferskum hugmyndum á framfæri. Ég geri því ráð fyrir að enn um sinn munum við kvennalistakonur reyna að styðja við bakið á þessu veikburða frv. Við munum að sjálfsögðu reyna að koma fram með þær tillögur til úrbóta sem hægt er. En ég harma það að í sérhverri umræðu um málið skuli eitthvað fara aflaga. Ég vona að ekki verði meira um slíkt í meðförum þingsins og þau örstuttu skref, sem þetta frv. þó miðar málum áfram, verði alla vega stigin og helst

stærri skref í rétta átt.