Meðferð opinberra mála
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls um þetta mikilsverða mál og fyrst vil ég geta þess sem fram kom í máli hv. 10. þm. Reykn. Ég mun beita mér fyrir því að sú athugasemd sem sá hv. þm. kom með verði sérstaklega athuguð og það mál sérstaklega athugað í meðferð málsins í hv. allshn. Nd., fara þess á leit við nefndina, enda er það mál þegar til umfjöllunar hjá nefndinni eins og flutningsmaður raunar gat.
    Að öðru leyti skal ég taka undir það sem hér kom fram í máli hv. 2. þm. Vesturl. Auðvitað er hér um ákaflega viðamikið mál að ræða, flókið grundvallarmál sem þó er einn liður í þeirri umbreytingu sem hér er að verða. Ég vil aðeins minna á það sem kom fram í framsöguræðu minni að málið var lagt fram raunar til kynningar á síðasta þingi og það er alveg rétt sem fram kom hjá hv. 2. þm. Vesturl. að þetta óhagræði sem hér kemur fram er dæmigert um óhagræðið um deildaskiptinguna.
    Nú væri æskilegt vegna undirbúnings sem þetta mál þarf í framkvæmd að ná afgreiðslu þess á þessu þingi. Það væri mjög æskilegt og ég legg á það þunga áherslu. Ef það hins vegar ekki tekst, þá má segja að enn væri þó tími á næsta þingi því að gildistökuákvæði frv. er ekki fyrr en 1. júlí 1992, eins og ég sagði fyrr, en það yrði óneitanlega býsna skammur tími til þess að koma málinu til framkvæmda þannig að ég treysti á þá vösku sveit sem fyllir allshn. Nd. seinustu daga þessa þings.