Listamannalaun
Miðvikudaginn 27. febrúar 1991


     Frsm. meiri hl. menntmn. (Ragnar Arnalds) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við frv. í framhaldi af athugasemd sem fram kom við 2. umr. Þá var á það bent að í frv. væri gert ráð fyrir því að lögin tækju gildi 1. jan. 1991. Þetta mál var rætt á fundi menntmn. neðri deildar í morgun og ég flyt fyrir hönd nefndarmanna svohljóðandi brtt. við 14. gr.: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu endurskoðuð eftir fimm ár frá gildistöku þeirra.``
    Ég held að það sé nokkuð ljóst að þessi lög koma ekki til framkvæmda í reynd nema að takmörkuðu leyti á þessu ári. Til þess að starfslaun verði aukin þarf að veita til þess fé á næstu fjárlögum en hins vegar þarf að undirbúa málið í heild og virðist eðlilegast að lögin öðlist þegar gildi. Síðan er hér gert ráð fyrir því að þau séu endurskoðuð eftir fimm ár frá gildistöku þeirra.
    Ég vil svo víkja nokkrum orðum að brtt. sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir og Sólveig Pétursdóttir flytja á þskj. 740. Fyrsta brtt. þeirra er við 4. gr. og er um það að inn í setninguna um að menn skuli ekki gegna öðru föstu starfi á meðan þeir njóta starfslauna skuli skjóta orðunum ,,að öðru jöfnu``. Ég vil taka það fram að orðalagið á þessari grein er í fullu samræmi við þær starfsreglur sem gilt hafa um starfslaun á undanförnum árum. Það hefur verið sett það skilyrði að menn gegndu ekki öðru föstu starfi. Ég skil flm. þannig að þeir séu ekki að leggja til að þeirri meginreglu sé í sjálfu sér haggað. En flm. vilja samt að orðalagið sé ekki alveg eins stíft og gert er ráð fyrir í frv. Vil ég taka það fram að ég hef í sjálfu sér ekkert við það að athuga að losað sé lítils háttar um orðalagið á þessari grein ef mönnum sýnist það hyggilegra að slíkt gæti átt við í einhverjum hreinum undantekningartilvikum. Það má vel vera að það geti staðið þannig á. En hitt hlýtur að verða að vera meginreglan, að menn gegni ekki öðru föstu starfi á meðan þeir njóta starfslauna. Ég legg það í vald deildarinnar hvort hún telur ástæðu til að hnika orðalaginu í þessa átt. Ég tel það ekkert stórmál í sjálfu sér.
    Um aðra brtt. hv. þm. er það að segja að þeir gera ráð fyrir því annars vegar að auka umráðafé Listasjóðs á næstu árum töluvert umfram það sem nefndin hafði gert ráð fyrir með þeim rökstuðningi að þessi sjóður sé nokkuð þröngur og þar þurfi að vera meira fé til útdeilingar á starfslaunum.
    Það er vissulega nokkuð til í því að þessi sjóður mætti vera öflugri og sterkari. En ég bendi á það að við 2. umr. voru samþykktar till. meiri hl. nefndarinnar sem einmitt gerðu ráð fyrir að sjóðurinn yrði efldur. Það var bætt við um 60 mánaðarlaunum við 2. umr. málsins, auk þess sem frá sjóðnum voru teknar skyldur sem hvíldu á honum samkvæmt frv., þ.e. að veita ferðastyrki til allra listgreina. Því tel ég að möguleikar sjóðsins til að gegna skyldum sínum hafi batnað verulega. Ég vil hins vegar ekki láta því ómótmælt að samkvæmt frv., eins og það er nú, séu einleikarar eða túlkendur tónlistar settir út á kaldan klaka. Það er hinn mesti misskilningur. Listasjóður verður

fyrst og fremst notaður í þágu leikhúslistafólks annars vegar og hins vegar tónlistarmanna. Ekki tónskálda, því þeir hafa sinn sérstaka sjóð, ekki rithöfunda nema þá í undantekningartilvikum, vegna þess að þeir hafa sinn sérstaka sjóð, og ekki myndlistarmanna nema í undantekningartilvikum, vegna þess að þeir hafa sinn sérstaka sjóð. En leikhúslistafólk er ekki með sérsjóð eins og gengið var frá frv. við 2. umr. og túlkendur tónlistar, einleikarar, eða dansarar sem ekki eru fastráðnir við leikhús, og reyndar hvort sem þeir eru fastráðnir við leikhús eða ekki, hafa ekki sinn sérstaka sjóð og munu að sjálfsögðu hafa forgang í þessum sjóði, Listasjóði.
    Það er hins vegar svo að þessi sjóður hefur það sérstaka verkefni að veita framlög til listamanna sem notið hafa listamannalauna undanfarin ár og hafa náð 60 ára aldri. Ég vil upplýsa það hér að reikna má með því að þetta kosti sjóðinn svona á að giska 60 mánaðarlaun, eftir því sem ég kemst næst. Þegar sú upphæð hefur verið dregin frá eru 180 mánaðarlaun eftir. Samkvæmt frv., eins og það lítur nú út eftir 2. umr., fer helmingurinn af því til leikhúslistafólks eða 90 mánaðarlaun. Þá eru 90 mánaðarlaun eftir og það má gera ráð fyrir því að túlkendur tónlistar, flytjendur tónlistar og dansarar sem ekki eru fastráðnir við leikhús muni eiga sérstakan aðgang að þessu fé og hafa þar nokkurn forgang. Ég held að það liggi alveg í hlutarins eðli. Ég held að það þurfi ekki að taka það neitt sérstaklega fram að Listasjóður veiti fé til túlkandi listamanna, það segir sig sjálft að er einmitt eitt af helstu hlutverkum sjóðsins. Og ég vek á því athygli að ef till. hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur og Sólveigar Pétursdóttur verða samþykktar, sérstaklega þessi till. nr. 2, þá hefur leikhúslistafólk ekki lengur aðgang að helmingi þeirra starfslauna sem koma úr Listasjóði. Að því leyti gengur brtt. alveg í öfuga átt við þá till. sem kvennalistakonur hafa stutt hér í þinginu en náði ekki fram að ganga við 2. umr. Till. meiri hl. menntmn. voru einmitt ákveðin viðleitni til málamiðlunar hvað það atriði varðar með því að ekki var gert ráð fyrir að sjóður yrði stofnaður sem kenndur yrði við leikhúsfólk en hins vegar gert ráð fyrir því að helmingur starfslauna úr Listasjóði gengi til þeirra nota.
    Ég vil svo segja það að lokum um 12. gr. frv., sem fjallar um samráð við setningu reglugerðar, að það er að sjálfsögðu engin tilviljun að þar eru nefnd þrenn samtök, þ.e. Rifhöfundasamband Íslands, Samband ísl. myndlistarmanna og Tónskáldafélag Íslands. Það er vegna þess að gert er ráð fyrir því í öðrum greinum frv. að einmitt þessi samtök tilnefni menn í úthlutunarnefndir og þess vegna eru þau sérstaklega nefnd.
    Það má hins vegar vel vera að æskilegt væri að hafa víðtækara samráð um setningu reglugerðar. Ég ætla þess vegna að leyfa mér að flytja hér skriflega úr ræðustól brtt. við 12. gr. sem kemur nokkuð til móts við þau sjónarmið sem fram komu í brtt. hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur og Sólveigar Pétursdóttur, einfaldlega á þá leið að á eftir orðunum Rithöfundasamband Íslands, Samband ísl. myndlistarmanna og Tónskáldafélag Íslands í 12. gr. komi: Bandalag ísl. listamanna. Að það verði sem sagt haft samband við þessi þrenn samtök sem sérstaklega eru nefnd fyrr í frv. og eiga að tilnefna í úthlutunarnefndir til úthlutunar á fé úr sérgreindum sjóðum en síðan verði þá einnig nefnt sem samráðsaðili Bandalag ísl. listamanna sem eru heildarsamtök íslenskra listamanna. Ég tel að þetta væri alls ekki óeðlileg niðurstaða og má kannski segja að þannig hefði frv. átt að vera frá öndverðu.
    Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja fram þessa brtt.