Listamannalaun
Miðvikudaginn 27. febrúar 1991


     Ragnhildur Helgadóttir :
    Herra forseti. Ég átti þess ekki kost að sitja fund nefndarinnar nú í morgun þannig að ég hafði haldið að breytingin á gildistökuákvæðinu væri einfaldlega þannig að breytt hefði verið um ártal. Það er ljóst af frumskjali frv. að ætlun semjenda þess var að frv. tæki gildi um áramót, þ.e. menn hafa álitið að það yrði samþykkt á síðasta ári og tæki svo gildi 1. jan. þessa árs, en formaður nefndarinnar, hv. 4. þm. Norðurl. v., flutti hér brtt. sem er á þskj. 739 um það að lögin öðlist þegar gildi. Þetta finnst mér ekki vera í samræmi við hugmyndina í upphaflega frv. Auk þess er hér um viðamikla breytingu að ræða sem varðar líka fjárlagaafgreiðslu og fleira. Þess vegna tel ég að það liggi í augum uppi að gildistökuákvæðið eigi að miðast við áramót eins og upphaflega var hugmyndin en að sjálfsögðu við næstu áramót eftir að frv. er samþykkt. Um þetta leyfi ég mér að afhenda hæstv. forseta skriflega brtt. frá okkur hv. 17. þm. Reykv. Sólveigu Pétursdóttur, um að gildistökuákvæðið orðist svo: ,,Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1992 og skulu endurskoðuð eftir fimm ár frá gildistöku þeirra.``
    Í öðru lagi langaði mig til að nefna sérstaklega eitt atriði í máli hv. 4. þm. Norðurl. v. en það varðaði einmitt margnefndan Listasjóð. Ég set spurningarmerki við áætlun hans og útreikninga um hve stór hluti af fé þess sjóðs komi til úthlutunar til hverrar listgreinar sem hann nefndi. Í fyrsta lagi stendur í frv. sjálfu í 2. gr. þess að Listasjóður sé almennur sjóður í þágu allra listgreina. Þar segir ekkert um forgang. Nú er það auðvitað svo að það er víðtæk reglugerðarheimild í þessu frv. og framkvæmd úthlutunar sjóðsins fer vafalaust töluvert eftir ákvæðum í reglugerð. Engu að síður verður hún að styðjast við hluti sem berum orðum eru tilteknir í lögunum. Ég tel fyrir mitt leyti það ókost að ákveða tiltekinn hluta sjóðsins sem í öllum tilvikum komi til úthlutunar til tiltekins hóps listamanna. Það getur verið mismunandi frá einu tímabili til annars á hvaða sviði flestir framúrskarandi listamenn eru og ætti að sinna af Listasjóði. Þess vegna tel ég það skynsamlegra að binda hlutina ekki eins fast og gert er í 9. gr. frv. eins og það horfir nú en fremur að halda sér við það orðalag sem við leggjum til. Auk þess set ég spurningarmerki við þá áætlun hv. 4. þm. Norðurl. v. að það séu um 60 mánaðarlaun sem þurfi að koma til úthlutunar vegna þeirra sem 60 ára eru og eldri. Það þarf nokkuð nákvæma útreikninga til þess að finna út hvernig þeim málum verði háttað á næstu árum. Gæti ekki síður verið nærri sanni að segja 80 mánaðarlaun eða 90 mánaðarlaun. En í öllu falli er hlutverk þessa sjóðs svo víðtækt að ég tel afar óskynsamlegt að hafa ekki möguleika til þess að láta hann vaxa örar en hina sjóðina.
    Loks að því er varðar 12. gr. Hv. 4. þm. Norðurl. v. taldi sig koma til móts við hugmynd okkar hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur með því að bæta í upptalninguna Bandalagi ísl. listamanna. Vissulega er það til bóta frá því sem er hér í frv. en ég tel hins vegar að það sé breyting annars eðlis en það sem við erum að

leggja til. Við erum að leggja það til að ekki séu allar ákvarðanir í sambandi við þessa sjóði nauðsynlega bundnar með lögum við tiltekin félagasamtök. Það getur alveg eins verið að það komi upp á næsta ári eða hinu árinu fleiri virðingarverð félagasamtök innan þessara listgreina. Þess vegna finnst mér óskynsamlegt að binda þetta í báðum greinum frv., þar sem slíkt kemur til greina, algerlega við þau félagasamtök sem stærst eru nú. Mér finnst að það minnsta sem við gætum gert í lýðræðisátt í þessu sé að hafa orðalagið opnara í 12. gr. Það er þó ekki nema um samráð menntmrh. við hugsanlega hópa listamanna áður en hann setur reglugerð. Ég sé ekki hvað er á móti því að ráðherra hafi slíka heimild. Ef tekið er fram að ráðherra skuli hafa samráð við tiltekin félög sem eru til í landinu þýðir það næstum því að hann megi nánast ekki ráðfæra sig við aðra. Ég tel að það sé miklu skynsamlegra að hafa þetta ákvæði opið því ráðherra hefur frjálsar hendur fyrir því.