Listamannalaun
Miðvikudaginn 27. febrúar 1991


     Frsm. meiri hl. menntmn. (Ragnar Arnalds) :
    Herra forseti. Fyrst eitt orð um gildistökuákvæðið. Ég held að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir hafi svolítið misskilið hvernig gildistökuákvæðið var hugsað. Það var gert ráð fyrir því að lögin tækju gildi 1. jan. 1991 og yrðu höfð til hliðsjónar við gerð fjárlaga fyrir næsta ár og kæmu svo til framkvæmda í reynd á árinu 1992. Nú er 1. jan. 1991 liðinn þannig að það var ekki stætt á því að miða við þann dag lengur. Ég hugleiddi þetta aðeins og taldi að það væri ekki gott að samþykkja till. hv. þm. þannig að lögin tækju ekki gildi fyrr en eftir heilt ár vegna þess að þá er hætt við að ekki sé tekið tillit til þeirra við gerð næstu fjárlaga. (Gripið fram í.) Lögin kveða á um skyldur ríkisvaldsins í þessum efnum og það er ekki tekið tillit til þeirrar lagaskyldu fyrr en lögin hafa gengið í gildi. Ég er ansi hræddur um að samþykkt till. hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur mundi hreinlega leiða til þess að það frestaðist um heilt ár að sú aukning sem þar er gert ráð fyrir kæmi til framkvæmda og yfirleitt að úthlutað yrði samkvæmt lögunum. Ég mælist nú eindregið til þess að menn líti á þetta mál raunsæjum augum og fallist á að lögin taki gildi strax, sem þýðir í reynd að þau taka gildi eftir nokkurn tíma, þegar búið er að birta þau o.s.frv. Þá sé hægt að hafa þau til hliðsjónar við gerð fjárlaga á komandi hausti og svo komi þau þá til framkvæmda í reynd 1. jan. 1992, en öðlist gildi strax í vor.
    Um athugasemd hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur vegna þeirra orða minna að ég teldi það út af fyrir sig skaðlaust að gera þá breytingu sem Ragnhildur Helgadóttir hefur gert tillögu um í fyrsta lið, að öðru jöfnu skulu menn ekki gegna öðru föstu starfi meðan þeir njóta starfslauna, þá vil ég taka það fram að ég skil það orðalag þannig að það eigi að fylgja því sem meginreglu, það sé enginn að leggja það til að brugðið sé út frá því sem meginreglu, en það sé hins vegar möguleiki að gera undantekningar í sérstökum tilvikum, ef sérstök ástaða þykir til. Starfslaunin eru ekki mjög há, þau eru ekki nema kannski 70 -- 80 þús. kr. á núverandi verðlagi. Við vitum að margur maðurinn þarf meira til að framfleyta sér og sínum og það getur staðið þannig á að menn eigi erfitt með að losa sig úr fastlaunaðri vinnu í sex mánuði og yrðu þá að afsala sér starfslaunum ef þeim tækist ekki að losa sig alla sex mánuðina, svo ég nefni bara sem dæmi undantekningartilvik sem gæti komið upp. Þar af leiðandi finnst mér það ekkert óskynsamlegt að þetta sé ekki svo rígbundið að úthlutunarnefnd gæti ekki gert þar sérstaka undantekningu ef ástæða þætti til. Þess vegna styð ég tillögu þeirra Ragnhildar Helgadóttur og Sólveigar Pétursdóttur og tel engan skaða af því að orðalagið sé ekki svo rígbundið eins og er í frv., eins og það liggur núna fyrir.
    Ég vil svo að lokum segja það tillögu minni til stuðnings að það er engin tilviljun að ég legg þarna til að Bandalag ísl. listamanna sé nefnt sem fjórðu samtökin. Við erum að tala um fjóra sjóði. Við erum að tala um Launasjóð rithöfunda og í því samhengi er

Rithöfundasambandið eðlilegur samráðsaðili, við erum að tala um Launasjóð myndlistarmanna og í því sambandi eru Samtök myndlistarmanna sjálfsagður samráðsaðili, við erum að tala um Tónskáldasjóð og í því sambandi er Tónskáldafélagið eðlilegur samráðsaðili. En við erum líka að tala um Listasjóð, sjóð sem er fyrir alla listamenn, en fyrst og fremst fyrir aðra listamenn en þá sem nú hafa verið nefndir. Þá finnst mér auðvitað fullkomlega eðlilegt að Bandalag ísl. listamanna komi fram fyrir þeirra hönd í sambandi við gjörð reglugerðar og samráð um hana.