Fæðingarorlof
Miðvikudaginn 27. febrúar 1991


     Flm. (Kristín Einarsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um fæðingarorlof, nr. 57 31. mars 1987. Flm. þessa frv. eru þingkonur Kvennalistans í Nd. ásamt mér, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Málmfríður Sigurðardóttir og Sigrún Helgadóttir.
    1. gr. frv. hljóðar svo:
    ,,Fyrri mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Óheimilt er að segja barnshafandi konu upp starfi eða flytja hana til í því nema gildar ástæður séu fyrir hendi. Einnig er óheimilt að segja foreldri í fæðingarorlofi upp starfi eða flytja það til í því að orlofinu loknu nema gildar ástæður séu fyrir hendi.
    2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Lenging fæðingarorlofs úr þremur mánuðum í sex var mikilvægt skref í þá átt að koma til móts við breyttar þjóðfélagsaðstæður hér á landi og tryggja velferð barna og foreldra þeirra á tímabilinu eftir fæðingu barns.
    Nauðsynlegt er að skipan fæðingarorlofsmála sé þannig að tekið sé mið af móður- og fjölskylduhlutverki kvenna sem og þátttöku þeirra í atvinnulífi. Samkvæmt lögum um fæðingarorlof er ekki heimilt að segja barnshafandi konu eða foreldrum í fæðingarorlofi upp starfi nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Í 6. gr. laganna er kveðið á um að skylt sé, þar sem því verður við komið, að færa barnshafandi konu til í starfi ef það er þess eðlis að heilsu hennar eða fósturs er af því hætta búin. Hins vegar er ekki skýrt kveðið á um það í lögunum að foreldrar geti gengið að sínum störfum að fæðingarorlofi loknu.
    Í 7. gr. núgildandi laga segir, með leyfi forseta: ,,Óheimilt er að segja barnshafandi konu upp starfi nema gildar ástæður séu fyrir hendi. Sama gildir um foreldri í fæðingarorlofi. Brjóti atvinnurekandi gegn ákvæði fyrri mgr. skal hann greiða bætur. Við ákvörðun bóta skal m.a. taka mið af ráðningartíma starfsmanns hjá viðkomandi atvinnurekanda.``
    Þetta frv. fjallar um að breyta fyrri mgr. þessarar greinar.
    Ég er þess fullviss að þegar þessi lög voru samþykkt var það ætlun löggjafans að foreldrar gætu gengið að sínum fyrri störfum þegar þeir væru búnir í fæðingarorlofi. En því miður hefur það komið fyrir að konum hefur verið ætlað að taka að sér önnur störf en þær voru ráðnar til upphaflega og þess eru dæmi að konur hafa hafnað slíkum tilflutningi og í kjölfar þess verið sagt upp eða þær hafa kosið að segja upp fremur en að þurfa að sætta sig við að vera fluttar til í starfi.
    Í kvennablaðinu Veru, nóvemberheftinu frá 1990, er sagt frá reynslu tveggja kvenna sem ekki fengu að hverfa að sínum fyrri störfum eftir að þær komu úr barneignarfríi. Á bls. 20 í því blaði er rætt um þann atburð sem þær lentu í þegar þær komu úr barneignarleyfi, en þeim var báðum sagt upp störfum. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Konurnar sem hér um ræðir heita Herta Þorsteinsdóttir og Anna Sigríður Haraldsdóttir. Sögur

þeirra eru keimlíkar. Þær eru með svipaða menntun, önnur með verslunarskólapróf en hin stúdentspróf úr Verslunarskólanum. Þær gegndu báðar störfum innkaupamanna, eru báðar 31 árs gamlar, voru báðar að eignast sitt fyrsta barn og uppsagnir þeirra bar að með sama hætti.`` Síðan spyr blaðamaðurinn hvernig uppsögn þeirra hafi borið að og Anna Sigríður lýsir því hvernig þetta hafi gerst en hún fór í barneignarfrí 15. des. 1989. Síðan segir blaðamaðurinn:
    ,,Í byrjun maí hafði hún samband við yfirmann sinn, Þorbjörn Stefánsson, til að athuga hvort það stæðist ekki sem um hefði verið rætt varðandi starf hennar þegar hún kæmi úr barneignarfríi, en það hafði verið gert ráð fyrir því að hún ætti jafnvel kost á því að fara í hlutastarf og verða aðstoðarmanneskja innkaupamanna þannig að henni yrði gert auðveldara fyrir eftir að hún kæmi úr barneignarfríi. Hún fékk þau svör að þetta væri ekkert mál, allt átti að verða eins og um var rætt. En hálfum mánuði síðar, eða þann 28. maí, kallaði þessi sami yfirmaður hana á sinn fund.`` Síðan segir Anna Sigríður orðrétt, með leyfi forseta: ,,Á þessum fundi tilkynnti hann mér að því miður væri ekkert fyrir mig að gera í fyrirtækinu. Það væri búið að þrengja þann fjárhagsramma sem hann hefði og hann gæti ekki ráðið mig í þá aðstoðarmannsstöðu sem um var rætt.``
    Síðan lýsir hún því hvernig málin gengu fyrir sig og það endaði á því, eins og hún segir hér: ,,En þá kom auðvitað í ljós að það stóð ekkert til boða. Þegar þetta var orðið ljóst féllst ég á að segja sjálf upp störfum, sem ég hefði auðvitað aldrei átt að gera, en sagði honum jafnframt að ég kæmi og ynni uppsagnarfrestinn í minni stöðu sem innkaupamaður. Það var þá ekki meiningin heldur átti ég að koma og vinna á skrifstofu þessa þrjá mánuði. Þegar ég hafnaði því var mér boðið til samkomulags að ég þyrfti ekki að mæta oftar og Hagkaup mundi greiða mér laun í tvo mánuði. Ég sagði auðvitað að það kæmi ekki til greina heldur ætlaðist ég til að þeir borguðu mér þriggja mánaða uppsagnarfrest eins og kjarasamningar gera ráð fyrir.``
    Þarna lendir þessi kona í því að henni er ekki ætlað að hverfa aftur að sínu fyrra starfi þegar hún kemur úr barneignarfríi. Í raun er hún neydd til að segja upp störfum.
    Hin konan heitir Herta, og nú les ég upp úr Veru aftur: ,,Herta byrjaði í barneignarfríi um áramótin síðustu og eignaðist barn þann 6. jan. Áður en hún fór í frí þjálfaði hún karlmann í sitt starf í þeirri góðu trú að hann ætti að leysa hana af fram til 1. ágúst en þá mundi hún ganga inn í starfið aftur. En það var ekki svo gott.``
    Herta lýsir því hvernig henni var sagt upp störfum og voru fundnar hinar ýmsu ástæður fyrir því, hún hefði ekki staðið sig nógu vel í vinnu o.s.frv., en alls ekki hafði borið á neinum kvörtunum áður en hún fór í barneignarfrí og þess vegna var í raun verið að segja henni upp störfum á röngum forsendum. Það átti að reyna að færa hana til en hún hafnaði því og síðan vildi hún ekki hlíta því að fá ekki að hverfa að sínu

fyrra starfi.
    Þarna eru aðeins tvö dæmi sem kvennablaðið Vera segir frá en því miður eru þetta ekki einu dæmin sem vitað er til að konur hafa lent í að þær hafa ekki getað fengið að hverfa að sínum fyrri störfum eftir að þær hafi lokið barneignarfríi.
    Því miður er það orðið líka nokkuð algengt að þegar konur ráða sig til starfa eru þær spurðar að því hvort þær ætli nokkuð að eignast börn og það hefur komið fyrir að þær hafa verið beðnar að skrifa upp á yfirlýsingu þess efnis að þær mundu ekki gera það, sem er auðvitað hreint og klárt lögbrot og alveg furðulegt að koma þannig fram við konur.
    Þetta frv. er flutt til þess að tryggja með óyggjandi hætti að foreldrar hafi rétt til að hverfa að sínu fyrra starfi að loknu fæðingarorlofi. En eins og ég hér lýsti hefur orðið á því misbrestur. Ég vil ítreka það, virðulegur forseti, að þrátt fyrir að við kvennalistakonur flytjum þetta frv. teljum við að það sé óheimilt að koma svona fram við konur sem koma úr barneignarleyfi en til þess að taka af öll tvímæli þykir okkur rétt að flytja þetta frv. Og ég er eiginlega þess fullviss að löggjafinn hefur ekki ætlast til að svona væri með farið. Auðvitað munu allar meginreglur íslensks vinnuréttar varðandi uppsagnir starfsfólks gilda eftir sem áður þrátt fyrir að þetta frv. verði samþykkt. Ég vona að þingmenn sjái sér því fært að samþykkja þetta litla frv. fyrir þinglok þó stutt sé fram að þeim þar sem þetta er einungis áherðing á því sem ég hef reiknað með að löggjafinn hafi ætlast fyrir með setningu laga um fæðingarorlof á sínum tíma. Þess vegna ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að það verði samþykkt á þessu þingi.
    Ég vil síðan að lokinni þessari umræðu, virðulegur forseti, leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn.