Lyfjalög
Miðvikudaginn 27. febrúar 1991


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lyfjalögum nr. 49/1978, með síðari breytingum.
    Ástæðan fyrir því að þetta mál er hér flutt er sú að náttúruleg vítamín og önnur fæðubótaefni hafa verið flokkuð sem lyf hér á landi. Fyrir bragðið hafa þeir sem með þessi efni versla og neyta að staðaldri talið að verulega hafi dregið úr almennri og eðlilegri notkun og neyslu á þeim efnum. Hér er lagt til í 1. gr. frv. að náttúruleg vítamín og önnur fæðubótaefni sem fyrst og fremst eru ætluð sem uppbót á daglegt fæði teljist ekki lyf og falla því undir lög um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum í staðinn fyrir að falla undir lyfjalöggjöfina.
    Það þarf ekki að hafa mjög mörg orð um þetta. Í samfloti við þetta frv. er flutt annað frv. til laga þar sem lögð er til breyting á lögum um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum þannig að við 2. gr. þeirra laga bætist svohljóðandi mgr.: ,,Náttúruleg vítamín og önnur fæðubótaefni, sem fyrst og fremst eru ætluð sem uppbót á daglegt fæði, teljast ekki lyf og falla undir ákvæði þessara laga.``
    Virðulegi forseti. Ég hef þetta ekki lengra að sinni en vísa málinu til heilbr.- og trn.