Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit
Miðvikudaginn 27. febrúar 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. um breytingu á lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988, með síðari breytingum, á þskj. 680. Það er eins með þetta frv. og frv. sem ég mælti fyrir hér áðan að 1. flm. er Sigrún Helgadóttir og meðflm. eru aðrar þingkonur Kvennalistans í Nd. En Sigrún Helgadóttir er varaþingkona Kvennalistans og situr ekki lengur á þingi. Þess vegna mæli ég fyrir frv. fyrir hennar hönd.
    Þetta er í raun fylgifrv. með frv. um ráðstöfun gegn umhverfismengun af völdum rafhlaðna og rafgeyma þar sem mengunarvörnum Hollustuverndar ríkisins er falin skipulagning á söfnun notaðra rafhlaðna og rafgeyma til endurvinnslu. Þess vegna er talið eðlilegt að gera breytingar á 17. gr. laganna um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, en í 4. mgr. 17. gr. laganna segir, með leyfi forseta:
    ,,Mengunarvarnir hafa yfirumsjón með því að framfylgt sé ákvæðum mengunarvarnareglugerðar eða reglugerða skv. 2. tölul. 3. gr. Mengunarvarnir annast enn fremur
    1. Tillögur að starfsleyfum og úrvinnslu gagna hvað snertir mengunarvarnir.
    2. Skipulagningu og umsjón með framkvæmd mengunarrannsókna í samræmi við lög þessi.``
    Við leggjum til að þarna bætist við:
 ,,3. Skipulagningu á söfnun notaðra rafhlaðna og rafgeyma til endurvinnslu og eyðingar samkvæmt lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum rafhlaðna og rafgeyma.``
    Ég held að ekki þurfi að hafa fleiri orð um þetta frv., virðulegi forseti, en það sama gildir um það og hitt frv. að ég vona að það muni hljóta skjóta afgreiðslu hér í þinginu. Ég vil leggja til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og allshn.