Málefni geðsjúkra
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Varðandi spurningu hv. þm., þá hefur Öryrkjabandalagið, sem fær hluta af þessum lottópeningum, beitt sér mjög í málefnum geðsjúkra, sérstaklega að því er varðar húsnæðismál þeirra. Að því er ég best veit, þá hefur einhver hluti af þessum fjármunum farið til þess að fjármagna íbúðir fyrir geðsjúka einstaklinga. Ég veit ekki hvað það er í miklum mæli en mér er þó kunnugt um að eitthvað af þessum fjármunum rennur til þessara brýnu verkefna og er á döfinni, að ég best veit, hjá Öryrkjabandalaginu að veita enn auknu fjármagni gegnum lottópeningana til þess að koma upp íbúðum fyrir geðsjúka og er það vel.
    En það sem ég var að ræða hér er einkum sambýlið, þar sem geðsjúkir fá þjónustu allan sólarhringinn, og eins félagslegar íbúðir. Það mun ekki gagnast þessum hópi, sem ég talaði um hér áðan, nema til komi veruleg þjónusta allan sólarhringinn á slíkum félagslegum íbúðum. Þær íbúðir sem Öryrkjabandalagið hefur veitt fjármagni í eru fyrir einstaklinga sem ekki þurfa á slíkri aðstoð að halda, eru meira sjálfbjarga. En þessi 40 manna hópur alvarlega geðsjúkra manna, sem ég nefndi hér áðan, þarf á svo sérstakri og mikilli aðstoð að halda gegnum þær leiðir sem ég nefndi að ég hygg að það sé ekki á færi Öryrkjabandalagsins að aðstoða þann hóp nema þá aðstoða við fjármögnun á þessum félagslegu íbúðum. Þá þyrfti auðvitað að koma til fjárveiting gegnum fjárveitingavaldið til að kosta þjónustustöður við slíkar íbúðir.