Kirkjugarðsgjöld og útfararþjónusta
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 14. þm. Reykv. beinir til mín fsp. á þskj. 643 í þremur liðum eins og hann raunar gerði grein fyrir.
    Varðandi 1. lið spurningarinnar: ,,Telur ráðherra heimilt samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1963, um kirkjugarða, að verja hluta kirkjugarðsgjalda til greiðslu kostnaðar við útfararþjónustu?`` er þetta að segja: Í lögum um kirkjugarða, nr. 21/1963, er ekki bein heimild fyrir kirkjugarða til þess að greiða útfararkostnað. Í lögunum er hins vegar gert ráð fyrir að kirkjugarðsstjórnir geti veitt ákveðna útfararþjónustu. Þannig er þeim heimilt að reisa líkhús, sbr. 25. gr. laganna, þeim er heimilt að ráða kirkjugarðsvörð, sem m.a. annist grafartöku, sbr. 18. gr. 2. mgr., og gert er ráð fyrir að kirkjugarðsstjórn geti átt líkvagn til nota við jarðarfarir, sbr. 18. gr. 3. mgr. Með hliðsjón af þessu hefur það ekki verið talið stangast á við lög um kirkjugarða að kirkjugarðsstjórnir verji hluta af tekjum sínum til að veita þjónustu við útfarir.
    Minnt skal á í þessu sambandi að kirkjugarðar eru sjálfseignarstofnanir í umsjón og á ábyrgð safnaða undir yfirstjórn biskups. Sóknarnefndir eða sérnefndir, kosnar af safnaðarfundum, hafa á hendi fjárhald þeirra. Þar sem tekjur kirkjugarða eru teknar af tekjuskatti allra einstaklinga í landinu eldri en 16 ára felur það óneitanlega í sér nokkra mismunun að þeir sem kjósa að notfæra sér útfararþjónustu einkaaðila skuli ekki njóta tekna kirkjugarða að þessu leyti. Þó er rétt að fram komi að Kirkjugarðar Reykjavíkur annast líka í vissum tilvikum hluta af útfararþjónustunni án þess að taka sérstakt gjald fyrir það. Með hliðsjón af því og með tilliti til þess að lög um kirkjugarða eru ekki alls kostar skýr hvað þetta varðar tel ég þörf á því að í lögum verði afdráttarlaust kveðið á um hvort kirkjugarðsstjórnum sé heimilt að verja tekjum sínum til að veita þessa þjónustu ellegar ekki.
    Varðandi 2. lið spurningarinnar sem hljóðaði svo: ,,Ef slík ráðstöfun tekna kirkjugarða telst heimil hyggst ráðherra þá beita sér fyrir því að allir greiðendur útfararkostnaðar eigi jafnan kost á hlutdeild í þessum tekjum?`` Svar mitt er að að óbreyttum lögum tel ég ekki heimilt að greiða af tekjum kirkjugarða fyrir kostnað af útfararþjónustu sem veitt er af öðrum en kirkjugörðunum sjálfum.
    Varðandi þriðja liðinn: ,,Hefur ráðherra hug á að beita sér fyrir því að allir aðilar, sem veita útfararþjónustu, búi að öðru leyti við sambærilega samkeppnisaðstöðu?`` er svar mitt þetta: Kirkjugarðalög þarfnast endurskoðunar og reyndar hefur kirkjulaganefnd samið frv. að nýjum lögum um kirkjugarða. Ljóst er að við þá endurskoðun þarf að huga sérstaklega að reglum um útfararþjónustu, bæði reglum um greiðslu kostnaðar við útfararþjónustu og reglum um að útfararstofnanir þurfi að uppfylla ákveðin skilyrði til reksturs og eftirlit að vera með starfsemi þeirra, t.d. vegna heilbrigðissjónarmiða. En þetta frv. kirkjulaganefndar, sem ég áður nefndi, er nú til umfjöllunar í dóms - og kirkjumrn. og ég mun leggja til að þau efni

sem þessi fyrirspurn sérstaklega fjallar um verði tekin til sérstakrar athugunar við frekari undirbúning þessa frv. um ný kirkjugarðalög.