Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Það er náttúrlega erfitt þegar verið er að slíta í sundur svona umræður og fremur er það óþægilegt að ræða þessi mál án þess að hæstv. félmrh. sér hér viðstödd. ( Forseti: Hæstv. ráðherra er hér í húsinu og hefur eflaust bara brugðið sér frá. Nú skulu gerðar ráðstafanir til þess að sækja hæstv. ráðherra.)
    Þegar menn líta yfir farinn veg og lesa þessa skýrslu, þá finnst manni það ganga grátlega seint að jafna lífsaðstöðuna í þjóðfélaginu og minnka launamuninn, ekki síst á milli kynjanna, en enn fremur á milli ýmissa hópa, milli starfsstétta. Það er því auðvitað gott að fá svona skýrslu til umfjöllunar rétt fyrir kosningar til þess að rifja upp stöðuna. Ég sé ekki betur en að mörgu leyti hafi bilið aukist. Ráðherrann er líklega eitthvað bundinn annars staðar en við umræðu um þessa skýrslu og það verður eiginlega að kvarta yfir því ( Forseti: Forseti vill geta þess að það er verið að sækja hæstv. ráðherra. Hann mun koma á hverri stundu.) hvað ráðherrar eru lítið hér í þingsalnum þó að um þeirra málefni sé verið að ræða yfirleitt.
    Ég hef verið að velta fyrir mér að undanförnu, raunar í allan þann tíma sem þessi ríkisstjórn hefur setið að völdum, að þrátt fyrir ýmis ákvæði í stjórnarsáttmálanum hefur ekki náðst, hvorki á sviði jafnréttis né lífsaðstöðu, neinn verulegur árangur og eins og ég sagði hér áðan hefur t.d. launamunur vaxið. Þetta er árangurinn. Þrátt fyrir loforðin og fyrirheit. Auðvitað verður þetta tekið upp núna fyrir þessar kosningar, sömu loforðin sem hafa verið gefin, og nú á að taka sig á, en þá er auðvitað tíminn allur liðinn sem hægt er að gera eitthvað og loforðalistinn bara settur aftur fram.
    Ég sé ekki betur en að ýmsir skuggar í þjóðfélaginu séu það sterkir að við getum búist við enn þá meira misrétti. Hvernig er á þeim stöðum þar sem atvinnuástandið er verst? Menn hafa ekki möguleika til að lifa á þeim stöðum. Ef menn fara burtu verða þeir að láta eignir sínar fyrir lítinn hluta af því raunverulega verði sem hvílir í þessum eignum. Þetta er jafnréttið á milli þeirra sem vilja búa í landinu. Mér er t.d. tjáð að á sumum stöðum sé ekki hægt að fá nema svona 25 -- 30% fyrir íbúð ef menn flytja burtu. Það er þess vegna ekki einu sinni hægt að fá fyrir skuldunum sem á þeim hvíla í sumum tilvikum. Og svo tala menn um jafnrétti, lofa jafnrétti, hæla sér af því hver árangurinn hefur verið. Ég er dálítið hissa á því að menn skuli hér á hv. Alþingi geta flutt slík mál. En það er alveg áreiðanlegt að það er kominn tími til þess að taka á þessum málum. Það er skömm að því t.d. víða hve mikill launamunur er á milli karla og kvenna. Lágu launin eru það lág að það er ekki nokkur lífsins vegur að lifa af þeim. Það hringdi í mig maður í gær sem segist hafa 62 þús. kr. á mánuði, verður að borga 35 þús. í húsaleigu fyrir utan ljós og hita og hann er með fjögur börn á sinni framfærslu. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra og aðrir sem tala hér um jafnréttismál hrópi húrra fyrir þessum árangri, en ég geri það ekki. Það geri ég ekki. Og í raun og veru ber ég kinnroða fyrir það að hafa stutt þá ríkisstjórn sem hefur ekki staðið sig betur heldur en raun ber vitni. En það var ekki gott viðgerðar. Þegar hún var mynduð var atvinnulífið úti á landi í rúst. Það er líka mín eina afsökun. Þannig var nú viðskilnaðurinn hjá ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar eins og öllum ætti að vera í fersku minni.
    Það þýðir ekkert að koma með fallegar ræður, segjast ætla að vinna að þessu og hinu, minnka launamuninn en vera svo ekki tilbúinn t.d. að ákveða lágmarkslaun. Sumir vaða í peningum, sumir hafa fleiri hundruð þúsund kr. á mánuði. Þeir vita ekki hvernig þeir eiga að láta. Aðrir hafa bara ekki að éta. Það er velferðarþjóðfélagið sem við erum að tala um.
    Ég ætla ekki að taka langan tíma í þessa umræðu en ég vildi að hæstv. félmrh. heyrði mín viðhorf, þegar verið er að hækka vexti á íbúðarlánum á sama tíma og launin hækka ekki, meðan sá boðskapur er að lágu launin megi ekki hækka. Það er mjög merkilegt að stjórnarflokkarnir skuli geta horft framan í þetta fátæka fólk.
    Það voru gerðir ákveðnir samningar og samkomulag þegar var byggt og þessi lán tekin. Það áttu að vera lægri vextir á þessum lánum, þótt 1984, ef ég man rétt, hafi verið ákvæði sett inn í sem eru þess valdandi að vextir eru breytilegir, eins og sagt er. En fólk treysti á það að þetta stæði. Og mikið af þessum vaxtabótum og öllu því. Ég náttúrlega vinn ekki í því en mér er sagt að þetta sé að verulegu leyti kák. Ég held að menn ættu nú að taka upp loforðalistann fyrir síðustu kosningar, stefnuskrárnar fyrir þær ríkisstjórnir sem hafa verið myndaðar á þessu tímabili, sjá hvað hefur þokast og hvað hefur farið aftur á bak og gá að sér, þegar verið er að koma fram fyrir fólkið, að segja rétt frá. Það verður reynt að fylgjast með slíkum málflutningi.