Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður nefndi það við upphaf sinnar ræðu að það væri mikill fengur í því að geta rætt jafnréttismál sem oftast á þingi og ég vil undir það taka og við munum væntanlega fá tækifæri til þess síðar á þinginu þegar ég legg fram skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála.
    Það sem mér finnst nú athyglisverðast við þessa umræðu er það að undir þessari umræðu sitja sjö konur en enginn karlmaður --- um tíma sat hér að vísu einn karlmaður að hlýða á þessa umræðu. Það er einmitt einkenni á þessari jafnréttisumræðu sem á sér stað oft í þingsölum að karlmenn láta hana oft afskiptalausa og taka ekki þátt í henni. Það er miður vegna þess að jafnréttismálin eru ekkert einkamál kvenna og það er mjög nauðsynlegt að fá einmitt viðhorf karlmannanna inn í þessa umræðu. Þess vegna er athyglisvert að undir umræðunni núna í þessum virðulega þingsal skuli einungis sitja konur.
    Hv. síðasti ræðumaður kom inn á ýmis atriði í þessari framkvæmdaáætlun, bæði þau sem hún taldi til bóta og eins nefndi hún ýmis atriði sem hún taldi að betur mættu fara og ég get um margt tekið undir með hv. þm. Hún fór yfir einstök ráðuneyti. Hún ræddi hugmyndir ráðuneytanna þegar hún fór yfir þær tillögur sem hér eru settar fram. Ég held að það sé nauðsynlegt að það komi fram hvernig þessi skýrsla var unnin þannig að það valdi ekki misskilningi. Þessi skýrsla og tillögur sem hér eru til umræðu voru unnar af Jafnréttisráði og í Jafnréttisráði eiga m.a. sæti fulltrúar nokkurra stjórnmálaflokkanna á þingi. Þegar Jafnréttisráð hafði lagt fram sínar tillögur varðandi einstök ráðuneyti þá var málið tekið upp í ríkisstjórn og einstökum ráðuneytum síðan gefið tóm til þess að fara yfir tillögur ráðuneytanna og gera við þær athugasemdir þannig að grunnurinn og uppistaðan í öllum þessum tillögum er unnin af Jafnréttisráði en ekki af ráðuneytunum sem slíkum þó að þau hafi vissulega haft tækifæri til þess að komast að með sínar athugasemdir.
    Hv. 6. þm. Vesturl. fór nokkrum orðum um síðustu framkvæmdaáætlun og taldi lítið hafa miðað. Ég get um margt undir það tekið, en þó má segja þegar farið er yfir síðustu jafnréttisáætlun að það hafi miðað nokkuð áleiðis í ýmsum málum. Það má kannski segja að stærsti árangurinn sem hafi náðst, þá hafi það verið konurnar sjálfar sem hafi náð þeim árangri vegna þess eins og hv. þm. nefndi hefur breytingin sem orðið hefur á þessu tímabili aðallega orðið í menntunarmálum kvenna þar sem raunverulega hefur orðið bylting.
    Af þeim atriðum sem upp eru talin í síðustu jafnréttisáætlun, þá hygg ég að það hafi nokkuð áunnist að því er varðar t.d. sveigjanlegan vinnutíma sem þar er nefndur. Ég nefni ýmis námskeið sem hafa verið á vegum ýmissa ráðuneyta að því er varðar atvinnumál, námskeið fyrir konur sem vilja stofna fyrirtæki. Ég nefni námskeið sem nú eru í gangi á vegum félmrn. utan Reykjavíkur og félmrn. veitti 4 millj. til. Það á

sérstaklega að beina námskeiðum að stöðunum þar sem um mest atvinnuleysi er að ræða þannig að nokkuð hefur náðst þar.
    Að því er varðar kaflann um menntun og fræðslu í síðustu skýrslu, þar sem fjallað er um jafnréttisfræðslu, þá hefur nokkuð verið tekið á því máli í menntmrn. og m.a. verið settar í framkvæmd ýmsar tillögur nefndar sem var skipuð á árinu 1987 og fjallaði um jöfnun á stöðu kynja í skólum.
    Að því er varðar trúnaðarstöður og ábyrgð og hlutfall kvenna í stjórnum, nefndum og ráðum, þá get ég undir það tekið að þar hefur of hægt miðað. Við höfum að vísu ekki tölur nema síðan 1987, ef ég man rétt, þá var hluturinn 11% og ég hygg að eitthvað hafi áunnist síðan. Markmiðið í þessari áætlun er að í lok framkvæmdatímabilsins verði hlutur kvenna í stjórnum, nefndum og ráðum 25%. Það vakti vissulega athygli mína, eins og hv. þm. og hún nefndi hér áðan, og er ágætt að hæstv. landbrh. er hér mættur, að í sjömannanefndinni átti engin kona sæti og af þeim 20 -- 30 umsagnaraðilum sem leitað var til, þá var ekki leitað til einnar einustu konu. Þetta vakti vissulega athygli mína þegar ég sá þessa skýrslu eins og hv. þm. Og það má vafalaust, eins og var gert þegar við ræddum hér frv. um jafnréttismál, draga fram fleiri mikilvægar nefndir sem eru einungis skipaðar karlmönnum.
    Að því er varðar fæðingarorlof, þá hefur töluvert áunnist þar frá því að síðasta framkvæmdaáætlun var sett fram fyrir fjórum árum síðan. Að því er varðar réttindi heimavinnandi, sem nefnd eru í skýrslunni, þá hefur vissulega ekki náðst þar mikið fram, en það hefur verið verulega unnið í þeim málum. M.a. á vegum félmrn. þar sem var gerð úttekt á réttarstöðu heimavinnandi fólks og er það núna í athugun í ráðuneytum, trmrn. og fjmrn., hvernig á þeim málum á að taka til þess að tryggja betur réttindi heimavinnandi.
    Hv. þm. gagnrýndi nokkuð að sífellt væri verið að vinna að úttektum í launamálum án þess að það skilaði sér í raun í því að leiðrétta launamisrétti milli kynjanna. Ég get um margt undir það tekið en ég tel engu að síður mikilvægt, af því að mér fannst þingmaðurinn ekki gera mikið úr því að það ætti að gera úttekt á fimm stofnunum á vegum ríkisins á sviði skóla og heilbrigðismála, þá tel ég það mjög mikilvægt. Og ég hef heyrt einmitt í Jafnréttisráði að þetta er kannski ein af þeim tillögum sem

Jafnréttisráð telur hvað mikilvægasta, að slík úttekt verði gerð á fimm stofnunum til þess að fara rækilega ofan í saumana á þeim stofnunum sem valdar verða á því hver launamismunurinn er. Ég hygg að ef vel tekst til í því efni geti það skilað sér í verulegum árangri til þess að leiðrétta launamisrétti. Vegna þess, eins og ég hef nefnt hér úr þessum ræðustól, að misréttið er ekki bara í launatöxtunum sem opinberir starfsmenn búa við eða launatöxtunum á almennum vinnumarkaði, heldur er það ekki hvað síst í hinum ýmsu duldu greiðslum og fríðindum í þjóðfélaginu og yfirborgunum sem ganga frekar til karla en kvenna.

Þess vegna tel ég að þrátt fyrir allar kannanir sem hafa verið gerðar þá sé þessi leið sem farin er nokkuð nýstárleg og að mínu viti til þess fallin að geta skilað árangri.
    Ég skal ekki, virðulegi forseti, fara frekar ofan í þessa áætlun. Ég vil þó nefna það af því að við erum að fjalla um þessa framkvæmdaáætlun, sem er raunverulega bara skýrsla ríkisstjórnarinnar um framkvæmdaáætlun til næstu fjögurra ára, og Alþingi hefur ekki tækifæri til þess að fjalla um eða gera kannski brtt. við. Tækifæri Alþingis er fyrst og fremst að láta sínar skoðanir í ljós og fjalla um þessa áætlun, en með þeirri breytingu sem lögð er til í því frv. til jafnréttislaga sem nú er til umfjöllunar á Alþingi þá er gerð að mínu viti veruleg breyting í þessu efni.
    Ef það frv. nær fram að ganga með þessu ákvæði þá verður slík framkvæmdaáætlun lögð fram í formi þáltill. þar sem fram koma tillögur einstakra ráðuneyta og Jafnréttisráðs og sundurliðuð framkvæmdaáætlun og áætlaðar fjárveitingar til einstakra verkefna. Slík þáltill. fær þinglega meðferð hér í þinginu, fer til umfjöllunar í nefnd og þar gæfist þingmönnum kostur á að fjalla frekar um hana og koma með sínar brtt. og þar með hafa veruleg áhrif á mótun jafnréttismála í landinu og framkvæmd þeirra. Þess vegna tel ég mjög veigamikið atriði að ná því fram og vegur þungt að Alþingi hafi, eins og þessi þáltill. mundi gera, möguleika til þess að fjalla um málið með þeim hætti sem ég lýsti en ekki eingöngu í formi skýrslu ríkisstjórnarinnar eða skýrslu félmrh. um framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar til fjögurra ára eins og nú er. En lögin sem við búum við nú í jafnréttismálum gera ekki ráð fyrir því að Alþingi fjalli um þetta með öðrum hætti.