Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Þessi þáltill. er flutt til að fá heimild Alþingis fyrir því að Ísland fullgildi samþykkt sem afgreidd var á 67. alþjóðavinnumálaþinginu, sem haldið var árið 1981, og fjallar um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi.
    Í framsöguræðu minni hér áðan með þáltill. um heimild fyrir ríkisstjórnina til að fullgilda samþykkt nr. 139, um varnir gegn og eftirlit með áhættu í starfi vegna efna sem valda krabbameini, sem gerð var á 59. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, kom fram að þótt Alþjóðavinnumálastofnunin hafi lengi látið sig miklu skipta vinnuvernd og vinnuumhverfismál hefur sú mikla umræða sem átt hefur sér stað á síðustu árum hleypt nýju lífi í starf stofnunarinnar á þessu mikilvæga sviði.
    Í ræðunni var vakin athygli á skýrslu forstjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til alþjóðavinnumálaþingsins sumarið 1990 sem varðar umhverfi og þróun. Í skýrslunni setur forstjórinn fram hugmyndir um það hvernig stofnunin og aðildarríki hennar geti lagt sitt af mörkum til að bæta umhverfið með aðgerðum á vettvangi vinnumálanna. Meðal þess sem lögð er rík áhersla á í skýrslunni er fullgilding alþjóðasamþykkta ILO á sviði öryggis- og hollustuhátta í atvinnulífinu. Á þann hátt verður best tryggð nauðsynleg samræming á sameiginlegum aðgerðum aðildarríkja Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem skili árangri við að bæta umhverfi starfandi fólks á vinnumarkaði.
    Í framhaldi af skýrslu forstjórans og umræðu sem átti sér stað á 77. alþjóðavinnumálaþinginu sl. sumar var lögð fyrir samstarfsnefnd félmrn. og heildarsamtaka aðila vinnumarkaðarins, sem fjallar um samskipti Íslands við Alþjóðavinnumálastofnunina, skrá yfir alþjóðasamþykktir á sviði vinnuumhverfismála sem félmrn. telur að komi til álita að fullgilda. Nefndin fór yfir þessa skrá og var samþykkt að senda hana Vinnueftirliti ríkisins til umsagnar. Vinnueftirlitið lagði til að byrjað yrði á því að fullgilda tvær alþjóðasamþykktir, þ.e. samþykkt nr. 139, um varnir gegn og eftirlit með áhættu í starfi vegna efna sem valda krabbameini, og samþykkt þá sem með þessari þáltill. er óskað eftir heimild til að fullgilda, þ.e. samþykkt nr. 155, um öryggi og heilbrigði við vinnu og starf, frá árinu 1981.
     Í samþykkt nr. 155 eru sett fram nokkur grundvallaratriði sem hægt er að hafa til leiðbeiningar þegar stefna er mótuð á landsvísu eða innan fyrirtækja hvað varðar kerfi til að tryggja samræmt eftirlit með öryggi og hollustuháttum á vinnustöðum. Með framkvæmd ábendinga í samþykktinni er lagður grundvöllur að aðgerðum til verndar starfsmönnum sem snerta afmarkaða þætti vinnuumhverfisins.
     Samkvæmt 1. gr. er gert ráð fyrir því að aðildarríki sem fullgildir samþykktina geti undanskilið framkvæmd hennar að nokkru eða öllu leyti takmarkaða flokka starfsmanna vegna sérstakra annmarka varðandi þá. Sérstaklega er tekið fram að þetta geti átt við siglingar eða fiskveiðar. Í fyrstu skýrslu um framkvæmd samþykktarinnar skal tilgreina sérhvern afmarkaðan hóp starfsmanna sem kann að hafa verið undanskilinn framkvæmd hennar. Gera skal grein fyrir ástæðum slíkrar undanþágu og í síðari skýrslum skal aðildarríki skýra frá hverri þeirri framför sem orðið hefur til víðtækari framkvæmdar samþykktarinnar. Skoðun Vinnumálasambands samvinnufélaganna og Vinnuveitendasambands Íslands er sú að takmarka beri fullgildingu við landverkafólk, sbr. lög nr. 46/1980.
     Félmrn. telur með vísan til framangreinds að rétt sé að fullgilding verði fyrst í stað takmörkuð við gildissvið laga nr. 46/1980. Á síðari stigum verði kannað hvort rétt sé að láta framkvæmd samþykktarinnar taka til vinnuaðstæðna um borð í skipum og loftförum. Það verði gert í samráði við helstu samtök aðila vinnumarkaðarins og hlutaðeigandi stjórnvöld.
     Lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, eru að mati Vinnueftirlits ríkisins fullnægjandi lagagrundvöllur til að framfylgja ákvæðum samþykktarinnar. Þó er nauðsynlegt að hyggja að nokkrum atriðum. Í 4. gr. er rætt um gerð stefnuskrár þar sem fjallað er um nokkra þætti sem eru mikilvægir fyrir öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum. Nauðsynlegt er að semja slíka stefnuskrá verði fullgilding heimiluð. Fullgilding krefst þess enn fremur að framvegis verði gefin út skýrsla sem hafi að geyma upplýsingar um vinnuslys og atvinnusjúkdóma, sbr. f - lið 11. gr. samþykktarinnar. Bæði þessi atriði eru til þess fallin að starf stjórnvalda að vinnuverndarmálum verði markvisst og árangursríkt.
    Í þessu sambandi er rétt að geta þess að með fullgildingu samþykkta ILO er gengist við þeirri skuldbindingu að haft sé alþjóðlegt eftirlit með framkvæmd hlutaðeigandi alþjóðasamþykktar. Samkvæmt 22. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skal aðildarríki senda Alþjóðavinnumálaskrifstofunni reglulega skýrslu um aðgerðir sem það hefur gripið til í því skyni að hrinda í framkvæmd ákvæðum samþykktarinnar. Samkvæmt gildandi reglum skal taka þessar skýrslur saman annað hvert ár og senda alþjóðavinnumálaskrifstofunni. Sérfræðinganefnd á hennar vegum fer yfir skýrslur aðildarríkjanna og birtir niðurstöðu sína í árlegri skýrslu sem er til umfjöllunar í einni af fastanefndum alþjóðavinnumálaþingsins. Samkvæmt stofnskrá ILO eiga fjórir fulltrúar rétt á að taka þátt í afgreiðslu þingsins, tveir fulltrúar ríkisstjórnar hlutaðeigandi aðildarríkis, einn fulltrúi atvinnurekenda og einn fulltrúi launafólks. Öll starfsemi stofnunarinnar byggist á samstarfi þessara þriggja aðila. Frá því Ísland gerðist aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar árið 1945 hefur félmrn. borið ábyrgð á samningu skýrslna um framkvæmd samþykkta sem Ísland hefur fullgilt.
     Á því skal vakin athygli að tillaga nr. 167, um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi, er birt sem fylgiskjal II með þessar þáltill. Í tillögunni er að finna nánari útfærslu á alþjóðasamþykktinni. Ákvæði hennar eru ekki skuldbindandi.
     Umrædd samþykkt var send fimm aðilum til umsagnar, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bandalagi háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og Vinnuveitendasambandi Íslands. Þessir aðilar mæltu með fullgildingu. Vinnumálasambandið og Vinnuveitendasambandið voru fylgjandi fullgildingu með þeim takmörkunum sem að framan greinir. Þá var leitað álits samgrn. og Vinnueftirlits ríkisins.
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að lokinni þessari umræðu að leggja til að þáltill. verði vísað til síðari umr. og hv. félmn.