Langtímaáætlun í vegagerð
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég hafði hugsað mér að gera þá athugasemd sem ég geri nú við umræður um langtímaáætlun í vegagerð. Ég skal ekki hafa afskipti af því
hvernig haldið verður á málinu að öðru leyti. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því að sú greinargerð sem fylgir frv. er efnislega röng. Ég átti af hálfu Sjálfstfl. sæti í þeirri nefnd sem hafði með endurskoðunina að gera ásamt Sturlu Böðvarssyni. Hinn 13. sept. sl. gerðum við svofellda bókun í þeirri nefnd, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þar sem ráðherra hefur tekið ákvörðun um að leiðir til fjáröflunar og skipting fjármagns milli rekstrar - og fjárfestingarliða skuli vera í höndum ríkisstjórnar og stuðningsflokka hennar á Alþingi lýsum við fulltrúar Sjálfstfl. yfir að við lítum svo á að ráðherra og ríkisstjórn vilji ekki lengur leita eftir pólitískri samstöðu um gerð áætlunar og langtímaáætlunar um vegagerð. Við áskiljum okkur rétt til að endurmeta stöðu okkar í þessari nefnd út frá breyttum forsendum.``
    Það er ljóst, hæstv. forseti, samkvæmt þessari bókun að við erum ekki formlegir aðilar að þeirri greinargerð sem fylgir till. til þál. um langtímaáætlun í vegagerð né um fjáröflun eða skiptingu fjármagns, enda var ekki fjallað um það mál á lokastigi í nefndinni heldur var ákvörðun um þau atriði tekin í stjórnarflokkunum og í ríkisstjórn. Það var ekki formlega tilkynnt í nefndinni hvaða viðbrögð þær tillögur sem kynntar voru höfðu fengið í stjórnarflokkum. Ég hlýt að óska eftir því, hæstv. forseti, að þetta frv. verði endurprentað og hæstv. ráðherra gefið svigrúm til þess að leiðrétta greinargerðina í samræmi við staðreyndir málsins.