Langtímaáætlun í vegagerð
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég gerði grein fyrir þessari bókun fulltrúa Sjálfstfl. í nefndinni í framsöguræðu minni. Ég gat þess að eins og málið bar að mér fékk ég upplýsingar um það í bréfi að þeir hefðu lagt fram í nefndinni þessa bókun og ég taldi rétt og skylt að láta það koma fram. Það var síður en svo ætlun mín að leyna því, eins og ég vænti að menn samþykki, því að ég gerði í byrjun ræðu minnar, um leið og ég gerði grein fyrir störfum hópsins, grein fyrir þessari bókun sjálfstæðismanna og las hana upp. Ég er tilbúinn að athuga hvort mönnum þykir eðlilegra að hún sé prentuð í þingskjalinu sjálfu eða hvort þetta sé fullnægjandi kynning á henni, að geta hennar og lesa hana upp með þessum hætti, þannig að hún fylgi inn í þingtíðindin umræðum um málið. Að sjálfsögðu ber ég ábyrgð á hinum endanlega texta tillögunnar eins og hann er lagður fram, en ég hef getið þeirrar ágætu vinnu og þess mikla starfs sem undirbúningshópurinn innti af höndum. Það var ekki ætlun mín að gera mönnum annað en satt og rétt til í þessum efnum og ég bið að sjálfsögðu hv. fulltrúa Sjálfstfl. velvirðingar á því ef þeir hafa hugsað sér að þeirra bókun yrði komið á framfæri með öðrum hætti, þá er sjálfsagt að athuga það. Ég mun skoða það og ræða við hv. þm. En tillagan er stjtill. eins og venja er, byggð á þeirri vinnu sem hópurinn innti af höndum og afstaða og fyrirvarar Sjálfstfl. eru ljósir. Þeir koma skýrt fram í þessari bókun þannig að ég sé ekki að hér eigi að þurfa að vera tilefni til neins misskilnings.