Langtímaáætlun í vegagerð
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég held að það sé langeinfaldast að ég leysi þetta mál með því að lýsa því yfir við hv. þm. að ég skal beita mér fyrir endurprentun skjalsins og birta bókun fulltrúa Sjálfstfl. í greinargerð tillögunnar. Það er sjálfsagt mál. Úr því að honum er slíkt kappsmál að svo rækilega sé vakin á henni athygli, þá skal ég gera það.
    Ég vísa því hins vegar á bug að það hafi verið ætlunin að setja þetta mál fram villandi með nokkrum hætti. Ég hóf mína framsöguræðu á því um leið og ég gerði grein fyrir störfum hópsins að lesa upp bókun sjálfstæðismanna og vakti þar með sérstaka athygli á henni í raun og veru. En sjálfsagt mál er að endurprenta þingskjalið. Þeir verða væntanlega greiðlega við beiðni um það hjá Gutenberg og verður þá öllu til haga haldið. Ég tel að vísu að það séu ákveðin mistök hjá hv. þm. Halldóri Blöndal að þvo svo vandlega af sér höfundarréttinn af svo góðu plaggi. Ég held að hann væri fullsæmdur af því að eiga þarna ákveðinn meðhöfundarrétt, þó sjálfsagt sé að geta þess fyrirvara sem fulltrúar Sjálfstfl. kusu að hafa.
    Um það atriði hvers vegna hann er til kominn er mér ekki alveg ljóst. Ég óttast að einhver misskilningur hafi þar orðið. En það er rétt sem ráða má af bókuninni að ákveðnar grundvallarspurningar sem lutu að breyttum forsendum fjáröflunar til vegamála, m.a. á þessu fjárlagaári, voru kynntar í ríkisstjórn og þingflokkum, ósköp einfaldlega til þess að kanna hvort þingmeirihluti væri fyrir hendi og hvort það fengist samþykkt í stjórnarliðinu að fram kæmi stjtill., eins og vegáætlun jafnan er, sem fæli í sér slíkar breytingar. Það var einfaldlega, eins og ég skildi málið, mat forsvarsmanna hópsins að ekki þýddi að halda starfinu lengra áfram á þeim grundvelli sem þar var orðinn fyrr en þetta lægi ljóst fyrir, fyrr en ljós væri stuðningur við þessar breytingar sem m.a. fela í sér aukið framkvæmdafé til vegamála á þessu ári og styrkari forsendur tekjuáætlunar vegáætlunar til frambúðar. Þetta var talið að þyrfti að liggja fyrir áður en unnt væri að halda starfinu lengra. Þetta eru nú þær skýringar sem ég kann helstar efnislegar á málinu ef menn vilja heyra þær líka.
    En ég vona að við getum varið tíma okkar nú senn til þess að ræða efni málsins því að ég er tilbúinn að beita mér fyrir því að þingskjalið verði prentað upp og í inngangi eða á hæfilegum stað komi þessi bókun fulltrúa Sjálfstfl. sem þeim er mjög umhugað um eða a.m.k. þeim þeirra sem hér situr á hv. Alþingi. Og þá, ef ástæða þykir til, setja hana í það samhengi við orðalag annars staðar í greinargerðinni að gersamlega sé fyrirbyggður allur missilningur um það efni. Staða fulltrúa Sjálfstfl., þeirra tveggja sem þar sátu fyrir þann flokk, verði alveg morgunljós, eins og ónefndur embættismaður ríkisins mundi kannski orða það.