Langtímaáætlun í vegagerð
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra fyrir að fallast á beiðni mína. Ég hafði ekki búist við því að taka upp efnislegar umræður um vegáætlunina undir liðnum um þingsköp. Mér hefur skilist á hæstv. forseta stundum a.m.k. að það sé viðkvæmt um hvað megi tala undir liðnum þingsköp og ekki á það treystandi að það standi að maður megi ræða þingsköp, jafnvel þó maður hafi gert um það samkomulag áður. En vegna ummæla hæstv. samgrh. er óhjákvæmilegt að það komi fram að ég hafði síður en svo neitt við það að athuga að hæstv. samgrh. tæki hluta vegáætlunar út úr nefndinni og fjallaði um þá sérstaklega í sinni ríkisstjórn og meðal stuðningsflokka ríkisstjórnarinnar. En ég vek athygli á að þá breytir nefndarstarfið auðvitað um eðli. Ég hef ekkert við vinnubrögð ráðherrans að athuga. Málið var tekið út úr nefndinni af honum og stjórnarflokkunum og lyktir urðu síðan þær að einn lokafundur til frágangs var haldinn í nefndinni. Þetta vita menn. Um þetta verður væntanlega talað efnislega á eftir, en ég vildi að það kæmi fram að ég hafði síður en svo neitt við vinnubrögð hæstv. ráðherra að athuga í þessu sambandi.