Vegáætlun 1991-1994
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. samgrh. hefur mælt fyrir tveimur till. Í fyrsta lagi till. til þál. um langtímaáætlun í vegagerð og í öðru lagi till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1991 -- 1994. Ég hjó eftir því að í lok ræðu sinnar óskaði hæstv. ráðherra eftir því að þessar till. báðar mættu hljóta góða umfjöllun og um þær mætti takast samstarf hér á Alþingi og takast mætti að ljúka afgreiðslu þeirra þótt skammt væri til þingloka. Ég hlýt að segja það hér að það er óviðunandi að hæstv. ráðherra skuli leggja svo seint fram þessi þýðingarmiklu þingmál. Það er mælt fyrir þessum tillögum þann 28. febr. þegar gert er ráð fyrir að þingi ljúki um 15. mars eða að hálfum mánuði liðnum. Þetta eru auðvitað ekki viðunandi vinnubrögð. Það kann að vera að ýmsar orsakir hafi legið til grundvallar því að tafist hafi að ná saman tillögu um langtímaáætlun í vegagerð en hitt liggur alveg ljóst fyrir að það á að vera í lófa lagið að hafa lokið vinnu við undirbúning till. til vegáætlunar fyrir árin 1991 -- 1994 miklu fyrr en þetta. Það kemur engum á óvart að sú till. þurfi að koma hér til meðferðar og afgreiðslu. Það hefur legið fyrir. Það er samkvæmt lögum regluleg endurskoðun vegáætlunar á þessu Alþingi. Og ég endurtek, það er óviðunandi að bjóða Alþingi upp á það að hafa einungis hálfan mánuð til þess að fjalla um þetta þýðingarmikla mál og ekki síður fyrir það að þau eru nú tvö. Þetta hlýt ég að taka fram alveg skilmerkilega. Þótt það sé rétt hjá hæstv. ráðherra að hv. alþm. eru því vanir að þurfa að leggja á sig mikla vinnu og það á skömmum tíma, þá eru samt hér mál á ferðinni sem stundum kemur fyrir að menn verða ekki fyrsta kastið á einu máli um og það þarf tíma til þess að vinna slík mál, jafnþýðingarmikil og þessi eru.
    Að þessu loknu vil ég taka fram að það hefur auðvitað oft tekist gott samstarf um vegamál hér á Alþingi og ég tek undir það að það er ákjósanlegt að svo geti verið. Hér var áðan undir liðnum um þingsköp rætt um form á tillögu um langtímaáætlun í vegagerð þar sem ekki kom fram í athugasemdum með tillögunni sjálfri bókun sem tveir nefndarmenn höfðu gert varðandi þá tillögu sem mótuð var í starfshópi sem um það mál fjallaði, starfshópi sem skipaður var af hæstv. samgrh. Ég vil lýsa því hér yfir í upphafi minnar ræðu að ég tel að þessar athugasemdir eigi við full rök að styðjast. Venjan er sú
ef skilur á milli í starfshópi þannig að hluti nefndarmanna skrifar sérstaka bókun og skilar sérstöku áliti, þá komi það fram í þskj. þegar það mál er flutt sem byggist á þeirri vinnu sem sá starfshópur leysti af hendi. Þannig að það er fullkomlega eðlilegt.
    Til þess að eðlilega hefði verið að málum staðið í þeim starfshópi, og nú átti ég ekki þar sæti, þá sýnist mér að það hefði verið eðlilegt að einn fulltrúi stjórnarliða og einn fulltrúi stjórnarandstöðu ásamt þriðja fulltrúa, sem kæmi væntanlega frá Vegagerð ríkisins fremur en samgönguráðuneyti, hefðu það með höndum að móta frumtillögur. Það væri sem sagt skipuð undirnefnd í starfshópnum til að móta frumtillögur og fulltrúi úr stjórnarandstöðuflokkunum ætti fulla aðild að því og legði þannig grunninn að því samkomulagi sem hæstv. ráðherra var hér að fara fram á.
    Mér er ekki kunnugt um hvort þetta hefur verið gert en þetta er sú eðlilega vinnuregla sem nauðsynlegt er að hafa í heiðri ef menn ætla sér að ná saman um mál. Ef á hinn bóginn er þannig haldið á málum að ríkisstjórn eða ríkisstjórnarfulltrúar koma með allar tillögur heiman frá sér og leggja þær fyrir nefndina og stilla nefndarmönnum upp við vegg þá er auðvitað ekki von á að vel fari um samkomulagið. Þetta er kannski nokkur útúrdúr en aðeins til að leggja áherslu á að það skiptir máli hvernig að slíku undirbúningsverki er staðið.
    Ef ég sný mér í örfáum orðum að þeirri till. til þál. um langtímaáætlun í vegagerð sem hér hefur verið mælt fyrir þá sýnist mér að við þá till. sé eftir mikið starf og að til mikils sé ætlast af hæstv. ráðherra ef það á að takast að afgreiða þá till. á þessu þingi. Ég sé að þrátt fyrir það að byggt væri á öllum þeim grunntölum sem hér liggja fyrir um fjármagn og jafnvel um skiptingu á verkefni milli vegaflokka og milli rekstrar o.s.frv., þá er eftir mjög mikið starf til þess að greina það í sundur á hvaða tíma hvert verk fyrir sig skuli unnið. Og þar fer að reyna á um samkomulagið þó ekkert sé nú annað. Og miðað við þann skamma tíma eða hálfan mánuð sem nú er eftir af þingi samkvæmt starfsskrá Alþingis sem sett var í haust, þá sýnist mér að það sé til mikils ætlast að þetta megi takast. Ég ætla ekki að vera hér með fullyrðingar um það því að þetta verk er í rauninni ekki hafið en það er augljóst að það má ekki mikið út af bera ef það á ekki að mistakast.
    Þá liggur það fyrir að samkvæmt þessari langtímaáætlunartillögu sem hér er á dagskrá eru gerðar miklar áherslubreytingar á skiptingu fjármagns til framkvæmda í vegamálum. Það kom raunar einnig skýrt fram í ræðu hæstv. ráðherra. Það kemur fram að það verður nú lögð aukin áhersla á stórverkefni, þ.e. jarðgangagerð, gerð stórbrúa og það sem hæstv. ráðherra kallaði þverun, sem er nýyrði sem ég veit ekki hvort hann hefur búið til en ég kann ekki sérstaklega vel við. En það mun eiga að þýða það að leggja eigi veg þvert um fjörð. Sýnist mér að íslenskan hafi átt nógan orðaforða til þess að mætti koma þessu hugtaki á framfæri án þess að búa til þetta orðskrípi, en sleppum því nú. En þessir þættir vegamála, þessar stórframkvæmdir taka samkvæmt þessari langtímaáætlun til sín mjög aukið fé. Enn fremur annar flokkur vegamála sem eru stórframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Það er nú einu sinni svo að þegar slíkar áherslubreytingar verða þá er minna eftir fyrir aðra því sama féð verður ekki notað tvisvar. Það þýðir að hin almenna vegagerð í landinu verður að þoka, bæði slitlagsframkvæmdir á stofnbrautum og þjóðbrautum og þjóðbrautirnar sem setið hafa eftir. Sem sagt allir aðrir þættir vegamála verða að þoka fyrir hinum nýju áherslum.
    Ég man eftir því að sl. haust ritaði einn af yfirverkfræðingum Vegagerðar ríkisins forustugrein í blaðið Vegamál, sem Vegagerðin gefur út, undir fyrirsögninni ``Slitlagatímabilinu lokið.`` Þessi fyrirsögn og sú grein bar það með sér að þær áherslubreytingar, sem hæstv. ráðherra er að beita sér fyrir, þýða það að svo mikill hluti fjármagnsins er tekinn í stórframkvæmdir í veggöngum, stórbrúum og í framkvæmdum hér á höfuðborgarsvæðinu að miklu minna fé en áður var er varið til að halda áfram við almenna vegagerð, þar á meðal venjulegar slitlagsframkvæmdir. Og í framhaldi af því sem gerst hefur í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar og þessa hæstv. ráðherra hefur mjög dregið úr hinum svokölluðu slitlagsframkvæmdum. Mig minnir að það hafi verið árið 1988 sem hafi verið metár í slitlagsframkvæmdum ( Gripið fram í: 1987.) eða 1987. Þá hafi verið lagt slitlag á um 305 km samtals. En á síðasta ári mun þetta hafa verið fallið niður undir 100 km. Horfurnar eru sem sagt á þá lund miðað við þessar áætlanir að þróunin verði í sömu átt, sem auðvitað varð hvatning til þess að einn af hinum mætu starfsmönnum Vegagerðar ríkisins skrifaði þessa grein undir fyrirsögninni: Slitlagatímabilinu lokið.
    Það er óhjákvæmilegt að gera sér grein fyrir þessu og það er líka óhjákvæmilegt að gera sér grein fyrir því að þeir þættir þjóðvegakerfisins, sem voru látnir þoka á því langtímaáætlunartímabili sem lýkur 1993, þ.e. þjóðbrautirnar, þær verða þá líka skildar eftir á næsta langtímaáætlunartímabili. Kannski ekki alveg skildar eftir en það kemur ekkert af því sem menn höfðu talað um, að þessum þætti vegamála yrði sinnt í vaxandi mæli að loknu því langtímaáætlunartímabili sem senn lýkur. Þetta er vitaskuld mjög alvarlegt vegna þess að menn hafa sætt sig við það að láta þennan vegaflokk, þ.e. þjóðbrautirnar, sitja á hakanum til að koma áfram meginvegaköflum og aðalveginum, stofnbrautunum um landið, en þegar síðan tekur við nýtt tímabil og þessum vegaflokki á ekki að sinna neitt í vaxandi mæli á því tímabili þá óttast ég að það valdi mikilli óánægju.
    Nú er ég ekki að segja það með þessum orðum mínum að ýmsar stórframkvæmdir og framkvæmdir á höfuðborgarsvæði séu ekki nauðsynlegar, en það er hins vegar svo að þarna verður að reyna að sigla á milli með þeim hætti að sanngirni sé sýnd. Ég tel að það séu nokkur brigð í því fólgin ef ekki tekst með neinum hætti að sinna þjóðbrautum í ríkari mæli á næsta langtímaáætlunartímabili heldur en var á því sem nú er senn að ljúka vegna þess að löngum hefur verið sagt: Þegar þessu tímabili er lokið þá kemur röðin að ykkur. Í því eru þess vegna fólgin nokkur brigð og það er alltaf erfitt að halda þannig á málum.
    Ég veit að víða hvar um land og raunar hvarvetna um land eru verulegar framkvæmdir sem bíða í stofnbrautum og ef það er svo, sem ekki kemur fram í þessari till., að það verði ekki hægt að sinna þeim til loka þessa áætlunartímabils með sama hætti og gamla langtímaáætlunin gerir ráð fyrir, ja þá er illa farið. Og það þarf að koma fram í þeirri vinnu sem er ólokið og kemur til kasta fjvn. og Alþingis. Ég veit að margir vegagerðarmenn, t.d. í mínu kjördæmi, þekkja að það er búið að bíða ærið lengi eftir aðgerðum á Siglufjarðarvegi. Og það hefur auðvitað valdið mikilli óánægju í því byggðarlagi að þær framkvæmdir hafa verið settar --- ja seinast á það tímabil sem enn stendur. En ef þessar áherslubreytingar sem hæstv. ráðherra kynnir hér með þessum tillögum valda því að til að mynda slíkir vegir og framkvæmdir á slíkum vegum dragast lengur heldur en áður var áætlað, þá er það sannarlega illa farið. Ég ætla ekkert að fullyrða hvernig um það fer því það mun koma í ljós í þeirri vinnu sem eftir er að leggja í af hálfu fjvn. og Alþingis.
    Hæstv. ráðherra sagði að gert væri ráð fyrir að svipað magn, og í framtíðinni heldur meira fjármagn, gengi til sýsluvega en verið hefði að undanförnu. Það út af fyrir sig er vel. Ég vek hins vegar athygli á því að við þá breytingu sem varð þegar ríkið samkvæmt nýjum verkaskiptalögum tók yfir þennan framkvæmdaflokk að fullu, sem áður hafði verið fjármagnaður að 1 / 3 af sýsluvegasjóðum, þá var því á fyrsta ári ekki sinnt af hálfu ríkisins og að því leyti á árinu 1990 brást það að ríkið stæði við sinn hluta í samkomulaginu sem verkaskiptalögin byggðust á að því er þetta snertir. Það sýnist að knapplega sé fyrir þessu ætlað nú á þessu ári og raunar hinu næsta, en vel má vera að reiknað sé með því að það sé hægt að bæta það upp á síðari árum og er það vel. En þarna var um að ræða brigð á því samkomulagi sem verkaskiptalögin byggðust á á síðasta ári.
    Ég skal ekki taka hér tíma til að fara ofan í einstök atriði þessarar till. til. þál. um langtímaáætlun eða víkja að fleiri efnisatriðum. Ég aðeins ítreka það að ég tel mig sjá það að við þessa till. er eftir mikil vinna. Það má án efa vinna afar skarplega ef það eiga að vera nokkrar líkur til þess að það takist að afgreiða hana á þeim skamma tíma sem eftir lifir þessa Alþingis.
    Varðandi till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1991 -- 1994 ætla ég heldur ekkert að hafa mörg orð við þessa umræðu. Ég hef tækifæri til þess við síðari umræðu því ég tek það fram að ég tel nauðsynlegt að sú till. sé afgreidd, það er auðvitað nauðsynlegt, og þrátt fyrir það að hún sé svo seint fram komin sem raun ber vitni.
    Hæstv. ráðherra sagði varðandi fjármögnun till. að ætlunin væri að ná upp slaka sem hefði verið að undanförnu í bensíngjaldi og þungaskatti og að þeim slaka ætti að ná upp að meiri hluta á síðari mánuðum ársins eða síðustu mánuðum ársins með hliðsjón af ákvæðum kjarasamninga. Mig langar til að biðja hæstv. ráðherra að gera hér grein fyrir því hvaða hækkanir þetta eru á bensíngjaldinu og þungaskattinum sem verið er að tala um, bæði í krónum og dagsetningum. Ég held að það sé eðlilegt að hæstv. ráðherra geri hér fullnægjandi grein fyrir þessum þáttum.
    Ef hæstv. ráðherra eða hæstv. ríkisstjórn ætlar að halda á því með þeim hætti að meginþungi þessara hækkana komi fram á síðustu mánuðum ársins með tilliti til kjarasamninga, eins og hér var orðað, þá er

það auðvitað eitt dæmið enn um það hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að láta hækkanir koma til framkvæmda þar sem hún hefur til þessa kallað ,,eftir þjóðarsátt``, þ.e. þegar þessu þjóðarsáttartímabili sem nú stendur er lokið þá eigi að láta skeika að sköpuðu um hvernig fer um kaupgjalds- og verðlagsþróun í landinu. Hér er auðvitað eitt dæmið enn um slíka hluti og þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra, sem ég veit að hann hefur auðvitað gert sér alveg fulla grein fyrir, hvað þetta þýðir í dagsetningum og í krónum og aurum sem hann var hér að boða um hækkun bensíngjaldsins og þungaskattsins.
    Það er rétt að fjvn. hefur haldið einn fund með vegamálastjóra og forsvarsmönnum Vegagerðar ríkisins um þetta mál þar sem farið var yfir helstu grunntölur sem í þessu plaggi er að finna. Og ég ætla hér ekkert að teygja tímann með því að fara yfir þau mál. Ég tel eðlilegra að það sé gert við síðari umræðu um till. vegna þess að þá höfum við sem sæti eigum í fjvn. væntanlega enn þá nánari yfirsýn yfir það hvað þar er um að ræða og þá við afgreiðslu málsins. Ég læt því, virðulegi forseti, máli mínu lokið.