Vegáætlun 1991-1994
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það vekur athygli nú sem endranær þegar Alþingi fjallar um vegamál. Ég hygg að það fari ekki á milli mála að fleiri í þessu landi fylgjast þá með heldur en þegar verið er að fjalla um mjög marga aðra málaflokka.
    Ég ætla að byrja á því að víkja að málefnum á Vestfjörðum en ræða svo um þessi mál almennt. Mér þykir eðlilegt á þessari stundu að ég þakki hæstv. samgrh. fyrir hans stuðning við jarðgangagerð á Vestfjörðum. Það fer ekki á milli mála að sá stuðningur skapar einnig andstöðu annarra eins og gengur þegar einum framkvæmdum er haldið fastar fram en öðrum. Ég hlýt aftur á móti að verða að taka undir það, sem hv. 1. þm. Vesturl. gat um, að það eru veruleg vonbrigði að Gilsfjörðurinn kemur ekki inn í þessa mynd í framhaldi af brúargerð yfir Dýrafjörð, ef svo mætti komast að orði, eða þverun Dýrafjarðar. Það tengist tvímælalaust því máli að þegar sameining sveitarfélaga í Austur-Barðastrandarsýslu átti sér stað, þá urðu hér miklar umræður og miklar væntingar um það hvaða möguleika sú byggð hefði til þess að tengjast Dalasýslu betur vegna þess að ýmis viðkvæm þjónustuatriði þeirrar byggðar eru í dag leyst frá Búðardal. Ég segi þetta hér og nú vegna þess að þó að mér sé ljóst að mjög jákvætt skref sé tekið með því að marka þá stefnu að Gilsfjörður komi inn, þá veit ég að væntingarnar á þessu svæði voru orðnar meiri heldur en við þingmenn getum staðið við miðað við þá stöðu sem við erum í. En ég vil að það komi fram að ég hef áður í viðræðum um þau mál látið í ljós þá von mína að hægt hefði verið að standa þannig að því verki að það kæmi þar strax á eftir.
    Eitt er þó það mál sem veldur okkur einna mestum vandræðum í þeirri stöðu sem við erum. Á sínum tíma var farið af stað með svokallaða Ó-vegi á Íslandi. Þá var byrjað á Ólafsvíkurenni. Síðan átti Óshlíð að koma og að því búnu Ólafsfjarðarmúli. Það var á sínum tíma gert ráð fyrir því að fjármögnun allra þessara verkefna væri á sama veg og jafnframt að þessi yrði röðin. Í Ólafsvíkurenni var það ákveðið og framkvæmt mjög myndarlega að leysa það mál. Þegar kom að Óshlíð má segja að það hafi verið mun erfiðara í upphafi að taka um það endanlega afstöðu hversu mikið þyrfti að að gera svo ásættanlegt umferðaröryggi yrði. Nú standa mál þannig að Vegagerðin hefur gefið út skýrslu um Óshlíð þar sem kemur fram að úr tveimur giljum á þessari hlíð er snjóflóðatíðni að mati okkar Vestfirðinga svo mikil að það kallar á sérstakar aðgerðir. Önnur gil sem eftir eru eru þá ekki með meiri tíðni heldur en á Súðavíkurhlíð.
    Ég tel að það sé mjög brýnt að Vegagerðin leggi fram endanlegar tillögur varðandi Óshlíð. Hún marki stefnuna í því hvað hún telur að þurfi að gera. Þar má vissulega segja að þessar framkvæmdir eru í takt við það sem sett hefur verið fram á bls. 3 í langtímaáætlun, þar sem vakin er athygli á því að öryggismál fái meira vægi. Hins vegar sýnist okkur jafnframt að það sé eðlilegur hlutur að lokin á Ólafsfjarðarmúla og lokin á verkefnum við Óshlíð hafi sömu fjármögnunaraðstöðu í þessari áætlun, þ.e. að bæði verkefnin tilheyri stórverkefnum. Þetta segi ég vegna þess að á sínum tíma var ávallt gert ráð fyrir því að Ó-vegirnir allir nytu þess sama í þessum efnum.
    Ég ætla nú að víkja frá beinni umræðu um einstök mál í Vestfjarðakjördæmi en vekja athygli á því að í þessari langtímaáætlun, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir 2% tekjuaukningu á ári sem eru auknar tekjur umferðarinnar. En ég vil vekja athygli á því að við erum með upplýsingar um umferðaraukningu á bls. 28 í till. til þál. um vegáætlun frá árinu 1991 til 1994. Þar kemur fram að eknir km á öllum þjóðvegum voru árið 1980 472 millj. km, en árið 1989 792 millj. km. Það er ekki fráleitt að ætla að árið 1990, ef það væri hér með, hefði orðið tvöföldun á eknum km á Íslandi. Ég fæ þess vegna ekki séð að það fái staðist að gera ráð fyrir jafnlítilli aukningu á tekjum Vegagerðarinnar og hér er fram sett.
    Ég hygg að það megi gera ráð fyrir því að ferðamannastraumur á næstu 12 árum á Íslandi muni tvöfaldast og ég er sannfærður um það að bættar samgöngur innan lands munu verða til þess að mun fleiri þéttbýlisbúar suðvesturhornsins munu hætta sér með bíla sína út á íslenska vegi án þess að eiga á hættu að þeir verði stórskemmdir. Þarna erum við komnir að því atriði sem hlýtur að vera umhugsunaratriði númer eitt, tvö og þrjú í þeirri stöðu sem við erum. Er það rétt stefna --- og nú vil ég taka það fram að langtímaáætlunin var afgreidd út úr þingflokki Framsfl. við fámenni á afbrigðilegum fundartíma og ég átti ekki kost á því að vera við á þeim tíma og hefði þá komið þessum athugasemdum eða reynt að koma þeim þar inn --- að halda Vegagerð ríkisins í þeirri stöðu að hún sé ekki sjálfstætt ríkisfyrirtæki? Við erum með Póst og síma. Við rekum hann sem sjálfstætt ríkisfyrirtæki með ákveðnum tekjum. Póstur og sími hefur haft möguleika á lántöku til að leysa mjög brýn verkefni. Er það sjálfgefið að sú stefna, sem við höfum notast við fram til þessa, að taka fyrir tiltölulega stutta kafla í stofnbrautum og þjóðbrautum hverju sinni, vissulega þó með útboðum, skili okkur hámarksmöguleikum í hagkvæmni í vinnubrögðum? Er ekki tímabært að láta reikna það út og skoða hvað það mundi þýða ef við með lántökum gengjum miklu heilsteyptara til þessa verks, lækkuðum
framkvæmdakostnaðinn og yrðum jafnframt til þess að auka umferðina á vegunum og skapa þannig meiri tekjustofna fyrir Vegagerðina. Ég er sannfærður um það að við mundum hafa hagnað af tiltækinu. Það yrði dálítið kómískt að horfa á virkjunarframkvæmdir á Íslandi ef við stæðum eins að þeim og að vegamálum. Það yrði fróðlegt að sjá hvenær við yrðum búnir með Fljótsdalsvirkjun ef við ætluðum að standa eins að. Gallinn er nefnilega sá að menn hafa ekki viljað líta á vegakerfið sem atvinnufyrirtæki. Menn hafa ekki viljað líta á þetta sem þjónustufyrirtæki sem fengi ákveðnar tekjur vegna þeirrar þjónustu sem það veitti. Menn hafa viljað líta á þetta sem hreina skattheimtu. Ef þetta er hrein skattheimta, þá er það alveg

eins skattheimta allt sem Póstur og sími tekur inn. Það er enginn skyldugur að tala í símann frekar en að aka vegina. Það gengur nefnilega ekki upp að setja þetta fram á þann hátt að þetta sé einhver hliðstæð skattheimta eins og um tekjuskatt væri að ræða. Þetta er þjónustugjald sem Vegagerðin fær og við Íslendingar eigum að taka þá stefnubreytingu að heimila Vegagerðinni að hún sé rekin sem fyrirtæki sem fái heimild til lántöku, fái heimild til gjaldtöku í gegnum bensín og þungaskatt, til þess að standa undir þeim framkvæmdum.
    Það er athyglisvert að hér flytur hv. 5. þm. Austurl. Kristinn Pétursson hugmyndir sem hníga að þessu sama með þeirri breytingu að hann talar um sérstakan sjóð í þessu sambandi.
    Ég ætla að víkja að bls. 3 í langtímaáætluninni þar sem gerð er grein fyrir stefnumörkun varðandi öryggismál neðarlega á blaðsíðunni. Þar segir svo í greinargerð, með leyfi forseta:
    ,,Þá er einnig lögð meiri áhersla á umferðaröryggi en áður. Sett er fram það markmið að slysum skuli fækka í heild. Undanfarið hefur slysum í aðalatriðum fjölgað í svipuðum mæli og umferð hefur aukist, þ.e. slysatíðni hefur nokkurn veginn verið óbreytt. Það væri mikil og góð breyting ef tækist að stöðva þessa þróun og draga úr fjölda slysa þrátt fyrir þá aukningu í umferð sem búast má við.``
    Ég er sammála þessari stefnumörkun og ég tel að með henni sé það viðurkennt, sem mér er ekki ljóst hvort hefur áður í rituðu máli í vegáætlun verið viðurkennt, að það er hönnun umferðarmannvirkjanna sem hefur afgerandi þýðingu á slysatíðni í umferðinni. Og eins og það er nauðsynlegt undir sumum kringumstæðum að byggja vegabrýr fyrir umferð þá er það líka alger nauðsyn að Vegagerðin endurskoði þá stefnu að vera til skiptis með einbreiðar og tvíbreiðar brýr á sama veginum. Það gengur ekki að það sé eins og óræð krossgáta fyrir hvern einasta ökumann, sem keyrir eftir t.d. hringvegi nr. 1, hvort hann megi gera ráð fyrir því að næsta brú sé tvíbreið eða einbreið. Ég vil bæta því við að nýju brýrnar eru gjarnan þannig að þær rúma 1 1 / 2 akrein sem þýðir að það er enn þá erfiðara að sjá það út þegar menn koma keyrandi að þeim hvort þær rúma umferð fyrir tvo eða einn.
    Annað sem ég vil einnig koma á framfæri við hv. 1. þm. Reykn., sem þá var samgrh., og það er að ég tel mikil mistök að ætla sér að leggja á einbreitt slitlag. Kannski er það vegna reynslu minnar af því að mæta þeim sem eru héðan af því svæði þar sem mest er búið að leggja af bundnu slitlagi. Þeir gera undantekningarlítið ráð fyrir því að það sé pláss fyrir tvo á þessu slitlagi og helga sér slitlagið. Við hinir verðum þá að forða okkur út af og það er nú tæpt á því, og á því veit ég að vegamálastjóri hefur fullan skilning, að það sé þá pláss á því svæði sem eftir er fyrir þá umferð sem þar er ætluð. Ég held að við eigum ekki að bíða eftir fleiri dauðaslysum til að átta okkur á alvörunni í þessum málum. Ég held að við eigum að átta okkur á því að við verðum að byggja þessa vegi

upp með tvíbreiðu slitlagi öryggisins vegna, jafnvel þó að sums staðar hafi það einhverja seinkun í för með sér. Það má ekki leika sér að því að teygja þetta áfram á þennan hátt og skapa þær hættur sem því fylgja.
    Ég varð vissulega harla glaður þegar ég leit á kortið hér aftast því þar eru markmiðin sett fram. Það gæti nefnilega gerst að sá sem vissi að það væri verið að tala um áætlun til 12 ára héldi að markmiðin væru þá innan þeirrar áætlunar. Svo er nú ekki. Hér hafa þeir sett rauða litinn á marga staði. T.d. koma Vestfirðir allþokkalega út. Við eigum að vísu eftir að setja bundið slitlag samkvæmt þessu út á flugvöllinn við Patreksfjörð, sem við vildum nú gjarnan koma að núna miklu, miklu fyrr, en að öðru leyti væri þetta skínandi niðurstaða. En þetta eru ekki markmiðin næstu 12 árin. Þetta er miklu lengra úti í fjarskanum, því miður. Og það kallar á það að Alþingi Íslendinga meti það hvort það treystir sér til þess að breyta stefnunni í vegamálum, ganga í það að klára stofnbrautirnar út frá því verklagi að láta bjóða þær út í stærri heildum en gert hefur verið og ná niður kostnaðinum, eða ætlum við að halda áfram að mjatla í þetta, eins og gert hefur verið núna að undanförnu, og láta bíleigendur bera miklu hærri skatt en sanngjarnt getur talist? Sá skattur er ekki greiddur í bensíninu. Hann er greiddur með því að eyðileggja ökutækin á lélegum vegum.
    Ég held að í ljósi þess að vaxandi skilningur er á því að ferðamál eiga í framtíðinni eftir að skipa stærri sess í atvinnumálum okkar Íslendinga sé rétt að ég ljúki máli mínu með því að vitna til orða sem féllu á ráðstefnu uppi í Borgarnesi um byggðamál. Þar var sagt frá því að gistiþjónusta bænda ætti við eitt sérstakt vandamál að glíma til að fá erlenda ferðamenn inn í landið. Það væri það að þrír af hverjum fjórum sem leituðu eftir því að ferðast um Ísland hættu við þegar þeim væri sagt hvað bílaleigubíll kostaði á Íslandi. Þeir hefðu að vonum ekki skilning á því að ástæðan fyrir þessu háa verði á bílaleigubílnum gæti verið neitt annað en hrein okurstarfsemi. Þeir áttuðu sig ekki á því að þessir bílaleigubílar þyrftu að fara um torfærur en ekki um venjulega vegi.