Vegáætlun 1991-1994
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Ólafur Kristjánsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi máls míns færa hæstv. samgrh. sem og Alþingi bestu þakkir Vestfirðinga fyrir þá ákvörðun að flýta jarðgangagerð á Vestfjörðum. Ég hygg að fátt hafi glatt Vestfirðinga meira en þessi þýðingarmikla ákvörðun og öllum hér inni er ljóst að hér er um mikið og stórt byggðamál að ræða. Með tilkomu brúar yfir Dýrafjörð og Vestfjarðagöngum opnast nýjar leiðir fyrir íbúa á svæðinu frá Dýrafirði að norðanverðu Ísafjarðardjúpi. Það mun hafa í för með sér aukin samskipti, aukna samvinnu í bæði atvinnulegu tilliti, menningar - og félagslífi o.s.frv. En ég þarf ekki að hafa mörg orð um það. Þingheimur veit allur hversu stór þáttur samgöngumál eru í byggðamálum landsbyggðarinnar.
    Ég stóð hér einkum og sér í lagi upp til þess að fá að ræða örlítið um Óshlíðarveg og stöðu mála þar. Reyndar hefur hv. 2. þm. Vestf. komið nokkuð inn á Óshlíð, en vegna stöðu minnar og embættis gat ég ekki annað en notað tækifærið og komið hér aðeins inn á það viðkvæma en þýðingarmikla mál.
    Það var árið 1946 að byrjað var að ryðja smáveg um Óshlíð og var umferð hleypt á Óshlíð árið 1950. Í dag mundum við kalla þetta hestaveg. Það var svo árið 1981 sem var tekin ákvörðun um það að ráðast í endurbætur á Óshlíð. Þessi ákvörðun var tekin af þingmönnum Vestfirðinga þá og Vegagerð ríkisins í þó nokkuð mikilli andstöðu við heimamenn sem þá vildu ráðast í jarðgangagerð. En fjármunir réðu þessari ákvörðun og við, þingmenn Vestfirðinga þá, gerðum ekki mikinn ágreining við Vegagerð en settum fram ákveðið samkomulag um framkvæmdir sem og viðhald vegarins. Þessu hefur miðað allvel áfram og erum við þakklátir fyrir það sem gert hefur verið. En því miður er ekki nægilega vel enn þá gert.
    Það er öllum ljóst að Óshlíð er hættuvegur. Um hana er mikil umferð og það má segja að aukin samskipti Ísfirðinga og Bolvíkinga krefjist þess að þessi vegur verði nánast eins öruggur og hægt verður að krefjast miðað við ríkjandi aðstæður.
    Nú hefur það stórslys gerst hér á Alþingi, ef ég má nota það orð, að einhverra hluta vegna var Óshlíð tekin út sem stórverkefni. Ég held að ég muni það rétt að fyrstu þrjú stórverkefnin, sem um var talað, voru Ólafsvíkurenni, Ólafsfjarðarmúli og Óshlíð. Því harma ég það mjög að svo skuli hafa farið að Óshlíð var tekin út af stórvegaverkefnum án þess að um það færi fram nein sérstök umræða. Ég held að við getum vart við þetta unað og ég vil því skora á hæstv. samgrh. að íhuga það að taka Óshlíð inn aftur sem stórverkefni, sem þýðir að hún verður þá fjármögnuð með sama hætti og önnur stórverkefni, þ.e. 20% af sérfé kjördæmisins en 80% með þeim hætti sem markaður var þegar ákvörðun var tekin um Vestfjarðagöng.
    Sú skýrsla sem hv. 2. þm. Vestf. vitnaði til var nýlega lögð fram af Vegagerð ríkisins og hefur ekki farið fram um hana umræða heima í héraði, en verður nú á næstu dögum. Þar er gert ráð fyrir því að til þess að ná þeim markmiðum og þeim væntingum,

sem heimamenn og vegfarendur um Óshlíð gerðu, þarf að leggja til 235 millj. í ýmsum aðgerðum til þess að umferðaröryggi verði sem best. Það sýnir að við þurfum að taka á þessu með þeim hætti sem ég var að geta um og bið vinsamlega ráðherra að skoða fyrir okkur.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu svo mjög. Ég vil taka undir með hv. 1. þm. Vesturl. Alexander Stefánssyni að það er mjög mikils um vert að tengja saman þessi tvö kjördæmi, þ.e. Vestfjarðakjördæmi og Vesturlandskjördæmi, með brú yfir Gilsfjörð. Samskipti Dalamanna og Austur - Barðstrendinga eru mikil og þau þurfa að vera meiri og við þau má treysta þá veiku byggð sem er þarna beggja megin við kjördæmamörkin og það munum við gera með því að setja brú yfir Gilsfjörð.
    Ég er nú að kveðja Alþingi eftir að hafa setið hér í fáeina daga. Ég á eflaust ekki eftir að sitja hér oftar, en ég þakka fyrir þessa daga og óska þingi velfarnaðar í vandasömu starfi og þakka fyrir mig.