Vegáætlun 1991-1994
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Eiður Guðnason :
    Virðulegi forseti. Þetta eru í senn fróðlegar og gagnlegar umræður og vissulega handhægt og til þæginda að ræða þessi tvö mál samtímis svo tengd sem þau eru. En í tilefni orða hv. 1. þm. Vesturl. Alexanders Stefánssonar í umræðunni hér áðan, þá vildi ég eftirfarandi sagt hafa:
    Stundum er það svo að menn eiga ákaflega erfitt með að gera greinarmun á því sem er satt og því sem er ósatt. Stundum er það líka svo að menn eiga ákaflega erfitt með að gera greinarmun á eigin hugmyndum og annarra hugmyndum og stundum finnst manni að slíkum mönnum sé kannski ekki sjálfrátt, en kannski er þeim það. Þetta segi ég, virðulegi forseti, vegna þess að í morgun --- og sendi það nú raunar bréflega í gær --- þegar þingmenn Vesturlands komu saman til fundar um vegamál, þá kynnti ég þeim þáltill., sem ég hef nú lagt inn til skjalavarðar, og er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela samgrh. að láta fara fram endurskoðun á V. kafla vegalaga, nr. 6 frá 25. mars 1977, um þjóðvegi í kaupstöðum og kauptúnum, og þeim reglugerðum sem gefnar hafa verið út samkvæmt þeim kafla laganna.``
    Því segi ég þetta, virðulegi forseti, að það gerðist hér áðan að hv. þm. Alexander Stefánsson gerði efni þessarar tillögu að sinni hugmynd hér í þessum ræðustól. Þetta, virðulegi forseti, eru ekki aðeins óvenjuleg vinnubrögð og ekki aðeins ómerkileg vinnubrögð, heldur alveg óvenjulega ómerkileg vinnubrögð og allt önnur en menn tíðka almennt í samskiptum hér á hinu háa Alþingi og allt önnur vinnubrögð en eiga að vera hér og sem betur fer eru slík vinnubrögð alger undantekning og raunar fádæmi. En eftir nokkuð langa pólitíska samvist er maður orðinn sjóaður og ýmsu vanur þótt mér þætti nú reyndar, virðulegi forseti, mælirinn fullur og lái mér hver sem er.
    Það hefur ýmislegt athyglisvert komið fram hér í þessari umræðu og vissulega finnst mér hlutverk stjórnarandstæðinga vera nokkuð erfitt þegar þeir samtímis gagnrýna að framkvæmdir skuli ekki vera meiri en samtímis er það staðreynd að frá þeim hafa ekki komið tillögur um raunhæfa tekjuöflun í þessu sambandi.
    Hér hefur eðlilega töluvert verið rætt um starfið í langtímanefnd. Ég átti þar sæti og það var ánægjulegt starf og ég vil nota þetta tækifæri til að þakka vegamálastjóra og starfsmönnum hans fyrir prýðilegt samstarf
í þeim efnum. Þar var mikið rætt um tekjuöflun og hvaða leiðir ætti að fara til þess að tryggja fjármagn til vegamála, hvort ætti að nota þá gömlu viðmiðun, sem áður var notuð, þ.e. að miða við ákveðna prósentu af þjóðarframleiðslu. Niðurstaðan varð sú að gera það ekki vegna þess að við höfum reynt það varðandi framlög til vegamála og það hefur ekki haldið, það hefur ekki gefist vel. Við höfum líka reynt það varðandi framlög til þróunaraðstoðar og það hefur heldur ekki gefist vel.

    Því er ekki að leyna og frá því ber að segja, að í þessari nefnd voru ræddar margvíslegar hugmyndir um aukna tekjuöflun til vegamála. Sumar kynnu mönnum að þykja nokkuð fjarstæðukenndar en engu að síður voru margar hugmyndir ræddar. Auðvitað horfðu menn til landanna hér í kring og hvernig að þessu hefur verið staðið þar, en án þess að menn væru beinlínis að gera tillögur um að þær aðferðir yrðu teknar upp hér, enda ekki kannski hentugar eða nothæfar hér þó að þær væru við hæfi á öðrum stöðum. Niðurstaðan varð sú að gera þetta með þessum hætti.
    Hv. þm. Halldór Blöndal, sem því miður er ekki hér í salnum núna, gerði að sérstöku umtalsefni þá bókun sem hann lagði fram fyrir hönd þeirra sjálfstæðismanna sem í nefndinni sátu. Hann harmaði reyndar, ef ég skildi orð hans rétt, að bókun þeirra skyldi ekki vera prentuð með vegáætlun. Ég held að hv. þm. Halldór Blöndal ætti miklu fremur að vera þakklátur fyrir að sú bókun var ekki prentuð með vegáætlun því að hún er satt best að segja mjög einkennileg. Þeir tóku þátt í starfi nefndarinnar, hv. þm. Halldór Blöndal og Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi, alveg fram á síðustu stund, enda þótt lögð væri fram þessi bókun, þar sem segir að lokum, með leyfi forseta:
    ,,Við áskiljum okkur rétt til að endurmeta stöðu okkar í þessari nefnd út frá breyttum forsendum.`` Ég held að allt hafi þetta verið á misskilningi byggt. Ég varð ekki var við að forsendur breyttust nokkurn tíma í starfi þessarar nefndar. Það var unnið að gerð þessarar langtímaáætlunar með nákvæmlega sama hætti og áður var gert og í engu frábrugðið. Ég varð heldur ekki var við að það færi fram neitt endurmat á stöðu þeirra félaga í þessari nefnd þannig að mér er algerlega sjónum hulið og fæ ekki skilið hvert erindi þessi bókun átti eða yfirleitt hvaða tilgang hún hefur.
    Vissulega væri það æskilegt að hafa mun meira fjármagn til umráða þegar við erum að fjalla um svo mikilvægar framkvæmdir sem þessar framkvæmdir eru. Þegar nú er sagt og það af hinum fremstu ráðamönnum þessarar þjóðar að við höfum verið að gera efnislega sagt nánast hreina vitleysu í byggðamálum undanfarin ár og það þurfi mjög að breyta um stefnu, þá hygg ég að þar megi kannski fyrst skýringuna finna á því hvað við höfum rangt gert, að við höfum ekki sinnt samgöngumálum í nægilega ríkum mæli vegna þess að það er ekki hægt að tala um neina byggðastefnu nema samgöngumálin séu í lagi og vegakerfið, fyrst og fremst vegakerfið, aðrir þættir auðvitað líka, sé í góðu lagi. Vegna þess að gott og greiðfært vegakerfi er forsenda fyrir því að það geti myndast þéttbýliskjarnar sem geta verið burðarásar í atvinnumálum og hafa allstórt vinnusóknarsvæði og þá er bundið slitlag á vegum meginforsenda þess að slíkt geti þróast. Ég hygg að þetta sé kannski þar sem við höfum villst af leið í byggðamálum, að við höfum ekki haldið okkur við vegamálin.
    Það hefur líka orðið ýmsum að umtalsefni hér að mjög háar fjárhæðir eru samkvæmt langtímaáætlun ætlaðar til framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu. Það er

vissulega skiljanlegt þegar horft er til þess að ein gatnamót t.d., og þá á ég við gatnamótin á Höfðabakka fyrir ofan Elliðaár, eru löngu sprungin. Þau anna engan veginn þeirri miklu umferð sem þar um fer og sjálfsagt er það ekki ofmælt að í tjónum og slysum kosti þessi gatnamót ein einhver hundruð milljóna ár hvert. Og það er margt fleira hér sem knýr á að gert verði. Engu að síður eru brýnu verkefnin líka annars staðar í byggðum landsins. En það neitar því enginn að frá sjónarmiði umferðar og umferðaröryggis, þá er brýnt að bæta hér úr ýmsu.
    En því lagði ég fram þessa þáltill., sem ég vék að hér áðan, að ég hygg að það sé orðið löngu tímabært að endurskoða með einhverjum hætti þær reglur sem gilda um gerð þjóðvega í þéttbýli. Ég held að það sé skoðunaratriði hvort ríkasta sveitarfélag á landinu og langsamlega tekjuhæsta sveitarfélag á landinu, og þar á ég auðvitað við Reykjavíkurborg, eigi ekki að taka í vaxandi mæli þátt í framkvæmdum við aðalumferðaræðar hér inn í borgina og að hafnarsvæðinu t.d. sem nú flokkast sem þjóðvegir í þéttbýli. Ég held að þetta sé athugunarefni og eigi að skoða. Það eru gerbreyttar forsendur í umferð og að því er tekjuhlið framkvæmda hjá sveitarfélögum varðar eins og við höfum séð á margháttuðum framkvæmdum Reykjavíkurborgar. Ég fæ t.d. ekki með nokkru móti séð þau rök sem hníga til þess að Bústaðavegurinn, það öngstræti umferðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, sé flokkað sem þjóðvegur í þéttbýli. Bústaðavegurinn er raunar ekkert annað en venjuleg íbúðagata eða allt að því. Þannig hygg ég að muni vera ýmis fleiri atriði sem ástæða sé til að endurskoða í ljósi breyttra staðreynda.
    Ég hygg t.d. að ef Reykjavíkurborg hefði varið auknu fjármagni til framkvæmda í þessum efnum sem til þess væru fallnar að auka umferðaröryggið, draga úr umferðarslysum sem valda tjóni, líkamsmeiðingum og dauða, þá hefði það verið betri fjárfesting fyrir borgarana heldur en ýmislegt af því sem hv. og virðulegur borgarstjóri og borgarstjórnarmeirihluti í Reykjavík hafa verið að skemmta sér við að framkvæma. Þess vegna hef ég flutt þessa þáltill., sem væntanlega verður dreift hér á morgun, og þess vegna held ég að sé brýnt að endurskoða þessi mál.
    Hér hefur nokkuð, virðulegi forseti, verið vikið að framkvæmd sem er brúargerð eða þverun Gilsfjarðar. Sú framkvæmd er seinna á ferðinni en við þingmenn Vesturlands og Vestfjarða hefðum kosið og verður kostað kapps um að fá henni nokkuð flýtt sé þess nokkur kostur. Mér er hins vegar fyllilega ljóst að þar er við ramman reip að draga því að það eru vissulega, og skal ekki lítið úr því gert, brýnar framkvæmdir í stórbrúamálum og fjarðaþverunum sem bíða á fyrsta tímabili. En þó ber að skoða til ýtrustu hlítar hvort ekki sé hægt að þoka þessu máli fram, einfaldlega vegna þess að þetta er byggðamál fyrir þessi svæði sem þarna er um að tefla og ég óttast það að með þeim samdrætti sem nú er fyrirsjáanlegur í landbúnaði kunni þessi framkvæmd, ef hún gerist eins og hér er ráð fyrir gert, að verða of seint á ferðinni fyrir þetta svæði. Þessi langtímaáætlun er auðvitað nákvæmlega það sem í nafni hennar felst. Hún er áætlun. Hún hlýtur að koma til endurskoðunar. Að undirbúningi hennar og vinnu var vel staðið af hálfu Vegagerðar ríkisins. Þetta tók ýmsum breytingum í meðförum nefndarinnar þar sem undir góðri verkstjórn var unnið, að ég hygg, mjög gott starf. Auðvitað kemur þetta plagg til endurskoðunar í ljósi breyttra aðstæðna á síðari tímum. Það er samkvæmt eðli máls og ég hjó eftir því að hv. þm. Pálmi Jónsson tók þannig til orða að mikil vinna væri eftir við langtímaáætlun. En það er nú auðvitað svo að vinnu við langtímaáætlun lýkur aldrei vegna þess að hún hlýtur eðli máls samkvæmt að halda áfram. Þó að hér sé kannski nokkrum áfanga náð, þá er það enginn áfangastaður, í mesta lagi áningarstaður meðan menn ræða þetta og halda síðan áfram með auknar framkvæmdir.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa um þetta mikið fleiri orð á þessu stigi. Umfjöllun þessa máls er ekki lokið í þingmannahópunum, þar á eftir að ræða málið ítarlegar, en endurtek það að vissulega væri ákjósanlegt að geta haft hér meira undir og gert meira, en þá verða líka þeir sem þannig vilja standa að verkum að vera viljugir til þess og fúsir að afla aukinna tekna. Það er auðvitað kjarni málsins en innan þess tekjuramma sem nú er um talað, þá hygg ég að hér megi þolanlega við una en hins vegar ekki meir.