Vegáætlun 1991-1994
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Friðjón Þórðarson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. samgrh. hefur í dag fylgt úr hlaði tveim till. til þál. Þeirri fyrri um langtímaáætlun í vegagerð, þeirri síðari um vegáætlun fyrir árin 1991 -- 1994. Í lok máls síns óskaði hæstv. samgrh. eftir því að þessar tillögur yrðu ræddar en þeim síðan vísað til fjvn. Þó að ég eigi sæti í þeirri hv. nefnd og fullar líkur séu til þess að mörg orð falli um þessi mál þar til lokið er, þá ætla ég að leyfa mér að fara um þessar tillögur örfáum orðum á þessu stigi málsins og ræða þær þá báðar í einu eins og hér hefur verið ákveðið.
    Hv. 2. þm. Norðurl. v. gat þess í sínu máli í morgun að það væri óviðunandi hvað þessar tillögur kæmu seint fram því að hér væri um svo viðamikið efni að ræða sem flestir þingmenn óskuðu eftir að tjá sig um. Það er náttúrlega óskandi, þó að undir þetta megi taka, að þessi mál verði rædd á viðunandi veg og ekki kastað höndunum til þeirra. Þess vegna brá mér dálítið þegar hv. 2. þm. Vestf. sagði hér áðan um langtímaáætlun í vegagerð að hún hefði verið afgreidd við fámenni á afbrigðilegum fundartíma í þingflokki Framsfl., en e.t.v. hef ég misskilið hv. þm. og að þetta hafi aðeins verið fyrsta ákvörðun í þessu máli.
    Það er nú ekki ástæða til þess að fara mjög rækilega eða djúpt í umræðurnar á þessu stigi, en maður verður að binda vonir við það að hér á hv. Alþingi hefur oft náðst góð samstaða um vegamál þannig að það hefur verið unnt að gera þar nokkur átök. Þetta á auðvitað rætur sínar að rekja til þess að þessi mál eru öllum landsmönnum hugstæð og má segja að allir landsmenn, öll þjóðin, hafi áhuga á því að þoka þessum málum áleiðis.
    Hv. 2. þm. Norðurl. v. benti á það að um tillöguna um langtímaáætlun í vegagerð á þskj. 735 mætti segja að hún væri ekki unnin nema að nokkru leyti, það væri mikið starf óunnið við þá ályktun. Bent hefur verið á það að tillaga um langtímaáætlun í vegagerð sem lögð var fyrir Alþingi á 105. löggjafarþingi 1982 -- 1983 hefði raunar aldrei verið samþykkt. En þó hefur verið farið eftir henni til viðmiðunar í þeim málum á undanförnum árum og geri ég ráð fyrir að svo verði enn um þá tillögu sem hér er til umræðu.
    Að undirbúningi þessarar tillögu á þskj. 735, um langtímaáætlun í vegagerð, hefur nefnd vaskra manna unnið frá því í sumar. Ef maður lítur sér nær, svo sem eðlilegt er í þessum efnum, þá má segja að hlutur Vesturlandskjördæmis hafi ekki legið þarna neitt til hliðar, þar sem a.m.k. þrír af nefndarmönnum eru nátengdir því kjördæmi. En þeim mun ríkari verður ábyrgðin að koma þessum málum vel til skila og ná nokkrum árangri.
    Það má auðvitað margt segja hér um úttekt vegakerfisins á bls. 5, t.d. þar sem nefndar eru viðamestu breytingar frá fyrri áætlun. Ég ætla ekki að tíunda þær allar, en aðeins nefna t.d. 3. tölul. þar sem reiknað er með nýrri veglínu fyrir Snæfellsnesveg þannig að hann liggi yfir Kolgrafafjörð, utan við bæinn Kolgrafir, í stað þess að fara inn fyrir fjörðinn. Það má segja

að þegar við þingmenn Vesturlandskjördæmis ræðum um æskilega vegagerð inn með Breiðafirði, þ.e. alla leið utan frá Hellissandi inn á Skógstagl í Miðdölum, þá séu á þeirri leið allmargir firðir. Ég hefði talið, þó kannski séu skiptar skoðanir um það hver eigi að teljast fyrstur af þessum fjörðum, og viljað benda á og geri það hér með að
Álftafjörður innan við Stykkishólm hefði a.m.k. með eins miklum rétti átt að vera nefndur þarna og Kolgrafafjörður.
    Það er nefnt á bls. 8 í þskj. að með vegáætlun þessari sé verkefnum skipað með nokkuð öðrum hætti en gert hefur verið. Þess vegna má segja með miðlungi sterku orðalagi að það hafi miklar áherslubreytingar verið gerðar af þeirri nefnd sem hér hefur verið að verki. Nefna má í því sambandi stórframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og önnur stórverkefni. Að því er mér skildist á hv. 2. þm. Norðurl. e., þá virtist hann sakna margs í þessari tillögugerð þó að væntanlega sé eitthvað allmikið af efni hennar undan hans rifjum runnið.
    En ég geri ráð fyrir því að það mál sem verði kannski enn þá viðkvæmara á þingi áður en yfir lýkur sé vegáætlun fyrir næstu fjögur ár, um framkvæmdir næstu fjögurra ára, sem menn eðlilega horfa til á þessum degi frekar en þeirra hugmynda sem horfa langt til framtíðar. Vafalaust er það svo að um sérstaklega röðun þeirra verkefna sem hér er greint frá verða mjög skiptar skoðanir. Ég ætla þess vegna að geyma mér að ræða mikið almennt um þau efni á þessu stigi mála, en víkja aðeins að einu máli. Og það er ekki vegna þess að ég teldi ekki ástæðu til þess að víkja hér að mörgum þáttum mála.
    Vegna þess að eitt mál hefur hér borið á góma öðrum fremur, þá ætla ég að leyfa mér í lok þessara fáu orða að víkja að því ofurlítið, en það er vega - og brúargerð yfir Gilsfjörð sem vitanlega er einna efst á blaði hjá okkur þingmönnum Vestfirðinga og Vesturlands og liggja ærnar orsakir því til grundvallar og mörg og mikilvæg rök. Ég leyfi mér að nefna till. til þál. um þetta efni sem flutt var af hv. 1. þm. Vestf. og er 24. mál þessa þings, þar sem hann leggur til að ályktað verði að skora á ríkisstjórnina að hún hlutist til um að framkvæmdir við vega - og brúargerð yfir Gilsfjörð hefjist af fullum krafti vorið 1992 eða þegar að Dýrafjarðarbrú lokinni. Þessi tillaga og þessi hugmynd, eða hvað við eigum að kalla hana, er að sjálfsögðu miklu eldri því að nánast samhljóða tillaga um þetta efni var flutt á þingi 1982. Það sem kemur manni dálítið spánskt fyrir sjónir þegar þessi nefnd leggur nú málin í hendur okkar alþingismanna er að þar eru nefnd ýmis verkefni sem eru miklu yngri en það sem ég nú nefndi, og jafnvel nefnd í fyrsta sinn, og ætlast til þess að þau séu tekin samtímis eða jafnvel á undan. En ég vil alveg hiklaust halda því fram að hugmyndin um vega - og brúargerð yfir Gilsfjörð sé a.m.k. frá árinu 1982 og til þess að rannsaka þá hugmynd og undirbúa það að henni verði hrundið í framkvæmd hefur verið lagt fram fé öll árin 1985 -- 1990 og er enn gert að sjálfsögðu. Þetta eru að vísu ekki háar

fjárhæðir en þó nauðsynlegar á hverju ári til þess að rannsaka allan undirbúning. Á þessum árum, 1985 -- 1990, hafa verið ætlaðar til undirbúningsrannsókna 12 1 / 2 millj. kr.
    Ég vil sérstaklega þakka, auk hv. 1. þm. Vestf., þeim þingmönnum sem hér hafa gert þetta mál að umræðuefni. Hv. 1. þm. Vesturl. benti á að í raun og veru hefðu þessir þingmannahópar, bæði Vestfjarða og Vesturlands, sagt ansi mikið um þetta mál, raunverulega stigið á stokk og strengt þess heit að það skyldi framkvæmt, eins og ég nefndi áðan, þegar að Dýrafjarðarbrú lokinni. Einnig hefur hv. 1. þm. Vestf., sem hér sat á þingi um tíma og lauk máli sínu áðan, lagt mjög góð orð til þessa verkefnis. Enn fremur hv. 2. þm. Vestf. sem hér talaði áðan að ógleymdum hv. 3. þm. Vesturl. Öllum þessum félögum mínum vil ég þakka fyrir góð orð um þetta málefni.
    En það er nú einu sinni svo að orð, þó séu til alls fyrst, nægja ekki ein saman. Þeim verður að hrinda í framkvæmd. Ég ætla ekki að tína til einu sinni enn rök í þessu máli, aðeins víkja að því sem þessir hv. þm. bentu á í sínum ræðum. Þau rök sem liggja til þessa máls eru þung frá sjónarmiði byggðanna. Því mun hafa verið haldið mjög að Austur - Barðstrendingum þegar þeir voru hvattir til þess að sameinast í eitt sveitarfélag, að það skyldi vera ýtt á þetta mál. Þetta hef ég heyrt og veit raunar með fullri vissu að á það var lögð áhersla og varð til þess að þeim tókst að sameina Austur - Barðastrandarsýslu alla í einn hrepp, Reykhólahrepp, sem ég tel mjög af því góða þegar miðað er við átök bæði í samgöngumálum og öðru.
    Ég vil einnig geta þess að ein elsta byggðaáætlun sem unnin var aðallega á vegum Byggðastofnunar var einmitt áætlun um Dalabyggð, þ.e. Dalasýslu og Austur - Barðastrandarsýslu. Þar var að sjálfsögðu lögð höfuðáhersla á samgöngumál og mér er ekki kunnugt um að nokkur áætlun af þessu tagi hafi verið lögð fyrir hæstv. ríkisstjórn nema þessi áætlun um Dalabyggð. Hún var lögð fram og staðfest og samþykkt á ríkisstjórnarfundi 13. febr. 1981. Ég ætla að ég muni það rétt vegna þess að þeim fundi stjórnaði ég sjálfur.
    Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri nú við 1. umr. málsins en aðeins minna á það að auðvitað verðum við að stefna að því, hv. alþingismenn, að orð okkar standi í þessu máli. Það hafa verið sögð mörg orð. Við þurfum að þoka þessari framkvæmd að verulegu leyti fram á fyrsta fjögurra ára tímabilið. Undir því er mikið komið. Þetta er að allra dómi mjög mikilvæg framkvæmd. Þó að ég hafi látið þessi orð sögð um þetta mikilvæga mál nú er ég viss um að fleiri orð verða látin falla um þetta mál áður en yfir lýkur og ályktanir verða afgreiddar á þessu vori.