Vegáætlun 1991-1994
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Ég tek auðvitað heils hugar undir viðurkenningarorð til starfsmanna Vegagerðar ríkisins. Við þekkjum það þingmenn af löngu samstarfi við Vegagerð ríkisins að þeir embættismenn sem þar eru eru einstaklega hjálpsamir og greiðviknir og í öllu sínu samstarfi með upplýsingar á reiðum höndum og vilja greiða götu stjórnmálamanna eins og þeir framast geta. Og ég tek auðvitað undir allt gott sem um þá stofnun er sagt.
    Það kom fram í ræðu hæstv. samgrh. að hugmyndin hjá ríkisstjórninni er ekki sú að fara eftir tilmælum Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins í sambandi við bensíngjald og þungaskatt á þessu ári. Eins og ég sagði frá í minni ræðu fyrr komu þeir á fund okkar og fjmrh., Ásmundur Stefánsson og Þórarinn V. Þórarinsson, og hittu okkur síðar sérstaklega með Vegagerðinni í risnubústað ríkisstjórnarinnar við Borgartún. Þeir ítrekuðu þar fyrri sjónarmið sín þess efnis að þeir teldu að ríkisstjórnin yrði að skilja það að þegar laun hækkuðu í lágum prósentutölum, þá breyttist vægi hlutfallstalna. Það má vera að einhverjum finnist 13% hækkun frá áramótum til 1. sept. ekki ýkja mikið á bensíngjaldi, 26,5% hækkun á þungaskatti ekki mikil á sama tímabili, en í ljósi þeirra litlu launahækkana sem almenningi falla í skaut er hér um verulegar hækkanir að ræða. Og samkvæmt skilningi þessara manna tveggja stefna þeir með þessu í hættu framtíð þess sem kallað hefur verið þjóðarsátt.
    Hæstv. samgrh. talar um slaka. Í hverju var slakinn fólginn? Hann var fólginn í því að ríkisstjórnin hélt ekki við þær hækkanir sem hún hafði ákveðið í fjárlögum fyrir sl. ár. Það er öldungis rétt hjá hæstv. ráðherra að ríkisstjórnin hafði reiknað með miklu meiri verðbólgu en varð. Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar var auðvitað ekki sú að ná verðbólgunni eins hratt niður og aðilar vinnumarkaðarins lögðu grundvöll að með samningunum 1. febr. í fyrra. En þegar þeir samningar lágu fyrir skuldbatt ríkisstjórnin sig til þess að halda hækkunum í hófi. Og mér finnst það skjóta skökku við ef ríkisstjórnin ætlar nú annars vegar að magna upp hækkanir á þungaskatti og bensíngjaldi til 1. sept. og boðar það ofan í kaupið að þessum hækkunum eigi að halda áfram með vaxandi stíganda fram á næsta ár.
    Það er alltaf verið að tala um þessa þjóðarsátt. Menn eru alltaf að reyna að skýra í hverju sættir yfirleitt felast. Ég held að allir hljóti að vera sammála um það að sættir vísa ekki til baka heldur fram á við og þá er auðvitað ætlast til þess að menn reyni að standa við sáttina þó einhver einn dagur líði. Þjóðarsátt sem stendur bara frá 1. febr. 1990 til 1. sept. 1991 hlyti að vera kölluð tímabundin þjóðarsátt, takmörkuð þjóðarsátt, ekki þjóðarsátt til frambúðar. Sú langtímaáætlun sem hér liggur fyrir byggir á því að hækka bensíngjald og þungaskatt í framtíðinni meira en ríkisstjórnin hefur sjálf treyst sér til að gera á síðasta ári eftir að þjóðarsáttarsamningarnir tókust.

    Hæstv. samgrh. talar um að það sé ekkert að gera með loftkastala í áætlunargerð. Auðvitað tek ég heils hugar undir það. En hvernig getur samgrh. komið hingað í þingsalinn og sagt: Ég legg til meiri hækkanir á umferðina á næsta ári, þegar aðrir eru teknir við stjórnartaumum og aðrir bera ábyrgð á þjóðmálum, en ég hef sjálfur treyst mér til að leggja á umferðina vegna þess að ég er að reyna að sætta þjóðina við þau takmörkuðu lífsgæði sem hún hefur orðið að sætta sig við nú um stundir. Er ekki talað um það að lífskjör hafi versnað svona í kringum 15%, eitthvað svoleiðis, síðan hæstv. ráðherra varð ráðherra? Og er ekki verið að koma svolítið til móts við launþegana núna með því að reyna að halda hækkunum innan einhverra sæmilegra marka? Eða getum við bara talað stundum um að það eigi að halda þjóðarsáttinni? Er það bara stundum sem það á við að við séum þjóðarsáttarmenn ef við erum að gera kröfur á aðra? Getum við svo komið næsta dag og sagt: Nú erum við ekki þjóðarsáttarmenn í þessu eina atriði. Við getum haldið þessu utan við af því að það kemur okkur vel í þessu sem við erum nú að gera? En svo ætlumst við til að einhverjir aðrir haldi þjóðarsátt í einhverju öðru sem kemur okkur minna við. Ég held að málið sé ekki þannig vaxið. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að líta þannig á þetta frv., eftir skýringar hæstv. ráðherra, að forseti Alþýðusambands Íslands og framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands hafi farið snuðferð til Vegagerðarinnar, snuðferð til hæstv. fjmrh., snuðferð til hæstv. samgrh. og ríkisstjórnarinnar þegar þeir fóru fram á það að ríkisstjórnin reyndi að halda hækkunum á umferðina innan þeirra marka sem þjóðarsáttin fól í sér, innan þeirra marka sem launahækkanir á þessu ári rúmast.
    Á hinn bóginn má auðvitað segja að menn hafi mikinn áhuga á því að gera þetta og gera hitt. Hæstv. ráðherra talaði um það áðan við mig þegar ég var að tala um það að langtímaáætlunin, eins og hún er sýnd hér á korti, vísar til einhverrar framtíðar, 25 -- 30 ár fram í tímann. Við erum að tala um árin 2015 -- 2020 og það er verið að teikna það upp hér á korti hvernig vegakerfið líti út árið 2015 eða 2020. Þá var ég að segja að það væri undarlegt að halda að á þeim tíma yrði ekki lokið við veg yfir hálendið milli Norður - og Suðurlands. Þegar svo langt er komið má auðvitað búast við því að slíkur vegur hafi verið lagður. Þar munaði nú ekki hársbreidd, það munaði því að það er búið að setja Ísland í A - flokk núna, axarskaftaflokk afturfarar og atvinnuleysis, sem veldur því að okkur tekst ekki að fá álver til landsins nú á næstunni og veldur því að ekki var ráðist í það að leggja grunn að veginum yfir hálendið á næsta ári þó svo hann hefði síðar verið byggður upp. En við sjáum fyrir okkur slíka veglagningu. Við gerum okkur grein fyrir því, sem erum kunnugir í Bárðardal, að það er gersamlega útilokað að hugsa sér að ekki verði bundið slitlag upp Bárðardalinn eins og umferð er vaxandi yfir hálendið út alla þessa öld, algerlega útilokað. Við erum í þessari svokallaðri langtímaáætlun að tala um kort, um einhverja framtíð sem enginn sér fyrir.

    Ég hélt því fram í nefndinni að langtímaáætlun í vegamálum hlyti að vera í því fólgin að við reyndum að átta okkur á því að hverju við stefndum á næstu 12 árum og byggjum síðan til kort sem sýndi ástand veganna eftir 12 ár og sýndi hvert við kæmumst áleiðis á þeim tíma. Það er auðvitað hollt að setja sér markmið með þeim hætti. En ef við hefðum unnið þannig þá hefðum við líka orðið að endurmeta ýmis verkefni sem við viljum ráðast í, hvort við förum kannski of geyst á einum stað, ef við þorum með þeim hætti að horfast í augu við staðreyndir.
    Kannski sýnir, hæstv. forseti, ekkert betur hvernig vinnubrögðin við langtímaáætlun eru en sú yfirlýsing hæstv. ráðherra að það sé tvímælalaust tímabært, ég skrifaði það niður, tvímælalaust tímabært að endurskoða þær reglur sem nú gilda um þjóðvegi í þéttbýli og athuga hvort ekki sé nauðsynlegt að taka það mál allt upp við sveitarstjórnirnar út frá þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram. Með þessum ummælum viðurkennir ráðherrann auðvitað að hann telur vafasamt að hægt sé að
standa á langtímaáætlun á þeim grundvelli sem hann hefur sjálfur lagt hér til og skil ég hans ummæli svo að hann leggi ekki áherslu á það að þáltill. um langtímaáætlun fái afgreiðslu á þessu þingi og er auðvitað fullkomlega sammála honum um það. Það er auðvitað eðlilegt að slík áætlun fái að liggja frammi, að menn geti rætt áætlun 12 ár fram í tímann heima í sínum kjördæmum við sveitarstjórnarmenn og að einstökum þingmönnum gefist kostur á að tala saman.
    Í öðru samhengi sagði hæstv. forsrh. að óeðlilegt væri að búvörusamningur yrði gerður fyrr en ný ríkisstjórn hefði sest af völdum. Það er nú sennilega af því að hæstv. forsrh. þykir þægilegast að hafa það þannig. Ég held að með sömu rökum, ef þau eru þá einhver, sé auðvelt að sýna fram á að langtímaáætlun í vegamálum eigi að bíða næstu ríkisstjórnar.
    Ég skal ekki í þessu samhengi gera mikið veður út af þeim ummælum hæstv. forsrh. að það sé hæpið að vera að bora sig í gegnum fjöll til þess að síðasti íbúinn geti farið þá leiðina burtu, og var þá að tala um Suðureyri við Súgandafjörð. En auðvitað mundi það setja mikið strik í þessa vegáætlun ef svo færi að ríkisstjórnin teldi kominn tíma til að gefa því byggðarlagi frí og þá heppilegra kannski að fara með íbúana yfir heiðina í staðinn fyrir að bora sérstaklega gat í fjöllinn. En þetta eru ekki mín sjónarmið. Þetta eru sjónarmið verkstjóra ríkisstjórnarinnar, Steingríms Hermannssonar, sem hefur vakið athygli á því með þessum hætti að atvinnuástand sé erfitt við Súgandafjörð.
    Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri en vil bara ítreka þetta: Það mátti heyra á hæstv. samgrh. í fyrsta lagi að hann hefur ekki mikla trú á því að orkusparnaðarátak ríkisstjórnarinnar standist --- mig minnir að ríkisstjórnin hafi lagt einar 3 millj. fram til þess að hvetja Íslendinga til að spara orkuna --- því að hann leggur þvert á móti til grundvallar að bensíneyðsla fari vaxandi á næstu árum frá ári til árs. Ekki skal ég þræta við hann um það. Menn geta verið bjartsýnir á bensíneyðsluna. En þó svo að maður fallist á þau rök,

þá er hér gert ráð fyrir meiri hækkunum en felast innan ramma þjóðarsáttar. Enn fremur er í þessari þáltill. gert ráð fyrir að 350 millj. kr. renni til Vegasjóðs úr ríkissjóði á þessu ári. Ég fæ ekki séð að fullnægjandi rök hafi verið færð fyrir því að það verði talið pólitískt rétt að hækka gjöld á umferðina um þær ógnarfjárhæðir sem hæstv. samgrh. var að tala um. Að því leyti til er þessi vegáætlun í lausu lofti og fróðlegt auðvitað að sjá hver verði viðbrögð aðila vinnumarkaðarins nú þegar það liggur fyrir svart á hvítu að ríkisstjórnin hefur ákveðið að hafa að engu þeirra varnaðarorð, heldur kýs að hækka bensíngjaldið og þungaskattinn langt umfram það sem felst í kjarasamningum.
    Um þungaskattinn vil ég taka það fram sérstaklega að þessi geigvænlega hækkun, um 15% og 10% eftir því sem mér heyrðist, það er hækkað um 26,5% á árinu, slík hækkun bitnar auðvitað fyrst og fremst á þeim byggðarlögum sem þurfa mikið að treysta á landflutninga, hækkar vöruverð á þeim stöðum og eykur með þeim hætti á byggðaójafnvægi. Ég held að það liggi ljóst fyrir.