Skattaleg meðferð á lífeyrissparnaði
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Flm. (Guðmundur H. Garðarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um afnám margsköttunar á iðgjaldi sjóðfélaga til lífeyrissjóða. Till. hljóðar sem hér segir, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela fjmrh. að hefja þegar undirbúning nauðsynlegra lagabreytinga sem hefðu það að markmiði að afnema margsköttun iðgjalda sjóðfélaga lífeyrissjóðanna.``
    Í greinargerð segir svo, virðulegi forseti, með þessari þáltill.:
    ,,Afar brýnt er að afnema það ranglæti sem viðgengst í skattalegri meðferð iðgjalda til lífeyrissjóðanna, ásamt því hvernig lífeyrisgreiðslur frá sjóðunum valda lækkun greiðslu tekjutryggingar frá Tryggingastofnun. Þannig má í raun segja að iðgjald sjóðfélaganna til lífeyrissjóðanna sé skattlagt í þrígang, fyrst iðgjaldið, síðan greiðslur frá sjóðunum og hvernig þær valda skerðingu tekjutryggingar frá Tryggingastofnun sem auðvitað er líka skattlagning.
    Í flestum löndum Evrópubandalagsins eru iðgjöld, bæði launþega og atvinnurekenda, skattfrjáls, en lífeyrir frá lífeyrissjóðum í þessum löndum er aftur á móti skattskyldur eins og hér á landi. Nú kann einhver að halda því fram`` --- Virðulegi forseti, ég hef alltaf haft það til siðs að ef aðrir þingmenn eru með sérfundi í deildinni þá þagna ég þannig að þeir geti þá komist að með sína aukafundi. (Forseti hringir.) Ég sagði, virðulegi forseti, að í flestum löndum Evrópubandalagsins eru iðgjöld bæði launþega og atvinnurekenda skattfrjáls en lífeyrir frá lífeyrissjóðum í þessum löndum er aftur á móti skattskyldur eins og aðrar tekjur svo sem á sér stað hérlendis. --- ,,Nú kann einhver að halda því fram að 4% iðgjald sjóðfélagans sé innifalið í persónuafslættinum í staðgreiðslunni. Um það má deila. En nauðsynlegt er að taka af öll tvímæli, þannig að launþeginn finni greinilega fyrir því að iðgjald hans til lífeyrissjóðs sé ekki skattstofn.
    Margoft hefur komið fram hversu mikið ranglæti felst í því að þeim einstaklingum, sem innt hafa af hendi greiðslur til lífeyrissjóðanna, skuli refsað þegar að töku ellilífeyris kemur með því að greiðslur frá sjóðunum valdi lækkun á greiðslum Tryggingastofnunar. Í kjarasamningunum í febrúar 1990 var samið um að greiðslur frá lífeyrissjóðum valdi minni lækkun á tekjutryggingu en aðrar tekjur. Frá því þetta var ákveðið hefur aftur sigið á ógæfuhliðina svo að ekki verður lengur við unað.``
    Jónas Bjarnason verkfræðingur var fenginn til þess af hálfu Landssambands lífeyrissjóða að kanna nánar hin skattalegu áhrif vegna þessa máls. Af niðurstöðum í greinargerð og skýrslu sem hann hefur gert má sjá að jaðarskattur einstaklings sem býr einn getur orðið 76% á tilteknu tekjubili, þ.e. að af hverjum 1000 kr. sem ellilífeyrir hans frá lífeyrissjóði hækkar heldur hann einungis eftir 239 kr.
    ,,Ofangreint ástand þessara mála er Alþingi og ríkisstjórn til hreinnar skammar`` svo ekki sé sterkar að orði komist. ,,Því er mikilvægt að þessi þingsályktunartillaga verði afgreidd þegar á þessu þingi þannig að fjmrh. fari ekki í grafgötur um vilja Alþingis og leggi þegar fram lagafrumvörp til lausnar málinu.``
    Ég vil síðan, virðulegi forseti, skýra nokkuð nánar hvernig þetta kemur út sem hér hefur verið frá skýrt í sambandi við skattlagningu og tekjuskerðingu ellilífeyrisþega í sambandi við það.
    Algengt er að lífeyrisgreiðslur til annars hjóna séu annaðhvort á bilinu 9 -- 33 þús. kr. eða á bilinu 33 -- 54 þús. kr. Á fyrrnefnda bilinu er heildarskattur gegnum lífeyrissjóði í jaðartilfellum 55% og á því síðarnefnda 73% að því gefnu að greiddur hafi verið skattur af svokallaðri inngreiðslu. Greiðsla til einstaklings er líklega á bilinu 13 -- 16 þús. eða 16 og allt til 58 þús. Á fyrrnefnda bilinu er heildarskattlagning með sömu forsendum og fyrr 67% og á því síðarnefnda 80%. Athygli vekur að jaðarskattur á lágar tekjur og meðaltekjur er hér mjög hár. Það er nú stundum kennt við jafnaðarmennsku að hafa háa jaðarskatta af háum tekjum, en ef maður gefur sér að svo sé, þá hlýtur hér að vera um mikla ójafnaðarmennsku að ræða gagnvart þeim sem eru á lægri tekjustigum.
    Af núverandi kerfi leiðir að lítill munur er á ráðstöfunartekjum þeirra sem greitt hafa í lífeyrissjóði og hinna sem ekki hafa greitt neitt. Rétt er að nefna þó hér í þessu sambandi að í ársbyrjun 1990 þegar kjarasamningar voru gerðir var ákveðið að hækka þau mörk þar sem tekjutrygging byrjar að skerðast. Mörkin voru síðan hækkuð lítillega í tveim áföngum, þ.e. 1. júlí 1990 og aftur þann 1. jan. í ár. En þetta kemur því miður ekki til með að breyta heildarniðurstöðunni neitt til muna fyrir ellilífeyrisþegana.
    Í stuttu máli mætti segja að samantekið er skattlagning á lífeyri umfram skattlagningu almennra launatekna þannig:
    1. Hlutur lífeyris er tvískattlagður með tekjuskatti.
    2. Tekjutrygging virkar eins og aukinn skattur.
    3. Greiddur er 2% skattur til umsjónarnefndar eftirlauna. Að vísu má segja að það sé skattur sem vinnuveitendur og launþegar hafi samið sjálfir um þannig að ríkið hefur ekki komið þar til skjalanna.
    Sú spurning hlýtur að vakna hverjar séu ástæður þess að málum er svo komið sem að framan er lýst. Tvær skýringar virðast einkum koma til álita.
    1. Þeir sem hafa tekið ákvarðanir um tekjuskatt annars vegar og tekjutryggingu hins vegar hafa ekki áttað sig á hver heildarniðurstaðan yrði. Þegar þeir gera sér grein fyrir ástandinu munu þeir væntanlega beita sér fyrir breytingum í samræmi við þá þáltill. sem hér er lögð fram.
    2. Stjórnvöld líta á iðgjaldagreiðslu til lífeyrissjóða sem skatt, enda ráðstafa þau meiri hlutanum af ráðstöfunarfé lífeyrissjóða. Því eigi það ekki að skipta máli hvort greitt hafi verið í lífeyrissjóð eða ekki að mati þeirra sem þannig hugsa.
    Það er í öllu falli ljóst að ríkisvaldið grefur undan starfsemi þeirra lífeyrissjóða sem það hefur skyldað með lögum til aðildar að. Þessu verður að breyta. Lífeyrissjóðir eru grundvallarforsenda nútíma ellilífeyristryggingakerfis samhliða örorkutryggingum og

maka - og barnalífeyristryggingum þar sem það á við. Í lýðfrjálsum þjóðfélögum eru lífeyrissjóðir jafnframt mikilvægasti peningasparnaðurinn í peninga - og fjármálakerfum viðkomandi þjóða. Þessi sparnaður er nýttur í þágu atvinnulífs og þess fólks sem myndar sjóðina, þ.e. sjóðfélaganna. Gott dæmi þess á Íslandi eru framlög lífeyrissjóðanna í þágu húsnæðismála. Það er eigi ofsagt þótt sagt sé að nú standi lífeyrissjóðirnir svo til 100% undir fjárframlögum til húsnæðismála á Íslandi. Hlutverk sjóðanna í uppbyggingu atvinnulífsins er að verða stöðugt þýðingarmeiri á Íslandi. Er það sambærilegt við það sem nú þekkist og á sér stað í háiðnvæddum þjóðfélögum, svo sem í Vestur - Evrópu, Norður - Ameríku og í Japan.
    Hlutverk hins háa Alþingis er að tryggja réttlæti. Aðförinni að sjóðfélögum lífeyrissjóðanna, ellilífeyrisþegum, verður að linna ef ekki á illt að hljótast af fyrir viðkomandi aðila og þjóðfélagið í heild.
    Virðulegi forseti. Að svo mæltu legg ég til að þessari þáltill. verði vísað til síðari umr. og félmn.