Skattaleg meðferð á lífeyrissparnaði
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil gleðjast yfir því að þetta mál skuli koma til hv. félmn. Þar mun ég hafa tækifæri til þess að fjalla um það. Hér er að mínu mati um afskaplega gott mál að ræða og ég vona að það fái það brautargengi hér í þingstörfum sem því ber. Skattlagning á þá sem síst skyldi er því miður allt of algeng í þessu þjóðfélagi og því ekki annað hægt heldur en að taka undir þegar verið er að bæta úr því óréttlæti að lífeyrisgreiðslur skuli vera tví - eða jafnvel þrískattaðar. En eins og ég tók fram í upphafi máls míns mun mér vonandi gefast kostur á að fjalla um þetta mál betur í nefnd og leggja þá mitt af mörkum til þess að það fái góða afgreiðslu hér þótt seint sé fram komið.