Byggðastofnun
Föstudaginn 01. mars 1991


     Skúli Alexandersson :
    Herra forseti. Umræða um þetta mál er nú komin ansi vítt. Það hefur verið rætt hér um stefnu borgarstjórnar Reykjavíkur og nú í lokin jafnvel farið út til Persaflóa. Það er ekkert óeðlilegt að einmitt umræða um þetta mál fari dálítið vítt vegna þess að það er eðlilegt við slíka umræðu, þ.e. umræðu um byggðaþróun og það sem henni tengist, geti menn látið sér detta ýmislegt í hug og hafi ýmislegt til viðmiðunar.
    Það frv. sem hér liggur fyrir er, eins og komið hefur fram, að vissu leyti afrakstur starfsemi tveggja nefnda. Í annarri þessari nefnd átti ég sæti undir forsæti okkar forseta, Jóns Helgasonar. Sú nefnd hélt 21 fund og formaður nefndarinnar gerði víðreist um landið og ræddi byggðamálin við mjög marga aðila. Í framhaldi af þeirri yfirferð var haldinn fjölmennur fundur í Borgarnesi þar sem fjallað var á mjög breiðum grundvelli um byggðamál.
    Ég tel að starf þessarar nefndar hafi ekki skilað eins miklu og vænst var út frá því sem henni var falið að gera. Nefndinni var sem sagt falið að gera tillögur um nýjar áherslur og langtímastefnu í byggðamálum. Þessir 21 fundur, sem ég hef hér nefnt, fóru fyrst og fremst til þess að ræða um slíkt. Ég segi ekki að 2 -- 3 síðustu fundirnir hafi verið beinlínis um það. Sá fundur sem ég nefndi í Borgarnesi var um byggðamál og sjálfsagt flestir þeir fundir sem formaður nefndarinnar hélt með ýmsum hagsmunaaðilum. En við komumst hreinlega að því að það var mjög erfitt fyrir nefnd eins og þessa að ætla að móta langtímastefnu í byggðamálum, jafnvel þótt nefndarmenn legðu sig alla fram í því að reyna að verða sammála um slíka stefnu. Við fundum nefnilega furðufljótt að það voru ákveðnir þættir í atvinnumálum og ýmsum öðrum málum sem ómögulegt var að ná samkomulagi um eða leggja ákveðnar línur í þannig að við gætum mótað þá langtímastefnu sem beðið var um.
    Ég get nefnt það t.d. að það var nefnt nokkrum sinnum á fundum í nefndinni að það væri tómt mál að tala um að ætla sér að móta byggðastefnu á Íslandi öðruvísi en hún væri tengd annarri sjávarútvegsstefnu, eða það mætti segja uppskurði á þeirri sjávarútvegsstefnu sem við búum við. Ég hugsa að ég hafi verið þar fremstur í flokki að benda á að það væri tilgangslaust í þeirri nefnd að fara að fjalla um það stóra mál. Við kæmumst ekkert langt með það sem okkur væri ætlað ef við ætluðum að gera það, þó að ég væri alveg sammála þessum grunnpunkti. Og vitaskuld voru þar fleiri mál, sem nefnd voru, eins og samgöngumál, landbúnaðarstefnan og fleira.
    Þegar nefndin gerði sér grein fyrir því, eða ég tel a.m.k. að það hafi verið grunnurinn undir því sem við skiluðum af okkur, að við næðum ekki utan um þetta verkefni sem okkur var falið, þá urðum við sammála um þá tillögu, sem hér liggur fyrir í frumvarpsformi, að við legðum það til að lögum um Byggðastofnun yrði breytt á þann máta að sú stofnun gæti innan lagaákvæða gert tillögu að stefnumótandi áætlun í byggðamálum og slík stefnumótun yrði síðan lögð fyrir Alþingi til staðfestingar. Ég held að þetta sé sá rammi sem er líklegastur til þess að skila árangri en hann er ekki að skila árangri í neinni áþreifanlegri mynd með því frv. sem hér til umræðu.
    Það er því mjög langt frá því að starf okkar hafi nálgast þau markmið sem okkur voru sett á annan máta að við erum að benda á aðra leið. Hún er að mínu mati líklegri til árangurs þar sem nú er ekki aðeins tekinn einn fulltrúi frá hverjum pólitískum flokki til þess að semja tillögu um þessa hluti, heldur er lagt til að slík tillaga yrði lögð fyrir Alþingi til samþykktar. Þannig að hin pólitísku öfl í landinu væru hinir raunverulegu aðilar sem stæðu að þessari tillögugerð. Fyrir einn fulltrúa pólitísks flokks í nefnd eins og þeirri sem hér er verið að ræða um er erfitt að nálgast flokkinn til ákvarðanatöku, til þess að skila áliti eins og hér var lagt til að nefndin gerði.
    Ég tel að þetta sé mikilsvert skref, ef sú tillaga sem hér liggur fyrir verður samþykkt, sem ég vænti, um að Alþingi fái og eigi að fjalla um stefnuna í byggðamálum með ákveðnu árabili. Þar verði ákvarðanir teknar og Alþingi komist ekki undan því að taka þær ákvarðanir sem þarf í þeim málum. Það verði ekki hægt hjá ríkisstjórn, eins og má kannski segja um þá ríkisstjórn sem nú situr, að hún kasti þessum vanda frá sér í hendur tveggja nefnda og þær eigi að koma með tillögurnar um það hvernig eigi að leysa málin. Hver ríkisstjórn, sem sest að völdum á Íslandi, verði með þingmeirihluta sínum að taka ábyrgð á því hver stefnan verði í byggðamálum í þetta eða hitt skiptið.
    Það má vissulega gera lítið úr þessum tillögum og að mörgu leyti hafa sjálfsagt tillögur af svipuðu formi og þessar verið lagðar fyrir hv. Alþingi áður. En ég held þó að bak við þessa tillögu um það að Alþingi fjalli um byggðaáætlanir sé meiri þungi en oftast áður. Og a.m.k. er það ekki í lögum að svo skuli vera gert en það er verið að koma því inn í lög með þessum tillögum.
    Til viðbótar við þetta, að mínu mati, aðalatriði tillagnanna eru í þeim útfærsluatriði um það hvernig Byggðastofnun skuli standa að atvinnuþróunarfélögum og svo verið að festa í lögum ákvæði um að Byggðastofnun skuli standa að kostnaði við atvinnuráðgjafa, þeir hafa verið kallaðir iðnráðgjafar hingað til, í öllum kjördæmum landsins. Ég tel þessi atriði þó nokkuð mikils verð, þó ég viðurkenni það á hinn veginn að í sjálfu sér höfum við ekkert í hendi þó þetta sé samþykkt.
    Hin nefndin, sem skipuð var af forsrh., hefur einnig skilað af sér áliti og tekið upp í sitt álit tillögur nefndar Jóns Helgasonar um breytingar á lögum um Byggðastofnun og er það vel. Þó að ég vilji ekki gera neinn samanburð á starfi þessara tveggja nefnda, þá finnst mér þó sumar af tillögum nefndarinnar, sem skipuð var af forsrh. til þess að fjalla um starfsemi Byggðastofnunar og fyrstu aðgerðir í byggðamálum undir forustu hv. þm. Stefáns Guðmundssonar, nokkuð lausar í reipunum. Hér er að sumu leyti verið að endurtaka margt af því sem áður hefur verið sagt um

þessi mál og meira sett upp í formi
óskhyggju um að þessir og þessir hlutir séu æskilegir en að verið sé að koma með tillögur um beinar aðgerðir eða samþykkt hér á hv. Alþingi í sambandi við lagabreytingar. Ég tel t.d. að sú góða setning sem er nr. 1 í tillögum um fyrstu aðgerðir í byggðamálum sé orðin ákaflega útþvæld, þ.e. að meira vald verði fært til héraða og samstarf sveitarfélaga aukið. Við erum búin að heyra þessa setningu ansi oft og það hefur lítið verið annað en þessi beina beiðni. Það sem kemur á eftir er að vissu leyti nokkur ábending um hvað skuli gera til þess að þetta vald verði til og um það tillaga að koma á fót héraðsmiðstöðvum í öllum kjördæmum á landsbyggðinni. Þetta er líka tillaga sem hefur heyrst oft en hún hefur stundum átt formælendur fáa vegna þess að þótt sett sé upp héraðsmiðstöð á einum stað í kjördæmi liggur ekki alltaf beint fyrir að það sé til hagsbóta fyrir allt kjördæmið. Það getur hreinlega verið á þann veg að það sé verið að breyta eðlilegri þjónustuuppbyggingu í því kjördæmi. Ég get hiklaust nefnt Vesturland í því dæmi og ég get líka nefnt Norðurland vestra. Að byggja upp eina þjónustumiðstöð í þeim kjördæmum fyndist mér vera spor aftur á bak. Hitt er að það sem þarf á að taka er að byggja upp þjónustu fyrir þessi svæði en ekki endilega binda það á þann máta að hún skuli sett á einn stað.
    Ég hef víst fyrr í ræðustól á hv. Alþingi haft eftir fyrrv. bæjarstjóra austan af landi, Bjarna Þórðarsyni, sem sagði: Vont er Reykjavíkurvaldið og jafnvel verra Akureyrarvaldið, en verst er Egilsstaðavaldið. Það getur verið þannig, ef verið er að byggja upp kjarna sem brýtur upp fyrri þjónustusvæði, að skaðinn fyrir byggðirnar geti orðið mikið meiri en ef allt er látið kyrrt liggja.
    Þriðji punkturinn er um að stefnumótandi áætlanagerð með virkri þátttöku heimamanna verði tekin upp á sviði byggðamála. Þetta er það sem við erum að leggja til með tillögum okkar um breytingu á lögum um Byggðastofnun. Þarf ég ekki að hafa fleiri orð um það.
    Svo kemur fjórði liðurinn: Meiri hluti nýrra starfa í opinberri þjónustu verði til á landsbyggðinni. Ég tek alveg undir þetta en það er nú svo að þótt meiri hluti fulltrúa hér á hv. Alþingi hafi verið þingmenn utan af landsbyggðinni þá hefur ekki tekist að snúa þessu á þennan veg. Meira að segja hefur þetta verið á þann veg í stofnunum, sem stjórnað er af þingmönnum utan af landsbyggðinni, að þeir hafa veitt sín atkvæði til þess að greiða atkvæði á móti flutningi stofnana, t.d. Byggðastofnunar. Þingmaður hér af þéttbýlissvæðinu, Geir Gunnarsson, flutti um það tillögu í stjórn Byggðastofnunar að aðalstöðvar hennar skyldu fluttar til Akureyrar. Tillagan var felld. Það er því hægt að setja upp óskir um að þessir hlutir skuli gerðir en það þarf þá að fylgja eitthvað meira en frómar óskir. Það þarf vilja með.
    Svo er það fimmti liðurinn: Að sveitarfélög verði sameinuð. Ég geri ráð fyrir að það sé meirihlutafylgi meðal þjóðarinnar um það að sameina sveitarfélög og

það hefur tekist mjög vel á sumum svæðum á landinu, m.a. í þeirri byggð þar sem formaður þeirrar nefndar sem ég hef nefnt hér áður, Jón Helgason, forseti þessarar deildar, á heima, þ.e. austurhluta Skaftafellssýslu vestri og víðar á landinu. Þarna er mjög góð þróun í gangi en því miður hafa alþingismenn ekki komist að niðurstöðu um hvernig þetta skuli gert. Hér kemur hæstv. félmrh. einmitt þegar verið er að tala um sameiningu sveitarfélaga og jafnvel þó ég viti að hæstv. ráðherra hefur áhuga á að sveitarfélögin verði stækkuð þá hef ég ekki orðið var við neitt frv. frá henni um breytingu á því hvernig eigi að stækka sveitarfélögin. Nú eru í lögum ákvæði um það að þau skuli ekki vera fámennari en 50 manns. Það hafa ekki komið tillögur um breytingar frá þeirri ríkisstjórn sem núna situr. Ég hef ekki orðið var við lagafrv. um það hér inni á hv. Alþingi, hæstv. ráðherra. Það má vel vera að það sé eins og fleira sem verið er að vinna í nefnd. En sú nefnd er ekki eins dugleg og nefndir þeirra hv. þm. Jóns Helgasonar og Stefáns Guðmundssonar og skilar ekki frá sér áliti, en á því hefði verið full þörf. Þannig að ekki sé verið að tala um að það þurfi að gera þetta og það þurfi að gera hitt án þess að á því sé á einn eða neinn máta tekið.
    Sjötta greinin er svo staðfesting á því sem er í lagafrv. um atvinnuþróunarfélög og atvinnuþróunarsjóði og sjöunda greinin um jöfnun raforkuverðs og sameiningu orkufyrirtækja. Því var lofað úr ræðustól rétt áðan að tillaga um það mál mundi verða lögð fyrir Alþingi. Þar er nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar að störfum og mun hv. 3. þm. Vesturl. vera formaður þeirrar nefndar.
    Það er kannski ekki rétt að vera beinlínis að gagnrýna þessar tillögur. Þær eru allar færðar fram af góðum hug og sjálfsagt ekki rétt að gagnrýna það þó nefndir séu þeir þættir sem a.m.k. stór hluti þjóðarinnar er ásáttur um að eigi að breytast þó að Alþingi hafi ekki haft kraft til þess að standa að því með lagabreytingum.
    Í áttunda og níunda kafla eru tillögur um það sem sjálfsagt er að taka undir og eðlilegt er að verði skoðað en ekki liggur nú margt á ljósu um það hvernig skuli breyta skipulagi ferðamála en sjálfsagt er þar mörgu hægt að breyta.
    Svo kemur níundi punkturinn: Byggðasjónarmiða verði gætt í almennri efnahagsstjórn. Undir þetta tek ég og það sem í þessari grein stendur um sjávarútveginn. En það er kannski ekki nóg að vera með sjávarútveginn einan innan þessa ramma. Það er ýmislegt fleira sem þarf að taka á. Ég held að þegar verið er að tala um efnahagsstjórn og ákveðnar aðgerðir stjórnvalda, þá þurfi að hafa fjármálastjórnina í sæmilegu standi ásamt því að taka á málum eins og þeim sem mikið hafa verið til umræðu á undanförnum missirum, þ.e. stóriðjumálunum, og ríkisstjórn að hafa dug til þess þegar verið er að úthluta þessum náttúruauðlindum, þ.e. orkunni okkar, þá sé það gert með byggðasjónarmið í huga. Ég tel að síðasta ákvörðun sem tekin hefur verið í þessu máli, ef maður getur kallað það ákvörðun um framkvæmd sem er einhvers

staðar úti í blámanum, um staðsetningu stóriðjuvers á Reykjanesi, hafi verið röng. Ef fram heldur í ákvarðanatökum á þann veg þá muni það ekki duga að breyta lögum um Byggðastofnun og það muni ekki duga að skipa nefndir hvorki um orkuverð eða í sambandi við framtíðarmarkmið í byggðamálum og þá snúist það áfram á þann veg, sem það hefur gert undanfarandi ár, að fólkið utan af landsbyggðinni flytji hingað á suðvesturhornið, jafnvel þó byggðar verði upp héraðsmiðstöðvar og stofnuð atvinnuþróunarfélög vítt og breitt á landinu. Það þarf að gera eitthvað mikið meira ef á að andæfa gegn þeirri þróun sem hlýtur að fara í gang í sambandi við uppbyggingu stóriðjuvers á suðvesturhorninu en það sem við lögðum til í þeirri nefnd sem ég sat í og þeirri nefnd sem hv. þm. Stefán Guðmundsson var formaður í.
    Í lokin er svo tillaga um breytingar á sveitarstjórnarlögum. Forsrh. hefur einhverra hluta vegna ekki lagt í að leggja þessa tillögu fram sem frv. Hann gæti heldur ekki gert það, það yrði líkast til að vera félmrh. sem gerði það. Þar í eru ákvæði sem mér finnst orka mjög tvímælis. Í fyrsta lagi það að öll sveitarfélög skuli vera aðilar að staðbundnum landshlutasamtökum sveitarfélaga, starfssvið þessara samtaka skal miða við núverandi kjördæmi. Eins og stendur eru flest sveitarfélög í héraðsnefndum. Kaupstaðirnir geta verið utan við, en það er lagarammi um héraðsnefndir. En að binda það í lögum, án þess að um þessi mál sé betur fjallað heldur en raun ber vitni, að það skuli stofna landshlutasamtök sveitarfélaga og starfssvæðið skuli vera kjördæmi. Ég tel vel athugandi að efla starfsemi héraðsnefndanna, enda er það þannig að héraðsnefndir ná yfir stærri svæði en eina sýslu, en að búa til allt að því fylkisþing tel ég orka tvímælis.
    Ég sé ekki í tillögunni að tekið sé fram hvernig kosið skuli í þessi landshlutasamtök. Aftur á móti er ákvæði um það hvernig svokölluð byggðastjórn skuli kosin eða hverjir skuli kjörgengir í hana. Það eru héraðsnefndarfulltrúar og varamenn. Það er búið að búa til margfalt fulltrúalýðræði, tröppugang niður á við frá því að hinn almenni þegn í kjördæmunum eða kjósandinn komist nálægt því að velja hverjir skuli vera í byggðastjórn. Fyrst skal kosið í hreppsnefnd, síðan skal kosið í héraðsnefnd, ekki er mér alveg ljóst hvernig skal kosið í landshlutasamtökin, en um leið og verið er að kjósa í héraðsnefnd þá skulu menn valdir í byggðastjórn. Það eru ekki aðrir kjörgengir til þessarar stofnunar en héraðsnefndarmenn. Mér finnst þetta svo fráleit hugmynd að ég held að það sé langt frá því að maður hefði getað látið sér detta þetta í hug að hún skyti upp kollinum á pappír núna síðustu ár. Þetta var aðeins til umræðu fyrir nokkrum árum en ég hélt að menn hefðu verið búnir að leggja svona kosningar alveg til hliðar fyrir löngu síðan.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég er búinn að tala hér þó nokkuð langt mál. En ég get ekki lokið máli mínu án þess að nefna þá umfjöllun sem hér fór fram um samskipti höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar. Mér finnst að sú umræða, að vissu leyti í upphafi hjá hæstv. starfandi forsrh. og þó sérstaklega hjá 3. þm. Vesturl., hafi ekki verið á þann veg sem æskilegt er. Ég tel að Reykvíkingar hafi sýnt það að þeir virði hag landsbyggðarinnar ekki síður en landsbyggðarmenn sjálfir. Það er búið að gera margar skoðanakannanir um afstöðu Reykvíkinga til byggðaþróunar og byggðauppbyggingar. Það hefur komið í ljós, sem menn vissu reyndar, að Reykvíkingar eru yfirleitt mjög hlynntir þeirri þróun. Að blanda stjórn borgarinnar inn í þessa umræðu finnst mér alveg fráleitt.
    Eins og ég sagði áðan hefur Alþingi á undanförnum árum verið að meiri hluta til skipað landsbyggðarmönnum. Hvernig stendur á því að þessi meiri hluti hefur ekki tekið á sig rögg gegn þessum vonda lýð frá Reykjavík og skipað málum öðruvísi á undanförnum árum? Þetta er ekki vegna þess. Ákvörðunartaka hér á Alþingi og víðar byggist fyrst og fremst á afstöðu hinna pólitísku flokka. Ekki hvort meiri hluti þeirra er búsettur í Reykjavík eða einhvers staðar annars staðar á landsbyggðinni. En það eru ýmsir aðrir hlutir sem við þyrftum kannski að skoða þegar við tölum um Reykjavíkurvald. Það er ýmiss konar vald hér í Reykjavík sem er óspart notað til þess að skerða stöðu landsbyggðar. Það eru til ýmiss konar samtök sem hiklaust eru notuð til þess að skerða þá stöðu sem við búum við úti á landsbyggðinni.
Aðalstuðningsafl hæstv. sitjandi forsrh., hæstv. sjútvrh., er Landssamband ísl. útvegsmanna. Hverju stjórnar það á Íslandi í dag? Það stjórnar þeirri fiskveiðistefnu sem við búum við í skjóli hæstv. núv. starfandi forsrh., sjútvrh. okkar. Og geta þessir menn sem vinna þannig, og ég segi og fullyrði, mjög óhagstætt gagnvart landsbyggðinni, komið hér upp í ræðustól og farið að býsnast yfir Reykvíkingum almennt, hugsunarhætti þeirra og forustu borgarstjórnarinnar? Nei, ég held að megi segja í þessum málum bæði við hv. 3. þm. Vesturl. og hæstv. starfandi forsrh., hæstv. sjútvrh.: Maður, líttu þér nær.