Byggðastofnun
Föstudaginn 01. mars 1991


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Herra forseti. Ég ætlaði ekki að lengja þessa annars ágætu umræðu. Ég stend við hvert orð sem ég sagði í minni ræðu og þarf hvorki hv. þm. Eið Guðnason eða Eyjólf Konráð Jónsson til að túlka þau orð. Það er með ólíkindum að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sagði í upphafi sinnar ræðu að það hafi nú ekki verið ástæða til þess að amast neitt við þessum orðum nema vegna þess að annar þingmaður kom hér og bætti þar ýmsu við. Það þýðir náttúrlega ekkert fyrir hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson að tala hér eins og forustumenn Reykjavíkurborgar hafi aldrei sagt annað en rétt og allt gott og þeir hafi viljað leggja allt af mörkum til að halda fólkinu úti á landi, eins og hann orðaði það. Ég skil ekki svona málflutning. Hann sakar mig um að ég sé að reyna að kveikja hér illindi. Það er svo langt í frá. Ég hef ekki vanið mig á að tala illa um Reykjavíkurborg. Ég tel hins vegar að það megi gagnrýna orð þessara manna eins og annarra. Þeir kveikja aldrei illindi, er það? ( Gripið fram í: Nei, nei.) Það kemur ekki fyrir. Þeir hafa aldrei kveikt nein illindi við landsbyggðina, aldrei komið fyrir. Hvað þá að þeir hafi kveikt einhver illindi í sínum eigin flokki, það hefur heldur aldrei komið fyrir. Þetta er undarlegt tal en ég skil það ósköp vel að þingmanninum líði illa við núverandi aðstæður og hef fyllstu samúð með honum.
    Ég vil ekki skipta mér af málefnum annarra flokka. Ég biðst undan því að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sé að túlka sjónarmið Framsfl. og ég bið hann líka að spara kosningaræður þangað til að því kemur á fundum með frambjóðendum og ætla ekki að fara út í þær ásakanir sem voru honum ekki sæmandi í garð Framsfl. Á sama hátt og honum var að sjálfsögðu ekki sæmandi að tala um lýðveldið Ísland, þjóðfélagið Ísland, sem Sovét-Ísland. Og halda því hér fram að verið væri að taka upp í meira og meira mæli þær aðferðir sem væri verið að leggja niður í Sovétríkjunum. ( Gripið fram í: Sagði Eykon það?) Hvers konar málflutningur er þetta? Er þetta maðurinn sem ætlar að skapa frið milli dreifbýlis og þéttbýlis, og sakar svo aðra um að stofna til illinda?
    Ég þarf að öðru leyti ekki að ræða þessi orð mín. Við þau stend ég. Ég hafði ekki skrifað þau niður. Þau munu birtast í þingtíðindum og þau standa fyrir sínu og ég þarf ekki túlkanir annarra á orðum mínum, allra síst í þeim tón sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson notaði hér. Ég vænti þess að það stafi af einhverjum óróleika sem hann á erfitt með að hemja hér í ræðustól.