Byggðastofnun
Föstudaginn 01. mars 1991


     Skúli Alexandersson :
    Herra forseti. Þessi umræða um byggðamál er komin út á dálítið sérstakan völl. Þar hefur fyrst og fremst verið umræða um afstöðu Reykvíkinga og afstöðu ákveðinna þingmanna til Reykjavíkur. Hv. 6. þm. Reykn. nefndi það í ræðu sinni að mikil þörf væri á því að sætta sjónarmið landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Ég fyrir mitt leyti tek ekki undir það að þar sé uppi einhver sérstök deila. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni veit ég ekki betur en þegar hafa farið fram skoðanakannanir um afstöðu fólks á höfuðborgarsvæðinu um hver væri afstaða þess til uppbyggingar á landsbyggðinni og jafnvel spurt: Á að láta eitthvað umfram út á landsbyggðina? Á að styrkja atvinnufyrirtæki úti á landsbyggðinni? Þá er meiri hluti fólks á þéttbýlissvæðinu hlynntur því að þannig skuli unnið. Þetta fólk þarf ekki að sætta við þá afstöðu sem við, sem eigum heima úti á landsbyggðinni, erum að biðja um að staðið verði að. Ég tel að það sé sátt milli fólksins á landsbyggðinni og fólksins hér á þéttbýlissvæðinu. En því miður getur þetta verið einhvers staðar inni í flokkum, að ákveðinn hluti af flokknum sem er að einhverju leyti tengdur þessu svæði, það er að tala um að þurfi að sætta sjónarmið, að menn séu á því að það þurfi að koma öðruvísi fram við landsbyggðina en almenningur í landinu vill.
    Ég tel þess vegna að sú umræða sem hér hefur farið fram, og sérstaklega þau stóru orð sem hv. 3. þm. Vesturl. hafði um afstöðu stjórnvalda í Reykjavík, hafi ekki átt heima í þessari umræðu. Þau áttu heima einhvers staðar annars staðar. Ég held og ég treysti því að forustumenn Reykjavíkur, hvort sem þeir verða úr Sjálfstfl. eða öðrum flokkum, geri sér grein fyrir að landið er ein heild og það þarf að byggja upp landið okkar allt, ekki endilega að hafa einhvern forgang hér á þéttbýlissvæðinu eða í kringum höfuðborgina.
    Ég vil svo segja um það sem hv. 6. þm. Reykn. sagði, að hér væru að koma stjfrv. og menn væru að gagnrýna þau, að ég tel það af hinu góða að þingmenn stjórnarinnar taki til umræðu þau stjfrv. sem eru til umfjöllunar. Ekki eingöngu með því að syngja þeim lof og dýrð heldur með því að benda á að það mætti kannski sums staðar gera eitthvað betur eða að það hefði stundum mátt gera eitthvað fyrr. Og er það ekki einmitt í þessu tilfelli að það hefði mátt gera einhverja hluti fyrr? Er það ekki staðreynd að við erum búnir að vera með meiri hluta hér á hv. Alþingi af landsbyggðarþingmönnum? Hvers vegna erum við þá að kvarta yfir því að einhverjir Reykvíkingar séu að hamla gegn þeirri þróun sem við óskum eftir að sé staðið að? Það er mesti misskilningur að neitt þannig sé uppi.
    Ég held að það sé ástæðulaust að orðlengja þetta mikið frekar. En þó get ég ekki á mér setið að nefna aðeins Reykjanes og stöðu mála á Reykjanesi. Við höfum öll tekið eftir því, og ekki ber ég á móti því sem þingmenn Reyknesinga segja, að þar standi atvinnulíf nokkuð höllum fæti. En það er ekki á öllu Reykjanesi sem betur fer. Ákveðinn hluti Reykjaness

hefur staðið af sér að meginhluta til þær sviptingar sem atvinnulega hafa gengið yfir Reykjanes. Þar á ég fyrst og fremst við Grindavík. Á því tímabili sem norður- og vesturhlutinn af Reykjanesi hefur verið í lægð hefur Grindavík verið að byggjast upp. Þess vegna tel ég ekki rétt af þingmönnum Reyknesinga að vera sýknt og heilagt að tala um að þeir hafi einhvern tímann verið settir út á kaldan kalka hjá Byggðastofnun. Það voru þá Grindvíkingar alveg eins og Keflvíkingar og Sandgerðingar. Þannig að sú uppsetning er því miður ekki að mínu mati sannleikanum samkvæm. Ég held að það sem hefur farið illa með Reykjanes sé nálægðin við herinn. Herinn gat boðið betri kjör en íslenskir atvinnuvegir og þess vegna fór sem fór á þeim hluta Reykjaness sem ég var að nefna áðan þar sem atvinnulífið, hið íslenska atvinnulíf hefur verið í lægð. Íslensku atvinnuvegirnir hafa ekki staðist samkeppni við stóra bróður uppi í heiðinni.