Byggðastofnun
Föstudaginn 01. mars 1991


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá orð. Mér finnst ástæða til að koma hér og þakka hv. 4. þm. Vesturl. fyrir hans skilning á þýðingu þess að það séu góðar sættir og jákvæð viðhorf landsbyggðar til höfuðborgar og öfugt. Hann staðfesti í raun og veru það sem ég var að segja. Þeir sem búa á suðvesturhorninu hafa mjög góðan skilning á því að það þarf að stuðla að góðri atvinnuuppbyggingu úti á landi alveg eins og hér á suðvesturhorninu. En það er því miður stundum þannig, þó hv. 4. þm. Vesturl. sé kannski ekki þannig stemmdur, að bæði þingmenn, því miður, og ýmsa ráðamenn úti á landsbyggðinni skortir þessi jákvæðu viðhorf til suðvesturhornsins. Ég held að við getum ekki borið á móti því. Ég býst við að hv. 4. þm. Vesturl. sé mér sammála í þessum efnum.
    Hann minntist á að ég hefði verið að gera athugasemdir við að þingmenn stjórnarliðsins væru að deila eða kæmu í ræðustól með fyrirvara um að þeir styddu ekki ýmis frv. sem stjórnin eða ráðherrar hennar væru að leggja fram sem stjfrv. Það hefur gengið svo langt að m.a.s. hafa ráðherrar orðið að leggja fram sín frv. í eigin nafni vegna þess að þeir hafa ekki náð þeim fram innan stjórnarliðsins. Lái hv. 4. þm. Vesturl. mér það þó ég veki athygli á þessari misklíð innan stjórnarheimilisins og erfiðleikum. Ég held að það mundu fleiri í sporum stjórnarandstæðings benda á slíkt, að þetta góða samkomulag sem alltaf er verið að tala um innan hæstv. ríkisstjórnar, sem er svo gott að hún vill halda áfram eftir kosningar, er kannski ekki eins glæsilegt í raun og menn vilja vera láta. Það endurspeglast fyrst og fremst í verkunum þegar menn eru að leggja fram frv., eins og ég sagði áðan og ég sný ekkert aftur með það, sem stjfrv. Síðan koma einstaka þingmenn og lýsa yfir að þeir vilji bara ekki ræða einstaka liði viðkomandi frumvarpa heldur hreinlega lýsa þeir því yfir að þeir ætli ekki að styðja frv. þó þeir séu stjórnarliðar. Þetta hefur margsinnis komið fram og hv. 4. þm. Vesturl. veit þetta vel og mun ekki andmæla þessu. Ég held að hann hljóti að hafa skilning á því að ég leyfi mér að benda á þennan veikleika innan þessarar sterku ríkisstjórnar, sem menn eru alltaf að tala um.
    Varðandi atvinnumálin á Suðurnesjum ætla ég að eftirláta hv. 4. þm. Reykn. þau því að það var þeirra á milli frekar. En ég er ekki viss um að sjávarútvegurinn sé svo nátengdur störfunum á Keflavíkurflugvelli, ég er hrædd um að það sé eitthvað annars eðlis og ástæðulaust sé að blanda því saman og þeim erfiðleikum sem eru í sjávarútveginum á Suðurnesjum.