Grunnskóli
Föstudaginn 01. mars 1991


     Frsm. 2. minni hl. menntmn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir er afar mikilvægt og snertir vafalaust flest heimili í landinu. Það er ljóst að grunnskólinn þarf að koma miklu meira til móts við kröfur í nútímaþjóðfélagi. Það er ekki einungis vegna þeirrar staðreyndar að útivinna beggja foreldra hefur aukist mjög mikið, heldur líka hitt, og það er mjög mikilvægt, að kröfur um betri menntun hafa aukist og það er viðurkennd staðreynd að almennt menntunarstig hverrar þjóðar um sig ræður miklu um lífskjör hennar.
    Þetta er ekki síst mikilvægt þegar litið er til þeirrar þróunar sem nú á sér stað í Evrópu og gera má ráð fyrir því að samkeppni um vel menntað fólk muni aukast mjög mikið í náinni framtíð. Þess vegna hljótum við að gera kröfu um almenna og vandaða menntun öllum til handa.
    Við sem erum fulltrúar sjálfstæðismanna í menntmn. þessarar hv. deildar erum því fullkomlega sammála því markmiði að skólinn eigi að vera einsetinn og skóladagurinn lengdur og samfelldur ásamt því að nemendum sé gefinn kostur á máltíðum í skólum. Þetta er í fullu samræmi við þau markmið sem sjálfstæðismenn hafa lagt mikla áherslu á undanfarin ár, enda lagt fram margar tillögur í þessa átt. Hins vegar verður engan veginn séð að ákvæði þessa frv. tryggi framgang þessa markmiðs vegna þess m.a. að sveitarfélögin leggjast gegn samþykkt frv. í óbreyttri mynd en þau eiga einmitt að bera kostnaðinn af framkvæmdinni samkvæmt nýrri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og eiga þar með að tryggja þessa þjónustu. Ég efast persónulega um það að þessi nýja verkaskipting sé í rauninni svo mikilvæg sem af var látið. Ég tel jafnvel að hún hafi vakið upp fleiri vandamál en menn sáu fyrir. Þannig er alveg ljóst að það eru allt aðrar forsendur gagnvart þjónustu stóru sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu heldur en í mörgum smáum sveitarfélögum á landsbyggðinni sem oft og tíðum hafa hreinlega ekki fjárhagslegt bolmagn til framkvæmda. Þessi verkaskipting er engu að síður staðreynd en þá hlýtur að vera brýnt að tryggja það að sveitarstjórnarmenn hafi áhrif á gang mála. Fyrirliggjandi frv. virðist ganga þvert á þetta sjónarmið. Og án samráðs við sveitarstjórnarmenn verður hreinlega ekkert úr framkvæmd þessara ákvæða sem við teljum þó einna mikilvægust í frv. Engin kostnaðaráætlun fylgir þessu frv. en við höfum hins vegar undir höndum tölur um áætlaðan kostnað sem skólaskrifstofa Reykjavíkur tók saman fyrir skólayfirvöld í Reykjavík sl. vor eða fyrir tæpu ári. Þar er einungis áætlaður byggingarkostnaður kennslustofa vegna einsetningar skóla og hámarksfjölda nemenda í 1. -- 3. bekk miðað við grunnskólafrv.
    Þess ber að geta að samkvæmt upplýsingum frá byggingardeild Reykjavíkurborgar kostar ein skólastofa 8 millj. en þá er innifalinn kostnaður við hluta af sameiginlegu rými, t.d. göngum og salernum. Fjöldi af stofum er fundinn út úr skólahaldsskýrslum menntmrn. og miðað er við 100% einsetningu. Á einum stað er vitnað í skýrslu Jóns Torfa Jónassonar um lengingu skóladags og einsetinn grunnskóla.
    Í Reykjavík er gert ráð fyrir því að kostnaður við almennar stofur vegna einsetningar sé um það bil 2 milljarðar 361 millj. kr. Þessi upphæð skiptist í þrennt. Með leyfi virðulegs forseta vil ég gera grein fyrir þeim töluliðum.
    1. Kostnaður við almennar stofur vegna einsetningar, 208 stofur á 8 millj. = 1 milljarður 664 millj.
    2. Kostnaður vegna 46. gr. um hámarksfjölda nemenda í 1. -- 3. bekk, 22 stofur á 8 millj. = 176 millj.
    3. Kostnaður við sérgreinastofur vegna einsetningar, (22 stofur, 4 íþróttasalir) 521 millj.
    Í öðru lagi er fjallað um tölur utan Reykjavíkur og í þremur töluliðum:
    1. Kostnaður við almennar stofur vegna einsetningar, 427 stofur, sbr. skýrslu Jóns Torfa Jónassonar, á 8 millj. = 3 milljarðar 416 millj.
    2. Kostnaður vegna 46. gr. um hámarksfjölda nemenda í 1. -- 3. bekk, 40 stofur á 8 millj. = 320 millj.
    3. Áætlaður kostnaður við sérgreinastofur vegna einsetningar ca. 1 milljarður 200 millj.
    Þessar þrjár tölur eru þá samtals 4 milljarðar 936 millj. eða samtals þessar tölur fyrir Reykjavík og landsbyggðina 7 milljarðar 297 millj., þ.e. upphæð sem er á áttunda milljarð.
    Þessar tölur fjalla einungis um einsetningu skóla. Þær taka ekki á fjölmörgum öðrum kostnaðarliðum samkvæmt frumvarpinu gagnvart sveitarfélögum og það liggur ekki ljóst fyrir heldur hver útgjöld ríkisins verða. Þá er með öllu óljóst hver kostnaður verður við skólamáltíðir. Ef t.d. verður gert ráð fyrir mötuneytum í skólum, þá er ljóst að stofnkostnaður fyrir sveitarfélögin verður gífurlegur. Formaður menntmn., hv. þm. Ragnar Arnalds, lýsti því nýlega yfir í sjónvarpsviðtali, ef ég man rétt, að enginn vissi í raun og veru hver kostnaður yrði af þessu frumvarpi. Finnst mönnum þetta hægt? Jafnvel þótt erfitt geti verið að reikna út nákvæman kostnað, þá hlýtur að vera hægt að áætla hann að mestu leyti. Þessi vinnubrögð geta ekki talist viðunandi, ekki síst með tilliti til þess að sýna þarf fyllstu aðgát í útgjöldum hins opinbera.
    Það er enn fremur skoðun okkar Ragnhildar Helgadóttur að ekki sé gengið nógu langt í þessu frv. eins og vera þyrfti og við erum að því leyti sammála sjónarmiðum Kvennalistans. Það er einnig okkar skoðun að nýtt grunnskólafrv. sé það mikilvægt fyrir þjóðfélagið að það beri að setja á forgangslista stjórnvalda. Ég mun fyrir mitt leyti reyna að stuðla að því ef Sjálfstfl. á aðild að næstu ríkisstjórn og ef ég verð í aðstöðu til þess. En til þess að svo megi verða þarf að vinna þetta frv. upp á nýtt og gera framkvæmdaáætlun í nánu samráði við sveitarfélögin. Þannig verður þessu máli best tryggður framgangur.
    Hæstv. forseti. Ég mun hér á eftir gera grein fyrir nál. okkar Ragnhildar Helgadóttur. Í því gagnrýnum við vinnubrögð í menntmn. þar sem frv. var afgreitt út úr nefndinni þrátt fyrir það að mikil efnisleg vinna væri eftir að okkar mati. Sem dæmi um þessa fljótaskrift má nefna það að ekki gafst tími til viðræðna við fulltrúa heilbr. - og trmrn. sem þó var boðaður á fund nefndarinnar og hafði mikilvægar athugasemdir fram að færa. Varð hann að grípa til þess ráðs að senda nefndarmönnum ítarlegt bréf, dags. 27. febr. sl., þar sem mikilvægar athugasemdir komu fram um þau ákvæði frv. er snerta heilsugæslu í skólum. Þess má einnig geta að enginn fulltrúi stjórnarflokkanna mætti á þennan fund heldur einungis þrír þingmenn stjórnarandstöðunnar sem gerðu formanninum kleift að halda lögmætan fund.
    Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 722 frá 2. minni hl. menntmn. um frv. til laga um grunnskóla, með leyfi virðulegs forseta.
    ,,Frv. var afgreitt til nefndarinnar 4. des. 1990 en var tekið fyrst fyrir til umfjöllunar 11. febr. 1991. Síðan var það rætt stuttlega á tveimur fundum en skyndilega afgreitt úr nefndinni 20. febr. sl., þrátt fyrir bókuð andmæli fulltrúa sjálfstæðismanna.
     Við hljótum að lýsa furðu okkar á slíkum vinnubrögðum þar sem að okkar mati var eftir mikil efnisleg vinna við frv. því að hér er um mjög yfirgripsmikið mál að ræða og afar mikilvægt á þjóðfélagslega vísu. Með því að málsmeðferð er með þessum hætti gerir ríkisstjórnin greinilega ekki ráð fyrir samráði við ákveðna stjórnmálaflokka. Slíkt hlýtur að renna stoðum undir þann grun að ríkisstjórnin, og þá einkum menntmrh., hafi takmarkaðan áhuga á raunverulegum framgangi þessa máls en markmiðið sé öllu fremur að koma frv. til endanlegrar afgreiðslu fyrir þinglok sem nú eru mjög skammt undan, enda alþingiskosningar á næsta leiti.
     Sjálfstæði skóla er ein aðalforsenda þess að hinu innra starfi þeirra verði sinnt með þeim hætti sem aðalnámsskrá grunnskóla og krafa samtímans gera ráð fyrir. Með tilliti til þessarar staðreyndar og ekki síður með tilliti til laga nr. 87/1989, um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, hefði mátt ætla að við gerð nýs grunnskólafrv. yrði fyrst og fremst tekið mið af þessu og kappkostað að draga sem mest úr miðstýringu í skólakerfinu, færa grunnskólamálefnin enn frekar til sveitarfélaganna og einfalda þannig málsmeðferð og ákvarðanatökur í því augnamiði að styrkja og efla stjórn einstakra skóla. En svo er því miður ekki háttað í fyrirliggjandi grunnskólafrv. Að vísu segir í athugasemdum með frv. að eitt aðaleinkenni þess sé valddreifing en annað kemur í ljós þegar grannt er skoðað. Valddreifingin svokallaða virðist þannig fyrst og fremst vera fólgin í því að færa verkefni frá aðalskrifstofu menntmrn. til fræðsluskrifstofa. Nú vita allir sem vilja vita að hlutverk fræðsluskrifstofa breyttist með lögum nr. 87/1989 og eru þær nú hreinlega útibú frá ráðuneyti. Það getur því naumast talist valddreifing að færa verkefni frá einni skrifstofu ráðuneytisins til annarrar.
    Á það bera að leggja áherslu að skólastjórnendur og kennarar hafa í flestum tilvikum besta þekkingu á því hvaða leiðir ber að fara í skólastarfi. Meginhlutverk menntmrn. á að vera að leggja stjórnendum og kennurum til upplýsingar en ekki að stjórna störfum

þeirra. Ráðuneytið á fyrst og fremst að tengjast heildarstefnumótun og eftirlitshlutverki, enda í samræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað á Norðurlöndum. Fyrirliggjandi frv. er ekki í samræmi við þessi sjónarmið.
    Í frv. er gert ráð fyrir því að vikulegur kennslutími 6 -- 8 ára nemenda sé lengdur úr 22 stundum í 25. Hins vegar er ekki kveðið nákvæmlega á um skiptistundir fyrir þennan aldurshóp í frv. en það er nauðsynlegt til þess að unnt hefði verið að leggja kapp á skapandi starf ef ætlunin væri að lengja daglega skólaveru yngstu barnanna. Þá kemur það mjög á óvart að kennslustundamagnið í heild skuli minnkað fyrir 2. -- 10. bekk samkvæmt frv. miðað við núgildandi lög, þrátt fyrir verulega aukinn kostnað.
    Í fyrirliggjandi frv. virðist valdsvið skólastjóra skert og ekki er kveðið nægilega skýrt á um áhrif foreldra. Dregið er úr frelsi nemenda og kennara til að velja námsgögn og ákvæði frv. um einkaskóla og skólagjöld eru allt of fortakslaus. Framkvæmd þessa ákvæðis gæti komið alfarið í veg fyrir starfsemi einkaskóla. Grunnskólafrv. fylgir engin kostnaðaráætlun en ætla má að með því séu sveitarfélögunum lagðar verulegar fjárhagsbyrðar á herðar sem nemi jafnvel 7 -- 8 milljörðum kr.
    Hér hafa verið nefnd nokkur þeirra atriða sem verulega þýðingu hafa og ekki hefur verið tekið tillit til við afgreiðslu frv. Það er enn fremur ljóst að frv. þarf að taka miklu skýrar á öllu samráði við sveitarfélögin því að án samráðs við þau er hæpið að nokkuð verði úr þeim framkvæmdum sem fyrirliggjandi frv. gerir ráð fyrir. Löggjafarvaldið hlýtur að verða að taka mið af því hvort lagasetning, eins og sú sem hér er gert ráð fyrir, hafi í raun áhrif til breyttrar og bættrar réttarstöðu.
    Undirritaðir nefndarmenn hafa það miklar athugasemdir að gera við frv. að útilokað er að standa að afgreiðslu þess nú. Því er það tillaga okkar að máli þessu sé vísað til ríkisstjórnarinnar sem taki frv. í heild sinni til endurskoðunar.``
    Hæstv. forseti. Ég mun nú gera grein fyrir ýmsum þeim athugasemdum sem við Ragnhildur Helgadóttir höfum fram að færa við fyrirliggjandi frv. en ekki reyndist unnt að koma á framfæri í hv. menntmn. Enn fremur er vitnað í ýmsar umsagnir um frv. eftir því sem við á. Hér er um nokkuð langt mál að ræða, en það er nauðsynlegt að okkar mati þar sem gerð er tillaga um það að þessu frv. verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar.
    Með tilliti til laga nr. 87/1989, um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, laga nr. 8/1986, um sveitarstjórnarmál, og lýðræðishugsjónarinnar og þróunar hennar síðustu missiri er fyrirliggjandi frv. til laga um grunnskóla verulega aðfinnsluvert. Aðfinnsluverðust er sú forræðishyggja gagnvart sveitarfélögunum sem gengur eins og rauður þráður gegnum frv. Raunar má segja að frumvarpstextinn bókstaflega stangist á við ýmis ákvæði áður tilvitnaðra laga og jafnvel að ákvæði frumvarpstextans stangist á innbyrðis.
    Í því sambandi má benda á ákvæði 1. mgr. 9. gr.

frv. þar sem segir að menntmrn. fari með yfirstjórn þeirra málefna sem lög þessi, þ.e. frumvarpstextinn, taki til. Því má ætla að rökrétt sé að álykta að í frv. sé hvergi kveðið á um neitt það sem alfarið er mál sveitarfélaga. Þessu er hins vegar á annan veg farið þegar frumvarpstextinn er skoðaður.
    Í 3. gr. frv. er kveðið á um að stefnt skuli að heildstæðum og einsetnum grunnskóla þrátt fyrir ákvæði laga nr. 87/1989, þar sem sveitarfélögum er alfarið falinn rekstur grunnskóla.
    Í 4. gr. frv. er hlutast til um skólaakstur sem er alfarið mál sveitarfélaga.
    Í 12. og 13. gr. frv. er kveðið á um fræðsluráð sem samstarfsvettvang sveitarfélaga í fræðsluumdæmi og meira að segja tiltekið að fræðslustjóri, sem er starfsmaður menntmrn., skuli vera formaður þess. Að vísu hefur meiri hl. menntmn. komið nokkuð til móts við þessi sjónarmið í brtt. varðandi 12. og 13. gr.
    Í 2. mgr. 17. gr. er sveitarfélögum með 10 þús. íbúum og fleiri gert skylt að skipta sveitarfélaginu í fleiri en eitt skólahverfi, sem hlýtur að stríða gegn ákvæðum laga nr. 80/1986, um sveitarstjórnir, og sbr. einnig ákvæði 18. gr. frv. um skólanefndir. Mörg fleiri ákvæði frv. má tiltaka þar sem forræðishyggjan endurspeglast.
    Þótt frv. sé að sumu leyti staðfesting á þeirri þróun sem þegar er orðin í skólamálum og ýmis breytingarákvæði þess því sjálfsögð, geta önnur ákvæði þess, ef að lögum yrðu, beinlínis staðið í vegi fyrir frekari skólaþróun, einkum þau er lúta að þætti sveitarfélaganna og daglegri stjórn grunnskólans. Því ber að hafna fram komnu frv. en hefja þess í stað vinnu við gerð frv. sem hafi það að meginmarkmiði að draga úr miðstýringu í skólakerfinu, einfalda meðferð mála og ákvarðanatöku og marka hverri stjórnsýslueiningu ákveðinn ramma og hlutverk innan skólakerfisins svo að grunnskólinn megi verða sem sjálfstæðastur og þjóna þannig betur en ella nemendum og foreldrum þeirra. Þá yrði þróun skólamála hérlendis í takt við það sem nú er að gerast í hinum vestræna heimi í þessum málaflokki.
    Í þessu sambandi má vitna til ræðu fyrrv. hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar, en hann sagði m.a. í ræðu sinni varðandi þetta frv. í nóvember sl., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Ég vitnaði í, þegar við töluðum um þetta hér í vor, nýjar breytingar sem hafa verið gerðar í Danmörku, og reyndar skilst mér að svipaðar breytingar hafi verið gerðar í Svíþjóð núna ekki alls fyrir löngu, þar sem ráðuneytinu er ætlað það eitt að hafa eftirlit, gefa út reglugerðir, gefa út viðmiðunarstundaskrár og annað þess háttar, en sveitarfélögin taka síðan alfarið yfir rekstur skólanna. Og ekki nóg með það, heldur taka sveitarfélögin yfir launasamninga við kennarana sem ég held að sé mjög mikilvægt mál einnig.``
    Umsagnir um þetta frv. frá sveitarstjórnarmönnum hníga allar í þessa átt. Þannig segir í lok umsagnar frá Sambandi ísl. sveitarfélaga:
    ,,Stjórnin getur ekki mælt með frv. í óbreyttri mynd þar sem mörg ákvæði þess eru í andstöðu við nýsamþykkt verkaskiptalög sem auka áttu sjálfsforræði sveitarfélaga. Í núverandi mynd dregur frv. úr ákvörðunarvaldi sveitarfélaga og skerðir sjálfsforræði þeirra í skólamálum.``
    Hvorki skólamálaráð né fræðsluráð Reykjavíkur geta mælt með samþykkt frv. Þannig segir m.a. í umsögn þeirra:
    ,,Íslenski grunnskólinn er nú í mörgu steinrunninn og úr takt við það mannlíf er nú er á Íslandi. Víða þarf að taka til hendinni. Hið nýja grunnskólafrv. virðist að mati fræðsluráðs og skólamálaráðs færa sumt til betri vegar frá því sem nú er, t.d. áætlun um lengingu skóladags hjá yngri nemendum. Samt eru margir þættir sem valda áhyggjum því frv. breytir litlu í veigamiklum atriðum, svo sem þeim að skapa skólum svigrúm og aðstæður til þess að þroskast og þróast hver á sína vísu í því umhverfi sem þeir starfa. Til þess að svo megi verða er yfirstjórn og samvinna ríkis og sveitarfélaga á þeim vettvangi ekki vænleg til að skapa þær aðstæður sem þarf til þess að skólastarf geti blómstrað.``
    Og í lok umsagnar beggja aðila segir að með vísan til framanritaðs og annarra athugasemda sé ekki hægt að mæla með samþykkt frv.
    Skólaskrifstofa Reykjavíkur tekur undir þessi sjónarmið og segir í lok umsagnar:
    ,,Í frv. þessu er sú stefna áberandi að dregið skuli svo sem unnt er úr möguleikum heimamanna til áhrifa á starfsemi grunnskóla framvegis. En að sama skapi eru völd menntmrn. treyst, t.d. með mjög rúmum heimildum til setningar reglugerða um allt er framkvæmd laganna snertir, sbr. 84. gr., svo og til afskipta sem ríkið ekki lengur er aðili að, svo sem bygging, nafngift og búnaður skóla, sbr. 27. gr. og 83. gr. frv.
    Þá verður að benda á 18. gr. þar sem talin eru verkefni skólanefnda, en þau sýnast heldur mögur orðin. Ekki er mælt með samþykkt frv. þessa óbreytts.``
    Fjölmargar athugasemdir voru gerðar af umsagnaraðilum. Kennarasamband Íslands varar við því að mörg sveitarfélög eigi erfitt með að veita þá þjónustu sem uppfyllir fyllstu kröfur um skólastörf í nútímaþjóðfélagi og bendir á þörfina á því að þessum sveitarfélögum verði tryggðar fjárveitingar til skólahalds. Þetta er að sjálfsögðu sjónarmið sem hafa þarf í huga til þess að hægt verði að tryggja grunnskólanemum um land allt góða þjónustu.
    Um þetta segir m.a. í umsögn skólamálaráðs og fræðsluráðs Reykjavíkur:
    ,,Dreifing fjármagns frá ríki til grunnskóla fer nú eftir heildarfjölda nemenda í skólahverfi. Með sama hætti gæti verið unnt að skipuleggja beinar greiðslur áfram til sveitarfélaga í hlutfalli við heildarfjölda nemenda. Um leið væri unnt að taka tillit til sérstöðu smærri byggðarlaga og umbuna fyrir aukið samstarf þeirra á milli. Með þessum hætti skapast grundvöllur fyrir aukið fjárhagslegt sjálfstæði skólanna sem er eftirsóknarvert. Einnig er rétt að benda á að samskipti íbúa á hverjum stað eru mun greiðari við sveitarstjórn en ríkisstjórn. Líklegt er að þjónusta og uppbygging

skólastarfs í sveitarfélögum verði fremur í samræmi við áherslur íbúanna ef yfirstjórn grunnskólanna væri í þeirra höndum í stað þess að hafa allt undir hatti ríkisins.``
    10. gr. frv., um samstarfsnefnd menntmrn. og Sambands ísl. sveitarfélaga, felur í sér nýmæli og er til bóta frá fyrra frv. en ákvæði hennar eru þó allt of opin, enda segir í umsögn Kennaraháskóla Íslands um þetta, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Vissar efasemdir eru um hvort sú verkaskipting sem í gildi er milli ríkis og sveitarfélaga varðandi grunnskóla þjóni hagsmunum nemenda. Ljóst er að miklu varðar að gott samstarf takist á milli þessara aðila þar sem skilið hefur verið milli faglegrar og fjármálalegrar ábyrgðar. Því er brýnt að reyna að búa svo um hnútana að samstarfið verði árangursríkt. Vafasamt er að ákvæði 10. gr. frv. tryggi að svo verði.``
    Enn fremur er bent á það að valddreifing sú sem frv. eigi að kveða á um sé afar takmörkuð. --- Á þetta atriði benda einmitt margir umsagnaraðilar.
    Áður en lengra er haldið og rætt um einstakar greinar frv. þykir mér rétt að geta þess að fyrrv. hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson, sem ég vitnaði til hér áðan, hefur áður komið á framfæri athugasemdum um nýtt grunnskólafrv. á síðasta þingi, nánar tiltekið í apríl á síðasta ári, svo sem sjá má í Alþingistíðindum, þar sem hann hafði margar alvarlegar athugasemdir fram að færa. Ekki verður séð að komið hafi verið til móts við þær athugasemdir nema að afar takmörkuðu leyti, enda þótt fyrirliggjandi frv. hafi að einhverju leyti verið breytt og þá vafalaust að sumu leyti til bóta. Birgir Ísleifur tjáði sig um þetta frv. sem hér er til umræðu í þingræðu þann 27. nóv. sl., þar sem hann rifjaði m.a. upp tillögur sjálfstæðismanna í þessum efnum, en hann segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Ég vil þó áður en ég ræði um það [þ.e. grunnskólafrv.] víkja að því að á vegum Sjálfstfl. hafa verið fluttar hér á Alþingi á þessu kjörtímabili allmargar brtt. við grunnskólalögin. Innan Sjálfstfl. hefur farið fram mjög mikið starf í sambandi við skólamál. Ég minni í því sambandi á samþykktir landsfundar flokksins bæði árið 1987 og 1989. Sem angi af því þá var mjög mikilvægt starf unnið í þessum efnum á vegum sérstakrar nefndar sem Þorsteinn Pálsson, hv. 1. þm. Suðurl., skipaði þegar hann var forsrh. Sú nefnd hét Samstarfsnefnd ráðuneyta um fjölskyldumál og átti að vinna tillögur í samræmi við ítarlegan kafla í málefnasamningi þeirrar ríkisstjórnar um málefni fjölskyldunnar. Formaður þeirrar nefndar var Inga Jóna Þórðardóttir. Nefndin skilaði áfangaskýrslu um skóla- og dagvistarmál. En þegar sú ríkisstjórn sem nú situr tók við völdum var þessi nefnd lögð niður og hefur verið unnið að þessum málum með öðrum hætti síðan. En frá því þessi skýrsla var gefin út hafa þingmenn Sjálfstfl. flutt frumvörp og tillögur um málefni grunnskólans sem eru byggð á þessu nefndaráliti.
    Helstu atriðin í tillögum sjálfstæðismanna eru eftirfarandi:

    1. Skólaskylda sex ára barna, en um hana voru samþykkt sérstök lög hér á Alþingi á sl. vori, í fullu samkomulagi allra flokka, og var frv. um það sérstaklega flutt af menntmn. neðri deildar.
    2. Lenging daglegrar skólavistar.
    3. Almenn heimild til forskóla fyrir fimm ára börn.
    4. Nákvæmari ákvæði um einkaskóla.
    5. Aukin samvinna foreldra og skóla.
    6. Níu mánaða skóli hjá öllum og samfelldur skóladagur.``
    Ég vík þá að einstökum greinum frv. en þær athugasemdir geta þó vart orðið tæmandi því að hér er um mjög yfirgripsmikið mál að ræða.
    2. gr. frv. fjallar um hlutverk grunnskólans. Það er spurning hvort hér þurfi ekki að móta skýrari stefnu en greinin felur í sér. Um þessa grein frv. segir í umsögn frá kennslumálanefnd Háskóla Íslands, með leyfi virðulegs forsta:
    ,,Þótt liðin séu 16 ár síðan grunnskólalög tóku gildi er enn óljóst hvernig fylgja skuli fram ákvæðum þessarar greinar um að stuðla að þroska og menntun hvers nemanda um sig. Æskilegt er að stjónvöld móti um þetta skýrari stefnu og leggi niður fyrir sér hvaða aðstöðu þurfi að skapa skólunum til að sinna þessu markmiði með skipulegri hætti en nú er gert.`` Og ég ítreka: ,,hvaða aðstöðu þurfi að skapa skólunum``.
    2. mgr. 3. gr. kveður á um það að stefnt skuli að því að hver grunnskóli sé heildstæður og einsetinn. Hver eru meginrökin fyrir heildstæðum skóla? Engar rannsóknir hafa verið gerðar sem sýna fram á að sú menntun sem nemendur hljóti í heildstæðum skóla sé betri eða meiri. Skólar sem ekki eru heildstæðir hafa gjarnan sérhæft sig í kennslu tiltekinna aldurshópa, svo sem Ísaksskóli, Hagaskóli og Tjarnarskóli. Er það ekki bara gott mál að hafa skólagerðirnar sem fjölbreytilegastar?
    Varðandi einsetinn skóla þá er það gott markmið í sjálfu sér en spurningin er bara hversu raunhæft það er miðað við fyrirliggjandi frv. Einhverjum gæti fundist það sóun á fjármagni að byggja eina skólastofu fyrir hvern bekk og hafa svo stofurnar eingöngu nýttar 23 -- 35 kennslustundir á viku. Skóladagur hvers nemanda getur verið samfelldur og í fullu samræmi við viðmiðunarstundaskrá þrátt fyrir að skólinn sé tvísetinn. Ef ná á fram þessu markmiði um einsetinn skóla þá þarf að lengja skóladaginn enn meira en gert er ráð fyrir og þá er spurning hvort ekki vanti hreinlega framkvæmdaáætlun við þessa grein eins og Kennarasamband Íslands raunar bendir á. Þetta er mjög mikilvægt og í samræmi við athugasemdir frv. um einsetinn skóla sem segir að nútímaþjóðfélag kalli á slíkt fyrirkomulag bæði til þess að unnt sé að sinna ýmiss konar námi og starfi í skólunum sem ekki gefst ráðrúm til nú og einnig vegna þátttöku beggja foreldra í atvinnulífinu. Þá er líka rétt að skólamáltíðir ættu að skoðast í þessu samhengi. Því að hvernig svo sem þeim verður best fyrir komið þá verður ekki litið fram hjá því sjónarmiði sem fram kemur í athugasemdum með brtt. meiri hl. menntmn. þess efnis að skólar verði að einhverju marki að taka á sig þennan hluta

umönnunar barna vegna breyttra aðstæðna á heimilum og í atvinnulífinu.
    Á bls. 18 í frv. eru ákvæði til bráðabirgða. Þar segir m.a.:
    ,,Stefnt skal að því að ákvæði 3. gr. um einsetinn skóla komi að fullu til framkvæmda á næstu 10 árum frá gildistöku laganna samkvæmt áætlun sem unnin yrði í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Jafnframt verði á því árabili jafnt og þétt aukið við kennslutíma grunnskólanemenda að því marki að í lok tímabilsins verði vikulegur stundafjöldi allra nemenda 35 stundir, skóladagur samfelldur og nemendur eigi kost á skólamáltíðum.``
    Þetta eru vissulega fögur fyrirheit. En eru sveitarfélögin tilbúin til samstarfs? Varla miðað við það sem fyrr er rakið. Í þessu sambandi er athyglisvert að skoða ummæli fræðslustjórans í Austurlandsumdæmi, en í umsögn hans segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Ég vek sérstaka athygli á ákvæðinu um einsetinn skóla. Hér er vissulega um merkilegt mál að ræða sem hefur verið á dagskrá skólamanna í áratugi og er á stefnuskrá allra stjórnmálaflokka. En ekki er allt sem sýnist. Meginþungi af þeim gífurlega kostnaði sem af þessari framkvæmd leiddi skylli fyrst og fremst á sveitarfélögum. Þau standa ekki undir þeirri byrði án aðstoðar. Því er það óhjákvæmilegt að Alþingi hlaupi hér undir bagga með fastmótaðri áætlun um árlegan fjárstyrk til þeirra sveitarfélaga sem höllustum fæti standa í þessum efnum. ( Menntmrh.: Er þingmaðurinn sammála því?) Aðstaða þeirra er mjög misjöfn. Einsetinn skóli er í reynd í mörgum minni skólum með daglegum akstri. Svo er einnig í heimavistarskólum. Hér mun þéttbýli, þorp, kauptún og kaupstaðir, þurfa á mestri aðstoð að halda.``
    Um 4. gr. frv. er það spurning hvort aðild fræðslustjóra að ákvörðun sé eðlileg þar sem hér er um að ræða skipulagsmál varðandi rekstur skóla sem kostaður er alfarið af sveitarstjórn.
    Í 6. gr. er fjallað um skólasókn en þar virðist dregið nokkuð úr valdi skólastjóra.
    9. gr. fjallar um grunnskólaráð sem á að vera samstarfsvettvangur menntmrn. og annarra aðila er starfa að málefnum grunnskólans. Það er með öllu óljóst hvernig þetta ráð á að geta sinnt öllum þessum verkefnum og spurningin er hvort hér sé stefnt að einhvers konar stofnun eða bákni.
    Um 10. gr. hefur áður verið rætt, eins um 12. og 13. gr., en ákvæði þeirra voru mjög gagnrýnd m.a. af sveitarstjórnarmönnum, ekki síst það atriði að fræðslustjóri skuli vera formaður fræðsluráðs.
    Í 17. gr. er skylda að fjölmennari sveitarfélögum sé skipt í skólahverfi. Um þetta segir m.a. í umsögn frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Ákvæði um skiptingu sveitarfélaga í skólahverfi á að sjálfsögðu að vera heimildarákvæði og í valdi sveitarstjórna. Ákvæðið á við fjögur sveitarfélög. Vafasamt er gildi þess að skipa tvær skólanefndir í Kópavogi, Hafnarfirði og á Akureyri. Í Reykjavík

hlýtur fjöldi skólahverfa og íbúafjöldi í þeim að vera ákveðinn af borgaryfirvöldum.``
    Í 18. gr. frv. er fjallað um starfs- og valdsvið skólanefnda. Í athugasemdum frv. með þessu ákvæði segir orðrétt:
    ,,Í frv. eru dregnar þær meginlínur að skólanefndir sjái fyrst og fremst um mál sem lúta að húsnæði og búnaði grunnskóla en innra starf skólanna, nám og kennsla sé einkum á valdsviði fræðsluskrifstofa.``
    Þetta fyrirkomulag þykir vægast sagt mjög aðfinnsluvert þar sem réttara þykir að kjörnir fulltrúar íbúa sveitarfélaga eigi meiri aðild að stjórnun á rekstri skólanna en hér er gert ráð fyrir. Á þetta er bent í því nefndaráliti sem hér er til umræðu, þ.e. um verkefni fræðsluskrifstofa. Þetta er engin valddreifing, eins og frv. þó boðar. Þessi miðstýring frá ráðuneytinu kemur einnig fram t.d. í 16. gr. og 36. gr. frv.
    Í 20. gr. er fjallað um skólastjóra og staðfest ábyrgð í starfi sem er gott mál. Þess vegna vekur það furðu að í öðrum ákvæðum er dregið úr þessari ábyrgð, t.d. í 38. gr. þar sem skólastjóra er uppálagt að hafa sérstakt samráð við kennara um val á umsjónarkennurum. Enda þótt rétt sé að skólastjórnendur starfi í náinni samvinnu við aðra starfsmenn skólans, þá er brýnt að tryggja faglega og jafnvel fjárhagslega ábyrgð þeirra.
    Í 1. mgr. 21. gr. er gert ráð fyrir því að kennarar miðli fræðslu til foreldra. Er það mjög mikilvægt og gott að efla tengsl skóla og heimila, en til þess þarf þó að skapa svigrúm og áætla tíma til þess.
    Í 25. gr. er hert nokkuð á skilgreiningum á skólahúsnæði miðað við það sem verið hefur. Þetta þarf að athuga í samráði við sveitarfélögin þó vissulega sé brýnt að tryggja góða starfsaðstöðu nemenda. Í 4. mgr. 26. gr. er nokkuð sérkennilegt ákvæði þar sem menntmrn. þarf að samþykkja nafn á skóla. Í 30. gr. er m.a. gert ráð fyrir umsögn kennararáðs við ráðningu skólastjóra. Hér gæti verið um nokkra takmörkun að ræða því væntanlega yrði mælt með starfsmanni innan skólans ef hann býður sig fram til starfans fremur en utanaðkomandi aðila.
    Í 31. gr. er talað um aðstoðarskólastjóra, en mörgum þykir nú liprara orðið ,,yfirkennari``.
    Varðandi ákvæði 33. gr. væri þá ekki markvissara að skólastjóri réði alla starfsmenn að skólanum? Það er heldur ekki í anda valddreifingar að fræðslustjóri eigi að staðfesta ráðningar starfsmanna.
    Í 34. gr. er kveðið á um námsráðgjafa og er það gott mál. En er það framkvæmanlegt þar sem ekki er gert ráð fyrir kennslustundum fyrir þetta starf? Eins og bent er á í þessu nefndaráliti hefur kennslustundum fækkað í þessu frv. frá því sem nú er.
    Í 36. gr. er fræðslustjóra falið að auglýsa stöður skólastjórnenda, kennara og annarra starfsmanna. Það væri í anda valddreifingar til skólanna sjálfra ef skólastjórar sæju um þetta atriði.
    Í 45. gr. er kveðið á um vikulegan kennslutíma í grunnskóla, en á það er bent í nál. að í raun er um fækkun að ræða á kennslustundum hjá 2. -- 10. bekk. Þetta sést glöggt þegar litið er á töflu á bls. 32 í frv.

í athugasemdum við 45. gr. Það er mjög gott að kennslutími yngstu barnanna sé aukinn og kemur vissulega til móts við kröfu í þjóðfélaginu. En fækkunin í heild vekur furðu og felur í sér afturför.
    Í dag eru flestir með 35 vikustundir, plús kennslu á bókasafni fyrir 11 ára og eldri, samtals 36 stundir. En samkvæmt frv. verða stundirnar aðeins 35. Það er spurning hvort ekki ætti að lögbinda 36 -- 37 stundir til þess að von væri um raunverulega lengingu skóladags. Það hlýtur að samræmast betur markmiðinu um einsetinn skóla.
    Frv. sjálfstæðismanna sem flutt var á þingunum 1988 og 1989 komu nokkuð til móts við þessi sjónarmið og er gert ráð fyrir því að í neðri bekkjum grunnskólans verði a.m.k. 6 klukkustundir á dag í stað 5 kennslustunda eins og fyrirliggjandi frv. gerir ráð fyrir. Þannig er vikulegur kennslutími 6 -- 9 ára barna áætlaður 1200 mínútur í tillögum sjálfstæðismanna miðað við aðeins 1000 mínútur í þessu frv. hér. Að auki gerðu sjálfstæðismenn tillögu um skólaathvörf og segir um það í athugasemdum, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Meðan þessu markmiði [þ.e. 6 klukkustundum á dag] hefur ekki verið náð er nauðsynlegt að koma upp skólaathvörfum þar sem börn geti dvalist í öryggi undir umsjón kennara eða annarra sem hafa uppeldisfræðilega menntun. Þótt náð hafi verið því markmiði sem þessi grein gerir ráð fyrir varðandi lengingu skóladags kann engu að síður að vera þörf fyrir skólaathvörf þannig að börn geti dvalist í skóla í allt að 8 klukkustundir. Þess vegna er í þessari grein gert ráð fyrir því að slík skólaathvörf verði við hvern grunnskóla þar sem þörf er á.``
    Verulegar athugasemdir hafa verið gerðar við 50. gr. frv. Hver eru þau námsgögn sem ríkinu er skylt að útvega nemendum? Eru kennslubækur í valgreinum örugglega þar á meðal? Það er enn á valdi Námsgagnastofnunar að taka ákvörðun um það hvaða námsgögn standi nemendum til boða. Vafasamt er að ein stofnun geti haft nægilegt framboð á námsefni. Þess er getið í nál. því sem hér liggur fyrir að þetta ákvæði skerði valfrelsi nemenda og kennara. Um þetta atriði segja bæði fræðsluráð og skólamálaráð Reykjavíkur að með tilliti til þess að hver skóli móti sína eigin skólanámsskrá leggi þetta ákvæði stein í götu skólanna til að ná því marki og að það geti ekki verið á valdi einnar stofnunar að hafa nægilega fjölbreytni í framboði á námsefni. Einnig segir orðrétt:
    ,,Þar að auki kemur fram tvískinnungur um námsgögnin þar sem orðið ,,skyldunám`` er ekki skilgreint. Frv. viðurkennir valgreinar ekki sem órjúfanlegan hluta viðmiðunarstundaskrár. Í þessu sambandi mætti hugsa sér að skólarnir fengju ákveðið fjármagn til kennslugagnakaupa, en það væri ekki bundið við svonefndar úthlutunarbækur Námsgagnastofnunar heldur fengi skólinn og skólastjórnin fjármagn þetta til ráðstöfunar og gæti því keypt námsgögn af hvaða útgefanda sem er.``
    Samkvæmt 3. mgr. 52. gr. á nemandi að ljúka öllu námi í grunnskóla með tilskildum árangri ef hann lýkur náminu á skemmri tíma en tíu árum. Eru það aðeins þeir nemendur sem eru á undan í námi sem þurfa að sýna tilskilinn árangur? Nú eru ekki gerðar kröfur um lágmarkseinkunnir varðandi framhaldsskóla og leiða má rök að því að þetta hafi haft slæm áhrif. Ég veit um dæmi þess að skólastjórar hafi vísað til þróunar í Evrópu og aukinnar menntunarkrafna og samkeppni því samfara er þeir brýna þörfina fyrir nemendum sínum um góðan árangur út úr efsta bekk grunnskóla þar sem þeir hafa lítið annað að styðjast við. Þetta hlýtur að vera mönnum umhugsunarefni enda þótt slíkar athugasemdir eigi í sjálfu sér fullt erindi til nemenda í dag.
    Samkvæmt 55. gr. má nemandi ekki stunda vinnu með námi. Þetta ákvæði gæti hugsanlega spillt fyrir þeim nemendum sem verða að stunda vinnu.
    Í 65. gr. er sagt að nemandi fái skírteini er votti að hann hafi lokið námi samkvæmt lögum. Athyglisvert er að hér eru engar kröfur gerðar um árangur. Samkvæmt lögum og reglugerðum er ekkert ,,fall`` til lengur.
    Í 72. gr. er talað um einkaskóla og er það sérstaklega rætt í því nefndaráliti sem hér er til umræðu. Það er rétt að minna á það að einkaskólar eru í samkeppni, bæði innbyrðis og við ríkisskólana, og það er frjálst val hvers og eins að kaupa þjónustu þeirra eða ekki. Ef þessi grein yrði að lögum þýddi það að menntmrn. gæti hafnað þátttöku í rekstri einkaskóla, en jafnframt ákveðið skólagjöld í þeim sama skóla. Þannig gæti ráðherra sem væri andvígur þessu rekstrarformi gert slíkan skóla óstarfhæfan án þess að svipta hann rekstrarleyfi.
    Hæstv. forseti. Þetta er mjög mikilvægt mál sem hér er til umræðu og er því nauðsynlegt að vanda vel til verks. Það er skoðun okkar nefndarmanna sem stöndum að þessu minnihlutaáliti að hér hafi ekki verið vandað nægilega vel til verka. Þetta frv. þarf að skoða að nýju ef unnt á að vera að nálgast helstu markmið þess sem við sjálfstæðismenn leggjum ríka áherslu á, eins og áður hefur verið getið.
    Við minnum enn fremur á það að alla kostnaðaráætlun vantar, en gera má ráð fyrir því að kostnaður verði mjög mikill samfara þessu frv. Það er einnig ljóst að nú er skammt til þingloka þar sem alþingiskosningar eru á næsta leiti og bíður verkefni þetta því næstu ríkisstjórnar. Með tilliti til þessa og framangreindra athugasemda er hér lagt til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.